Ingibjörg Karlsdóttir, leikmaður Hauka, sækir að marki ÍBV í leik liðanna í Ásgarði á dögunum, þar sem Eyjastúlkurnar Birgit Engl og Ingibjörg Jónsdóttir eru til varnar. Haukar fögnuðu sigri, 27:25, en fyrr í vetur lagði ÍBV Hauka á heimavelli, 27:22.
Ingibjörg Karlsdóttir, leikmaður Hauka, sækir að marki ÍBV í leik liðanna í Ásgarði á dögunum, þar sem Eyjastúlkurnar Birgit Engl og Ingibjörg Jónsdóttir eru til varnar. Haukar fögnuðu sigri, 27:25, en fyrr í vetur lagði ÍBV Hauka á heimavelli, 27:22.
"LEIKMENN HK fara með meira sjálfstraust í leikinn en Afturelding. HK hefur gengið betur og liðið er einfaldlega að toppa um þessar mundir.

"LEIKMENN HK fara með meira sjálfstraust í leikinn en Afturelding. HK hefur gengið betur og liðið er einfaldlega að toppa um þessar mundir. Þar af leiðandi eiga leikmenn HK að vera öruggari með sig, en úrslitaleikir í bikar eru kapítuli út af fyrir sig, í hann leggja menn allt sem þeir eiga í vopnabúrum sínum," segir Viggó Sigurðsson, þjálfari Hauka, sem unnið hafa bikarkeppnina undanfarin tvö ár, þegar hann var spurður út í viðureign HK og Aftureldingar í úrslitum bikarkeppninnar í dag.

Bæði lið eru vel að því komin að vera í úrslitum, hafa slegið út erfiða andstæðinga þannig að ég reikna með að það sé gífurleg stemmning og tilhlökkun í báðum liðum fyrir úrslitaleikinn," segir Viggó sem telur HK vera líklegra til þess að standa uppi sem sigurvegari, hampa bikarnum í leikslok. "Á pappírunum eru HK-menn sterkari, en þegar komið er út í leik sem þennan þá spennast menn upp og vilja laða allt það besta fram hjá sér. Afturelding er alls ekki með síðri leikmenn, jafnvel betri ef eitthvað er," segir Viggó og bætir því við að mikið eigi eftir að mæða á Bjarka Sigurðssyni, þjálfara og leikmanni Aftureldingar, og Jaliesky Garcia, skyttu HK-liðsins.

"Báðir eru þeir afar mikilvægir sínum liðum, eru öflugar skyttur og því getur dagsformið á þeim riðið baggamuninn. Ef þeir verða upp á sitt besta þá verður um afar jafnan leik að ræða sem getur auðveldlega farið í framlengingu."

Viggó segir að aðal HK-liðsins sé gífurlega barátta og leikgleði og takist liðinu vel upp í þeim efnum sé það illviðráðanlegt. "Afturelding hefur átt tvo mjög góða leiki í vetur, báða í bikarkeppninni, gegn okkur í Haukum og á móti Val. Nú bara spurningin sú hvort Mosfellingum tekst að leika þriðja góða leikinn."

Bæði lið hafa verið áður í úrslitaleik bikarkeppninnar, HK fyrir tveimur árum þegar það tapaði fyrir Viggó og lærisveinum í Haukum og Afturelding fyrir fjórum árum er liðið lagði FH örugglega. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og fæstir leikmanna Aftureldingar nú voru á meðal leikmanna í það skiptið. Flestir leikmanna HK-liðsins léku bikarúrslitaleikinn fyrir tveimur árum og því ætti meiri reynsla að vera fyrir hendi innan raða HK-liðsins.

Viggó telur að dómgæsla geti skipt miklu máli, dómararnir Gunnar Viðarsson og Stefán Arnaldsson, láti leikmenn ekki komast upp með neina vitleysu.

"Það getur verið slæmt fyrir HK að það verða mjög góðir dómarar á leiknum því HK-liðið leikur frekar grófan handknattleik en það mun ekki komast upp með að þessu sinni. Gunnar og Stefán taka fast á slíku," segir Viggó sem telur Aftureldingu hafa heilt yfir betri handknattleiksmenn en HK-liðið hafi hins vegar baráttugleðina framyfir Mosfellinga.

Afturelding með betri handknattleiksmenn

"Sverrir Björnsson, Daði Hafþórsson og Valgarð Thoroddsen hafa allir valdið vonbrigðum á leiktíðinni, leikið undir getu. Miklu máli skiptir fyrir Aftureldingu að þeir nái sér á strik. Heilt yfir tel ég að Afturelding sé með beri handknattleiksmenn en HK vinnur mikið upp á gríðarlegri baráttu og seiglu sem á eflaust eftir að kosta liðið marga brottrekstra ef að líkum lætur. Það verður síðan að koma í ljós hvort Aftureldingu tekst að færa sér það í nyt.

Það er erfitt að segja til um hvort liðið vinnur, en eitt er víst, leikurinn verður jafn og spennandi," segir Viggó Sigurðsson, þjálfari Hauka.