Eriksson
Eriksson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SIR Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að forsvarsmenn félagsins hafi verið búnir að komast að samkomulagi við Sven Göran Eriksson á síðasta ári þess efnis að hann tæki við starfinu af Ferguson sem hugðist hætta eftir lok sl.
SIR Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að forsvarsmenn félagsins hafi verið búnir að komast að samkomulagi við Sven Göran Eriksson á síðasta ári þess efnis að hann tæki við starfinu af Ferguson sem hugðist hætta eftir lok sl. keppnistímabils.

Ferguson fullyrðir í viðtali við dagblaðið The Times að Eriksson hafi verið tilbúinn að hætta sem landsliðsþjálfari Englands að lokinni keppni á HM í S-Kóreu og Japan sl. sumar. Forráðamenn félagsins neituðu þessum orðrómi á sl. ári.

"Ég held að þeir hafi verið búnir að gera samning," segir Ferguson og er nokkuð viss í sinni sök. "Ég held að samningsaðilar hafi verið búnir að takast í hendur en þeir gátu ekki gert samninginn opinberan þar sem Eriksson var enn landsliðsþjálfari Englendinga."

Ferguson segir enn fremur að stjórn félagsins hafi leynt þessum upplýsingum gagnvart honum þar sem honum væri ekki treystandi til þess að halda þeim útaf fyrir sig.

Skotinn skipti hins vegar um skoðun og samdi til þriggja ára við félagið. Hann hefur látið í veðri vaka að fyrrum aðstoðarmaður hans, Steve McClaren, sé rétti maðurinn í starfið þegar hann muni hætta en hann telur að stjórnin vilji fá Eriksson þar sem hann sé maður sem láti vel að stjórn.

"Ég held að Eriksson hefði verið auðveld lausn fyrir félagið því hann breytir engu og það gerist ekkert hjá honum. Hann myndi aðeins segja að liðið hefði leikið vel í fyrri hálfleik en ver í þeim síðari, en hann væri samt sem áður ánægður með úrslit leiksins," segir Ferguson.

Að undanförnu hafa enskir fjölmiðlar sagt að stirt væri á milli Eriksson og Ferguson og þykir viðtalið í The Times styrkja þá skoðun. Í mars mun enska knattspyrnusambandið funda með knattspyrnustjórum úrvalsdeildarliða þar sem landsliðsmálin verða rædd en félagslið á Englandi þykja hafa mikil völd yfir leikmönnum sínum og er Eriksson mjög ósáttur við að fá aðeins að nota þá í takmarkaðan tíma í vináttulandsleikjum.

Peter Kenyon stjórnarformaður Manchester United neitaði því í gær að félagið hafi rætt við Sven-Göran Eriksson. "Við fengum besta manninn í starfið, Alex Feguson, þegar hann ákvað að skrifa undir samning til þriggja ára. Á meðan það var ekki ljóst ræddum við m.a. Martin O'Neill (Celtic) og Fabio Capello (Róma), en við ræddum aldrei við Eriksson," segir Kenyon.