ÉG vek athygli á grein í Fréttaljósi DV eftir Geir Guðsteinsson 1.2. '03 þar sem hann skrifar um starfslokasamninga sem gerðir hafa verið við nokkra menn sem gegnt hafa stjórnunarstörfum hjá vel þekktum stórum fyrirtækjum og stofnunum.
ÉG vek athygli á grein í Fréttaljósi DV eftir Geir Guðsteinsson 1.2. '03 þar sem hann skrifar um starfslokasamninga sem gerðir hafa verið við nokkra menn sem gegnt hafa stjórnunarstörfum hjá vel þekktum stórum fyrirtækjum og stofnunum. Meðal þessara manna má nefna Hörð Sigurgestsson hjá Eimskip, Friðrik Pálsson hjá SH, Þórarin V. Þórarinsson hjá Símanum, Val Valsson hjá Íslandsbanka, Geir Magnússon hjá Olíufélaginu, Ólaf Thors hjá Sjóvá og síðast en ekki síst Axel Gíslason hjá VÍS.

Starfslokasamningur þessara manna veltur á tugum ef ekki hundruðum milljóna króna. Hjá samtökum atvinnulífsins segir Ari Edwald að engin athugun hafi verið gerð á þróun starfslokasamninga hérlendis. Það er þá kannski kominn tími til að svo verði. Einmitt, ítarleg rannsókn á hvaða reglum eða lögum er fylgt við gerð þessara títtnefndu samninga.

Hvort sem það eru fyrirtækin sjálf, atvinnu- eða tryggingasjóðir, ríkið eða sveitarfélög sem eiga að borga brúsann er ég þess nær fullviss að það bitnar á okkur, hinum almennu launþegum, í einhverri ef ekki fullri mynd. Einhvers staðar þarf að taka peningana í þessa hít. Ríkið, fyrirtæki og stofnanir ráðast iðulega í vasa okkar skattgreiðenda með auknum álögum, koma með nýjar, hækka aðrar, hækka tryggingaiðgjöld þó svo tryggingafélögin sýni ársskýrslur upp á jafnvel milljarða í gróða. Bifreiðagjöld hækka, svo ekki sé nú talað um óréttlátan þungaskatt díselbifreiða, t.d. í eigu fatlaðra til eigin afnota. Sá skattur er löngu orðinn úreltur og bæri að afnema. Fasteigna- og lóðagjöld hafa verið þyngd með herferð í hækkun á fasteigna- og lóðamati, sem á sér enga hliðstæðu.

Hver skyldi það vera sem borgar svo brúsann? Erum það ekki við, hinn almenni launþegi? Erum það ekki líka við sem þiggjum í árslaun eitthvað svipað og sumir ofangreindra manna þiggja sem mánaðarlaun?

Snúum okkur aftur að starfslokasamningum við þessa "háu" herra. Þeir hafa eflaust starfað við að byggja upp og efla starfsemi sinna fyrirtækja, styrkt vöxt þeirra og velgengni. En er það ekki einnig svo með flest starfandi fólk? Það er jú það sem byggir upp fyrirtækin í landinu.

Hvað varðar starfslok háttsettra manna þykir flestum eðlilegt að þeir fái einhverja umbun fyrir vel unnin störf. En fæstir þeirra eða engir eru komnir á "lífslokasamning" eins og ég vil kalla það, þótt þeir láti af störfum hjá viðkomandi fyrirtækjum. Starfslokasamningur er gerður við starfsmenn sem gegnt hafa ýmsum stjórnunarstörfum hjá stórum sterkum fyrirtækjum eða stofnunum. Þeir hafa líka þegið vegleg laun og jafnvel ýmis fríðindi að auki fyrir störf sín. Ætti það að vera þeim fyllileg umbun er að starfslokum kemur. Þessir menn hafa iðulega unnið sig upp hvað varðar velgengni í viðskiptalífinu og velferðarkerfinu, og séð vel fyrir lífeyrisréttindum sínum og fjárhagsmálum. Sem sagt ekki á flæðiskeri staddir hvað varðar að geta átt áhyggjulaust ævikvöld. Samt tíðkast að gerður er við þá starfslokasamningur sem hljóðar upp á tugi eða jafnvel hundruð milljóna króna. Sumir þessara manna ganga nánast beint inn í önnur álíka vel launuð störf en halda jafnframt öllum sínum starfslokamilljónum.

Hvar er réttlætið og glóran í þessu öllu?

ELÍN BIRNA ÁRNADÓTTIR,

Vesturholti 6, Hafnarfirði.

Frá Elínu Birnu Árnadóttur: