Skíðamenn kvarta mikið undan vélsleðaakstri á skíðasvæðinu í Bláfjöllum. Þessi mynd var þó ekki tekin á þeim slóðum heldur við Rauðavatn.
Skíðamenn kvarta mikið undan vélsleðaakstri á skíðasvæðinu í Bláfjöllum. Þessi mynd var þó ekki tekin á þeim slóðum heldur við Rauðavatn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BANNAÐ er að aka vélsleðum utan vega í Bláfjöllum en talsverð brögð eru að því að vélsleðamenn virði bannið að vettugi, ýmist vísvitandi eða vegna vanþekkingar.
BANNAÐ er að aka vélsleðum utan vega í Bláfjöllum en talsverð brögð eru að því að vélsleðamenn virði bannið að vettugi, ýmist vísvitandi eða vegna vanþekkingar. Forstöðumann skíðasvæðisins í Bláfjöllum grunar að ástæðan fyrir því að sumir vélsleðamenn kjósa að brjóta bannið, sé sú að þeir séu að sækjast eftir áhorfendum.

Í Morgunblaðinu í gær var viðtal við ungt par sem slasaðist þegar það ók ofan í gil á Bláfjallasvæðinu. Lýstu þau aðstæðum svo að þau hefðu verið á sléttlendi og í kring hefðu verið stígar fyrir gönguskíðamenn. Enginn var á þarna á ferli þegar slysið varð.

Grétar Hallur Þórisson forstöðumaður segir að miðað við lýsingar þeirra sé fullkomlega ljóst að þau hafi verið innan fólkvangsins. Þar er öll umferð vélknúinna ökutækja bönnuð utan vega og Grétar segir að bannið sé auglýst með skiltum á svæðinu. "Þetta hefur verið töluvert mikið vandamál hjá okkur en við erum frekar máttlausir í því að banna fólki því við erum auðvitað engin lögregla," segir hann. Skíðamenn kvarti mikið undan vélsleðaakstri. Grétar hefur rætt þetta mál við Landssamband vélsleðamanna og hann segir ljóst að reyndir vélsleðamenn þvælist ekki um á Bláfjallasvæðinu. Þá sé nægur snjór á suðvesturhorninu. "Þeir geta verið hvar sem er annars staðar," segir hann.

Ein ástæðan fyrir því að vélsleðamenn sæki í Bláfjöll sé sjálfsagt sú að þeir séu á ferð með öðrum í fjölskyldunni sem ætli á skíði. Vélsleðaakstur og skíðamennska fari á hinn bóginn alls ekki saman. Þá læðist sá grunur að Grétari að sumir vilji hafa áhorfendur þegar þeir þenja sleðana.