STARFSMENN áfengiseinkasölu ríkisins í Svíþjóð drekka næstum 50% meira áfengi en aðrir landsmenn til jafnaðar. Er það niðurstaða könnunar, sem gerð var meðal þeirra.
STARFSMENN áfengiseinkasölu ríkisins í Svíþjóð drekka næstum 50% meira áfengi en aðrir landsmenn til jafnaðar. Er það niðurstaða könnunar, sem gerð var meðal þeirra.

Röksemdir sænskra yfirvalda fyrir einkasölu ríkisins á áfengi eru ekki síst þær, að með henni sé í raun verið að takmarka áfengisneyslu og draga um leið úr þeim alvarlegu afleiðingum, sem henni geta fylgt. Af þessum sökum meðal annars hefur könnunin vakið mikla athygli og hefur stjórn einkasölunnar ákveðið að herða reglur um áfengisneyslu starfsmanna. Karlmenn í hópi starfsmannanna kváðust drekka 7,7 lítra af hreinum vínanda á ári en landsmeðaltalið er 5,2 lítrar. Konurnar áætluðu sína drykkju 3,7 lítra en meðaltalið er 2,7 lítrar. Þá kemur fram, að sjö af tíu karlmönnum og sex af tíu konum fóru að drekka meira eftir að hafa hafið störf hjá einkasölunni.

Björn Rydberg, talsmaður einkasölunnar, sagði, að svo virtist sem starfsmennirnir drykkju ekki verr en aðrir í hvert sinn en augljóslega oftar en almennt gerðist. Hann tók hins vegar skýrt fram, að starfsfólkið fengi ekki áfengi á öðrum kjörum en aðrir landsmenn.

Stokkhólmi. AFP.