"ÞETTA verður hörkuviðureign, ekta bikarúrslitaleikur enda eru þarna á ferðinni tvö af þremur sterkustu liðum landsins í kvennahandknattleiknum," segir Matthías Matthíasson, þjálfari Stjörnunnar, þegar hann var beðinn að spá í spilin fyrir bikarúrslitaleik ÍBV og Hauka í Laugardalshöll í dag. "Úrslitin ráðast fyrst og fremst af því hvernig stemmningin verður hjá liðunum þegar þau mæta til leiks."
Matthías segir að bæði lið hafi yfir mikilli reynslu að ráða og hún sé eflaust meiri hjá Hauka-liðinu sem hafi leikið saman lítið breytt árum saman. "Hauka-liðið hefur eflst upp á síðkastið, meðal annars eftir að Brynja [Steinsen] kom inn í það þá nýjan leik.

Þetta verður skemmtilegur og spennandi leikur og nær ógjörningur að spá um úrslit. Ég hallast þó frekar að sigri ÍBV og byggi það fyrst og fremst á því að liðinu takist að sýna sitt rétta andlit og koma í veg fyrir að Haukarnir fái mörg hraðaupphlaup, en í sterkri vörn og vel útfærðum hraðaupphlaupum felst einn helsti styrkleiki Haukanna um þessar mundir," segir Matthías.

Styrkleiki Hauka felst fyrst og fremst í vel skipuðu liði sem hefur valinn mann í hverju rúmi, að mati Matthíasar. "Allir útileikmenn liðsins geta tekið af skarið og rekið smiðshögg á sóknirnar. Þá er talsverða reynsla fyrir hendi auk þess sem markvörður Eyja-liðsins, Vigdís Sigurðardóttir, er öflug," segir Matthías.

Sterk liðsheild er aðal Haukanna að mati Matthíasar auk góðrar varnar og vel útfærðra hraðaupphlaupa. "Sterk liðsheild fleytir Haukunum langt. Liðsmenn eru vanir að vera í úrslitaleikjum og þekkja hvað þarf til þess að vinna," segir Matthías.

"Ég á ekki von á öðru en viðureignin nú geti orðið keimlík úrslitaleik liðanna fyrir tveimur árum, sem var mjög jafn og framlengja þurfti til þess að knýja fram úrslit. Þá hafði ÍBV-liðið betur og ég tel það einnig vera sigurstranglegra að þessu sinni," segir Matthías Matthíasson, þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar sem metur stöðuna sem svo að fyrirliði ÍBV hampi bikarnum í leikslok í dag, þriðja árið í röð.