Suica-snjallkorthafar ganga í gegn um brautarpallshlið á lestarstöð í Shinjuku í Tókýó. Þeir nota snjallkortin í stað þess að framvísa farmiðum.
Suica-snjallkorthafar ganga í gegn um brautarpallshlið á lestarstöð í Shinjuku í Tókýó. Þeir nota snjallkortin í stað þess að framvísa farmiðum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
MANNFJÖLDINN streymir í gegnum lestarstöðvar Tókýóborgar. Fólkið er of upptekið til að sóa nokkrum tíma, það talar í farsíma, margir hlusta á geislaspilarann í vasanum.
MANNFJÖLDINN streymir í gegnum lestarstöðvar Tókýóborgar. Fólkið er of upptekið til að sóa nokkrum tíma, það talar í farsíma, margir hlusta á geislaspilarann í vasanum. Við hliðin að brautarpöllunum svipta farþegarnir á loft snjallkortum sínum í stað þess að tefja við að framvísa farmiðum.

Þótt snjallkortatæknin sé skammt komin víðast hvar annars staðar hafa hinir nýjungagjörnu Japanir tekið þeim fagnandi, einkum til nota í daglegum ferðum sínum til og frá vinnu. Kortin líkjast hefðbundnum greiðslukortum úr plasti, með innbyggðri örflögu, og gera notendum kleift að inna greiðslu af hendi reiðufjárlaust og án þess að það þurfi að renna kortinu í gegnum "posa". Þess má geta að hér á landi hafa snjallkort verið tekin í notkun m.a. sem aðgangskort að líkamsræktarstöðvum.

Í Japan er vandinn ekki sá að fá fólk til að nota kortin, heldur sá hvernig hægt er að gera notkunarmöguleika þeirra fjölbreyttari, svo sem til að verzla, greiða fyrir tónleikamiða og svo framvegis.

Nú þegar bera um 5,6 milljónir viðskiptavina Járnbrautarfélags Austur-Japans Suica-snjallkortið sem aðgangskort að lestum fyrirtækisins á Tókýósvæðinu, en það er um helmingur allra þeirra sem ferðast reglulega með lestum þess á þessum leiðum. Félagið byrjaði að selja kortin fyrir ári.

"Þetta er svo þægilegt," segir Yusuke Hirohama, átján ára stúlka sem notar Suica-kortið svo til daglega.

Ólíkt öðrum sambærilegum kortum, sem eru í notkun annars staðar, virka Suica-kortin í allt að 10 cm fjarlægð frá aflestrartækinu. Flestir japanskir notendur þess hafa ekki einu sinni fyrir því að taka kortið upp úr vasanum; hafa það bara staðsett þannig innanklæða eða í veski að samband náist á milli þess og aflestrartækisins er þeir skunda í gegnum brautarpallahliðin. Þetta hefur mikið að segja þar sem tugum eða jafnvel hundruðum annarra farþega að baki manni liggur líka á að komast í gegn.

Reyni einhver að komast í gegn án þess að hafa gilt kort eða farmiða stöðvast snúningshliðið og viðvörunarsónn fer í gang.

Gæti reynzt gullnáma

Velgengni Suica-kortsins meðal fólks sem notar lestarnar daglega gæti reynzt framleiðendum þess mikil gullnáma. Hliðstæðar tæknilausnir sem kynntar hafa verið í Japan hafa ekki virkað jafn vel.

Sony-samsteypan, sem þróaði Suica-kortakerfið, rekur í Japan einnig sitt eigið snjallkortakerfi, sem kallað er Edy (stytting fyrir "evra, dollar, jen"). Með því er hægt að greiða fyrir vörur og þjónustu í um 2.100 fyrirtækjum í Japan, m.a. í matvöruverzlunum og á veitingahúsum. Notendurnir eru þó ekki orðnir fleiri en um 650.000.

Því eru vonir bundnar við að nú, er svo margir og raun ber vitni hafa stokkið á lestarsnjallkortið, verði hægt að hraða því til muna að almenningur fari að nota snjallkort í ríkari mæli í stað reiðufjár eða hefðbundinna greiðslukorta.

Tókýó. AP.