Einu sinni var þessi maður kallaður Svarthöfði og myndin Stjörnustríð.
Einu sinni var þessi maður kallaður Svarthöfði og myndin Stjörnustríð.
ÞAÐ ER sorglegt til þess að vita að sumum þyki það beinlínis lummó að vilja viðhalda íslenskri tungu.
ÞAÐ ER sorglegt til þess að vita að sumum þyki það beinlínis lummó að vilja viðhalda íslenskri tungu. Einkum ber á þessu sérkennilega viðhorfi í afþreyingargeiranum, hjá þeim sem reka kvikmyndahús, sjónvarpsstöðvar eða selja og dreifa myndböndum og mynddiskum.

Íslensk málstöð gerði á dögunum alvarlega athugasemd við slæleg vinnubrögð kvikmyndahúsanna sem væru næstum með öllu hætt að íslenska titla á erlendum kvikmyndum sem hér eru sýndar. Þetta er hárrétt athugasemd og tímabær því á liðnum árum hafa kvikmyndahúsin svo gott sem látið af þeim góða og gilda sið sem hafður var í heiðri allt síðan kvikmyndasýningar hófust fyrir góðri öld síðan. Hér áður fyrr þekktum við erlendar myndir þannig undir íslenskum nöfnum þeirra, Sound of Music var þekktari undir nafninu Tónaflóð, Gone with the Wind sem Á hverfanda hveli, Star Wars sem Stjörnustríð, Raiders of the Lost Arc sem Ránið á týndu örkinni og Grease sem Koppafeiti ... æ, nei þetta síðastnefnda gekk kannski ekki alveg upp, ekki frekar en flatbakan. En jafnvel þótt sum íslensku nöfnin hafi verið betur heppnuð en önnur - Víkverji átti t.d. erfitt með að nota Bilun í beinni útsendingu yfir The Fisher King, hvað þá Illa farið með góðan dreng yfir Turk 182 - þá snerist málið hér áður fyrr um "prinsípin", að bjóða Íslendingum upp á að kalla kvikmyndir íslenskum nöfnum, jafnvel þó það væri Tveir á toppnum, Tveir í stuði, Makleg málagjöld eða Fjör í gaggó - aftur og aftur. Auðvitað er eðlilegt að við sem tölum íslensku notum íslensk heiti á kvikmyndum, rétt eins og okkur þykir sjálfsagt að erlent efni sem boðið er upp á á Íslandi sé yfir höfuð þýtt á íslensku.

ALVARLEGUSTU tilfellin eru náttúrlega þegar ekki einu sinni er haft fyrir því að þýða nöfn á barnamyndum - sem þó er oftast gert, sbr. Skrímsli hf., Villti folinn, Gullplánetan og Leikfangasaga. En syndirnar eru þó allnokkrar og alvarlegar. Hver vegna er t.d. alltaf verið að tala um Two Towers þegar það liggur í augum uppi að mjög þjált sé að nota Turnarnir tveir eða þá þýðingu Þorsteins Thorarensens Tveggja turna tal? Og hvers vegna gátu krakkar leikandi vanið sig á að nota Stjörnustríð fyrir 20 árum en eru nú talandi um Episode I: Phantom Menace og Episode II: Attack of the Clones? Hvers vegna þurfa krakkarnir alltaf að tala um Shrek, Lilo & Stitch og Jimmy Neutron þegar þau hafa í gegnum tíðina ekki sett fyrir sig að kalla Donald Duck/Anders And Andrés önd og Asterix Ástrík?

SJÓNVARPSSTÖÐVAR hafa síðan gert sig sekar um það síðustu árin að þýða ekki nöfn þátta. Hvað er að því að kalla Law and Order Lög og reglu eða JackAss Kjánaprik? Ekkert. Ekki frekar en þegar þjóðin talaði um Dýrlinginn í staðinn fyrir The Saint og Löður í stað Soap. Gæfa og gjörvileiki var meira að segja betra en Rich Man, Poor Man og Húsbændur og hjú var líka betra en Upstairs, Downstairs.

Íslenskan er ekkert lummó. Það er lummó að eiga sér tungumál og nota það ekki.