Leikstjórinn, Egill Heiðar Anton Pálsson, með  Gísla Erni  Garðarssyni  leikara.
Leikstjórinn, Egill Heiðar Anton Pálsson, með Gísla Erni Garðarssyni leikara.
Höfundur: Enda Walsh. Þýðandi: Magnús Þór Þorbergsson. Leikstjóri: Egill Heiðar Anton Pálsson. Leikmyndarhönnuðir: Eirún Sigurðardóttir og Ólafur Jónsson. Höfundur tónlistar og flytjandi: Hildur Ingveldard. Guðnadóttir. Leikari: Gísli Örn Garðarsson. Rödd af segulbandi: Nína Dögg Filippusdóttir. Föstudagur 21. febrúar.
VERK írska leikskáldsins Enda Walsh hafa verið sýnd vítt og breitt um heiminn frá því leikritið Diskópakk var frumsýnt í Dublin 1996 og sló í gegn. Hann hefur farið mikinn á Edinborgarhátíðum, en taugaáfall kom í veg fyrir að einleikurinn Herra maður rataði þangað. Egill Heiðar Anton Pálsson leikstýrði einmitt Diskópakki í Vesturporti fyrir tveimur árum en nú er komin röðin að Herra manni.

Í vatninu Lough Gill á Írlandi er lítil eyja, Innisfree, en þangað lét írska ljóðskáldið W.B. Yeats hugann reika eitt sinn er hann mældi götur Lundúnaborgar og gerði nafnið ódauðlegt í kvæði. Það er engin tilviljun að Enda Walsh gerir sér mat úr þessum hugleiðingum Yeats, snýr þeim á hvolf og gefur nafn þessar paradísar ljóðskáldsins þorpsómyndinni þar sem hann staðsetur Herra mann.

Aðalpersónan, Thomas Magill, er trúaður ungur maður sem á það til að skilja atburði í lífi sínu á mjög einkennilegan hátt. Í meðförum Gísla Arnar Garðarssonar verður hann geðþekkur og blátt áfram drengur sem fremur skelfileg ódæði í því augnamiði að halda sínum hlut í óskiljanlegum og óvinveittum heimi. Gísli leikur jafnframt nær allar aðrar persónur, fær með því gott tækifæri til að sýna hvað í honum býr og skilar fjölbreyttari og innilegri leik en krafist hefur verið af honum hingað til. Rödd hans heldur áhorfendum við efnið þar sem hún hljómar utan úr köldum, dimmum salnum eins og laus úr tengslum við líkamann en tengist öðru hvoru svipbrigðum ólíkra persóna sem Gísli framkallar á andliti sínu eða varpar jafnvel með myndvarpanum á veggina.

Atferli hans snertir textann stundum beint en er oftar í táknrænum tengslum við efni hans. Uppáfyndingar leikara, leikstjóra og leikmyndahönnuða ætla engan enda að taka: á stundum mætti líkja upplifun áhorfandans við að hlusta á leikriti útvarpað en horfa á óskylda mynd á sjónvarpsskjánum - hugurinn brúar ósjálfrátt bilið milli þessara tveggja heima og býr til samhengi og merkingu úr hljóði og mynd.

Allan tímann hljómar áleitinn sellóleikur í bland við gamla dægurmúsík leikna af bandi. Sellóið er dramatískast allra hljóðfæra, hljómur þess virðist svo oft minna á tíðni mannsraddarinnar og kalla fram sterkar tilfinningar hjá áheyrendum. Auk þessa bætti Hildur Ingveldard. Guðnadóttir einstaka sinnum við áhrifshljóðum í takt við hið myndræna.

Það var hárrétt ákvörðun að grípa inn í á réttu augnabliki og leyfa dramatík verksins að njóta sín með því að leika raddir Gísla Arnar og Nínu Daggar Filippusdóttur af bandi. Þrátt fyrir þá ótrúlegu fjölhæfni sem Gísli Örn sýndi varð að brjóta upp einleiksformið á þessum tímapunkti til að ná tilætluðum áhrifum. Þar endar tilraun aðalpersónunnar til að snerta himnaríki með skelfingu enda neyðist Thomas til að grípa til örþrifaráða til að aðlaga raunveruleikann þeirri draumaveröld sem hann hefur byggt upp í huga sínum og til að geta haldið leiknum áfram.

Áhorfendum sem vilja Enda Walsh óblandaðan gefst seinna meir tækifæri til að njóta vandaðrar þýðingar Magnúsar Þórs Þorbergssonar í útvarpi og geta þá notað eigið ímyndunarafl til að skapa umgjörð að vild. Aftur á móti hvet ég áhugamenn um nýsköpun í leiklist til að missa ekki af þessum gjörningi - hér gildir að sjón er sögu ríkari.

Sveinn Haraldsson