*LEIKMENN kvenna- og karlaliðs ÍBV í handknattleik komu með Herjólfi til Þorlákshafnar skömmu fyrir hádegi í gær, en karlaliðið lék við FH í Kaplakrika á Íslandsmótinu í gærkvöld.
*LEIKMENN kvenna- og karlaliðs ÍBV í handknattleik komu með Herjólfi til Þorlákshafnar skömmu fyrir hádegi í gær, en karlaliðið lék við FH í Kaplakrika á Íslandsmótinu í gærkvöld. Þangað fór kvennaliðið til þess að styðja við bakið á karlaliðinu sem ætlar að endurgjalda stuðninginn með því að mæta í Laugardalshöllina í dag og fara fyrir stuðningsmönnum kvennaliðsins þegar það mætir Haukum í úrslitaleiknum í bikarkeppninni kl. 13 í dag. *Saman halda liðin síðan með Herjólfi kl. 17 í dag, hver sem úrslit bikarleiksins verða. Auk liðanna kom þó nokkur hópur stuðningsmanna Eyjaliðsins með Herjólfi til Þorlákshafnar í gær og von er á fleirum í dag, bæði sjó- og flugleiðina, ef veður verður skaplegt til ferðalaga.

*Unnur Sigmarsdóttir, þjálfari kvennaliðs ÍBV, segir áhugann fyrir leiknum vera gríðarlegan og von sé á stórum hópi Eyjamanna til fastalandsins í dag til þess að hvetja kvennaliðið til dáða. "Ég vonast bara eftir að veðrið verði gott svo að sem flestir geti komið," sagði Unnur í gær, en hún var þá nýstigin af skipsfjöl. Unnur sagði enn fremur að Eyjaliðið treysti einnig á stuðning brottfluttra Eyjamanna sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

*"Það er geysilegur áhugi fyrir leiknum í Eyjum og miklar kröfur gerðar til liðsins eftir að hafa unnið bikarinn tvö síðustu ár auk þess sem við erum efstar í deildinni. Það er því ágætt að komast úr spennunni í Eyjum síðasta sólarhringinn fyrir leikinn," sagði Unnur.

*Allir leikmenn Eyjaliðsins eru klárir í slaginn gegn Haukum í dag og sagðist Unnur vænta hörkuleiks þar sem allt verði lagt í sölurnar.