Paradís á jörðu Á ferðum mínum um fjarlæg lönd hef ég iðulega verið beðin um að lýsa landi mínu.

Paradís á jörðu

Á ferðum mínum um fjarlæg lönd hef ég iðulega verið beðin um að lýsa landi mínu. Þegar kom að lífsháttum var ég stoltust af því að segja frá því að þar væri nær 100% læsi, engin fátækt, engin mengun, engin stéttaskipting og eini íslenski herinn væri Hjálpræðisherinn. Nú treysti ég því bara að fyrsta fullyrðingin standist ennþá. Hinum fjórum er því miður gróflega hótað af stjórnmálamönnum þessa eins auðugusta lands jarðarinnar. Hve mörg önnur lönd eru staðsett á gullkistu sjávarfanga og með mengunarlausa orku undir fótum vorum? Því ættum við ekki að getað lifað á og nýtt okkur auðlindir lands vors á sómasamlegan hátt?

Hryðjuverkin voru hafin strax löngu fyrir leyfisveitingu. Stórvirkar vinnuvélar fara hamförum um náttúruperlur Kárahnjúka. Reikningurinn verður sendur til okkar skattborgara. Við erum svipt tækifæri okkar og komandi kynslóða til eignar á óspilltum, óskertum, fögrum, miklum og lifandi þjóðgarði á heimsvísu, "Vatnajökulsþjóðgarði", gæðastimpluðum, okkur til sóma og stolts. Fullkomnum af Guði gjörðum. Þessu ætla ráðamenn, allir sem einraddaður kór, að fórna á altari Mammons. Kaupmáttaraukning er boðorð dagsins! Eitt getum við þó aldrei keypt tilbaka, en það er náttúruperlur Kárahnjúkanna, eftir að búið er að sökkva þeim. Hið mórauða lón yrði þeirra gröf og þar með von okkar og þjóðarstolt.

Ungur sveinn, framtíðar skattborgari, gerðist svo djarfur að reyna að vekja hina dáleiddu valdamenn í hinu háa Alþingishúsi, með því að senda snjóbolta á svalir þess. Lögreglan handtók hann.

Verða nokkrir aurar eftir til t.d. byggingar tónleikahúss eða bara að koma þaki yfir meðferðarstofnunina Byrgið?

Vaknið fósturlandsins freyjur og gumar og verjum þjóð vora! Látið auðvaldsböðla ekki eyðileggja vora dýrmætu arfleifð og skjól.

Frá sjúkraliða.

Fallegt lag

BJÖRGVIN hafði samband við Velvakanda og sagðist hann hafa horft á Júróvision-keppnina og vill hann óska sigurvegurunum til hamingju og óska þeim góðs gengis í keppninni ytra. Sagði hann lagið sem vann fallegt og það hefði heillað hann.

Poki með náms- bókum í óskilum

POKI með nýjum námsbókum og öðrum smáhlutum er í óskilum í Pennanum-Eymundsson í Austurstræti. Hægt er að vitja hans í verslunina sem er opin alla daga til kl. 10 á kvöldin.

Kámús er týnd

HIN virðulega, tæplega 16 ára gamla Kámús, til heimilis að Ránargötu 20, hvarf að heiman þ. 19. febrúar . Kámús er hvít og grá og hefur mjög tapað holdum frá því að myndin var tekin. Kámús var með ólarofnæmi og því alveg ómerkt. Eigendur biðja nágranna að svipast um í kjöllurum og bílskúrum. Ef einhver telur sig vita um Kámús þá eru símanúmer eigenda: 8990634 og 8964600.

Grá kanína í óskilum

LÍTIL grá kanína er í óskilum í Dýraathvarfi Watsons í Víðidal. Upplýsingar í síma 5523044.