Jón Gunnar Sigurjónsson (lengst t.v.), Rósa Benediktsdóttir og Jóhannes Pálsson skoða loðnuna í gær.
Jón Gunnar Sigurjónsson (lengst t.v.), Rósa Benediktsdóttir og Jóhannes Pálsson skoða loðnuna í gær.
LOÐNAN er nú gengin upp á landgrunnið og eru sjómenn vongóðir um góð aflabrögð á næstu vikum, svo fremi sem veður hamlar ekki veiðunum. Loðnuflotinn var í gær við veiðar á Lónsbugt en skipin hafa ekkert getað stundað veiðarnar í rúma viku vegna veðurs.
LOÐNAN er nú gengin upp á landgrunnið og eru sjómenn vongóðir um góð aflabrögð á næstu vikum, svo fremi sem veður hamlar ekki veiðunum. Loðnuflotinn var í gær við veiðar á Lónsbugt en skipin hafa ekkert getað stundað veiðarnar í rúma viku vegna veðurs. Hrognafylling loðnunnar er nú orðin nægilega mikil til að hefja megi frystingu á Japansmarkað.

"Loðnan er loksins komin upp í fjörurnar. Okkar var farið að lengja dálítið eftir henni, hún er nokkuð seint á ferðinni í ár og hrognafyllingin er orðin um 15%," sagði Sveinn Ísaksson, skipstjóri á loðnuskipinu Víkingi AK í samtali við Morgunblaðið í gær. "Loðnan er nokkuð dreifð og það hefur ekki verið nein kraftveiði ennþá en hún á eftir að þétta sig og þá verður hægt að moka henni í land, að því gefnu að tíðarfarið haldist skaplegt."

Ótíð hefur mjög sett mark sitt á vetrarvertíðina síðustu vikurnar. Víkingur AK var í gær á leiðinni til löndunar á Akranesi með um 1.250 tonn. "Við hefðum getað tekið 100 tonn í viðbót en ég ákvað að vera ekki að fylla skipið í þetta sinn. Það er betra að hafa borð fyrir báru ef veðrið versnar," sagði Sveinn.

Fremur smá loðna

Súlan EA landaði um 800 tonnum hjá Síldarvinnslunni hf. í Neskaupstað í gær og fór hluti farmsins til frystingar. Jón Gunnar Sigurjónsson verkstjóri sagði að loðnan væri orðin frystingarhæf á Japansmarkað, hrognafyllingin nægileg og loðnan átulaus. Hún væri hins vegar heldur smá, um 55 til 60 stykki væru í kílói.

Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson er við rannsóknir á loðnumiðunum en Hjálmar Vilhjálmsson leiðangursstjóri segir lítið að marka mælingar enn sem komið er.