Í MORGUNBLAÐINU 15. febrúar er einkennileg frétt. Fyrirsögnin er: "Sjálfsvíg óviðeigandi umræðuefni í ræðukeppni".
Í MORGUNBLAÐINU 15. febrúar er einkennileg frétt. Fyrirsögnin er: "Sjálfsvíg óviðeigandi umræðuefni í ræðukeppni". Síðan kom fram að svokölluð "Morfís"-ræðukeppni tveggja framhaldsskóla um sjálfsvíg hafi ekki mátt halda í viðkomandi skólum að ráði skólameistaranna og því verið flutt á þriðja stað "eftir að landlæknir hafði blandað sér í málið". Aðeins 50 nemendum úr hverjum skóla var síðan hleypt inn á keppnina eftir nafnalista og urðu þeir allir að hafa náð 18 ára aldri. Skipulag Morfís-keppna er það að liðin "tala með" eða "á móti" því umræðuefni sem valið hefur verið.

Þetta eru helstu staðreyndirnar sem komu fram í frétt Morgunblaðsins. Það sem vekur undrun eru afskipti landlæknis af málinu. Hvers vegna í ósköpunum er hann að skipta sér af ræðukeppni skólanemenda? Var leitað til hans? Eða blandaði hans sér í málið að fyrra bragði? Á hvaða forsendum kemur ræðukeppni skólanema landlækni eiginlega við? Er slíkt yfirleitt á hans verksviði, burtséð frá því umræðuefni sem um er rætt í slíkum keppnum? Á embætti landlæknis að skipta sér af því sem heyrir undir tjáningarfrelsi eða jafnvel hugsanafrelsi borgaranna?

SIGURÐUR ÞÓR

GUÐJÓNSSON,

Skúlagötu 68, Reykjavík.

Frá Sigurði Þór Guðjónssyni: