UNDANFARNAR vikur hefur svokölluð læknadeila staðið yfir hér á Suðurnesjum, á milli heilbrigðisráðuneytis og heilsugæslunnar annars vegar, og heimilislækna hins vegar.
UNDANFARNAR vikur hefur svokölluð læknadeila staðið yfir hér á Suðurnesjum, á milli heilbrigðisráðuneytis og heilsugæslunnar annars vegar, og heimilislækna hins vegar. Ég er sjálfur ekki mikið inni í málefnum deiluaðila, þó svo að ég sé tengdur aðila sem lét sér þessi deilumál varða.

Mér virðist málið hafa snúist um það hvort heimilislæknar fengju leyfi til að starfrækja einkastofur samhliða stöðum þeim sem þeir gegndu á Heilsugæslustöð Suðurnesja. Það var hinsvegar talið með öllu ómögulegt að mati yfirboðara heilsugæslunnar og einnig ráðamanna í heilbrigðismálum. Fór svo að meginhluti læknanna sagði upp störfum og í framhaldi varð allt að því læknalaust á heilsugæslunni. Flestum okkar Suðurnesjamanna virtist vera alveg sama um þetta mál. Þetta kom okkur heldur ekkert við. Flestum hefur eflaust fundist þetta vera enn ein kjarabaráttan hjá fólki sem hafði það miklu betra en við hin. En örfáir íbúar sættu sig ekki við að hafa svo til enga lækna hér á svæðinu. Gerðu þeir sér því heimili á biðstofu heilsugæslunnar til að mótmæla þeirri læknaeklu sem brostin var á. Setuverkfall varð því staðreynd. Þó svo að aðeins örfáir Suðurnesjamenn mótmæltu læknaleysinu, telja mátti þá af fingrum beggja handa, varð úr þessu fjölmiðlafár. Grunar mig að gúrkutíð hafi verið hjá fréttamönnum, þá sjaldan sem einhverjar fréttir berast héðan. En eins og oft gerist þegar fjölmiðlar vekja athygli á málum, fóru hjólin að snúast. Fór svo að ákveðið var að halda borgarafund á veitingahúsinu Ránni. Þarna sáu margir tækifæri til að láta á sér bera, og þá sérstaklega þeir sem telja sig mikils metna hér á svæðinu. Mætti þar þokkalegur fjöldi fólks að mati þeirra sem um fundinn sáu. Tóku þar til máls menn sem þekktu til málsins, svo og þeir sem eru fastagestir í ræðupúltum um leið og tilefni gefst. Minna metnir íbúar svæðisins sem vildu láta ljós sitt skína komust þó ekki að, mælendaskrá hafði fyllst. Í lok fundarins var síðan tilkynnt að deiluaðilar ætluðu að setjast að samningaborðum. Þróuðust mál þannig að læknarnir samþykktu að ráða sig aftur til starfa á heilsugæslunni þar til samningar næðust.

En þá kom babb í bátinn. Læknarnir höfðu sagt upp. Uppsagnartíminn var búinn. Það varð því að ráða þá að nýju. Yfirmaður heilsugæslunnar var sá aðili sem læknarnir áttu að semja við um nýjan ráðningarsamning. Í hennar verkahring er meðal annars að halda kostnaði heilsugæslunnar niðri. Var læknunum því boðið velkomið að mæta aftur til vinnu, en ekki átti að ráða þá alla. Áttu þeir sem yrðu ráðnir alveg að ráða við álagið þó færri væru. Sættu læknarnir sig ekki við þetta og sigldu því á önnur mið. Læknaleysi var því enn við lýði á heilsugæslunni. Næsta lausn var sú að bjóða erlendum læknum stöðurnar. Enda skipti engu máli þó sjúklingarnir skilji þá eða ekki, þeir hafa hvort eð er ekkert vit á því sem hrjáir þá. En nú fengu þessir örfáu íbúar sem áður höfðu setið í setuverkfalli nóg. Ruku þeir af stað í annað setuverkfall, en óskuðu nú einnig eftir því að við hinir íbúar svæðisins sýndum stuðning í verki og tækjum þátt, þó ekki væri nema í nokkrar mínútur hver. En ekki jókst fjöldinn á biðstofunni. Nú sáu þeir loksins hvernig var í pottinn búið.

Við hin þurfum ekkert betri þjónustu frá heilsugæslunni. Þótt læknagildi á hvern íbúa hér á svæðinu séu miklum mun færri en annars staðar á landinu, skiptir það okkur engu máli. Þeir læknar sem eftir eru anna alveg okkur hinum. Höfum við ekki hjúkrunarfræðinga? Annars verður maður að passa sig ef maður verður alvarlega veikur. Biðin á heilsugæslunni er það löng að fólk gæti haldið að maður sé í setuverkfalli. Ekki vil ég það. Og hvað með það þó gjöld að heilsugæslu séu nýbúin að hækka? Sjaldan þurfum við að greiða gjaldið, því þessi þjónusta er það lítið notuð af okkur og minna héðan í frá því litla þjónustu er að sækja á Heilsugæslustöð Suðurnesja. Gjaldið eykur líklega líkurnar á því að opna megi hina margfrægu D-álmu. Einnig er búið að spara mikinn aur í launakostnað, sem getur gengið í hana líka. Og hvað með það þó lækna vanti til að manna hana? D-álman verður tæknivædd og flott. Héldu menn virkilega að við hefðum not fyrir hana? Við erum nú einu sinni Suðurnesjamenn, heilsuhraust með eindæmum.

HÖRÐUR A. SANDERS,

Hlíðarvegi 17, Reykjanesbæ.

Frá Herði A. Sanders: