AUMINGJAGÆSKA er eitt af vondum viðhorfum sem birtast íbúum landsins með erlent ríkisfang. Annað viðhorfið er fjandskapur, tengdur ótta um að líkur séu á að um sé að ræða afætur, líklegar til að skerða hagsmuni annarra íbúa landsins, spilla samfélaginu.
AUMINGJAGÆSKA er eitt af vondum viðhorfum sem birtast íbúum landsins með erlent ríkisfang. Annað viðhorfið er fjandskapur, tengdur ótta um að líkur séu á að um sé að ræða afætur, líklegar til að skerða hagsmuni annarra íbúa landsins, spilla samfélaginu. Innantómt stærilæti liggur að baki báðum þessum viðhorfum.

Aumingjagæskan á sér t.d. það undarlega birtingarform að Alþjóðahúsið í Reykjavík, miðstöð fjölþjóðlegrar menningarstarfsemi, er nú rekið á grundvelli líknarstarfsemi Rauða krossins, rétt eins og þúsundir landsmanna með erlent ríkisfang séu sérstakrar líknar þurfi. Af eigin raun veit ég að flest þetta fólk er afskaplega vant að virðingu sinni og leggur stolt og ánægt fram skattgreiðslur og önnur framlög til samfélagsins. Það lifir og hrærist í íslenskum menningarheimi, bæði sem neytendur og veitendur og hefur á stundum fórnað margvíslegum verðmætum fyrir það val sitt að dveljast hérlendis. Í lang flestum tilvikum hefur íslenska samfélagið mjög mikið gagn af nærveru þessara nýju íbúa, sem auka á menningarlega fjölbreytni og skemmtun í einsleitnu samfélagi. Það er til háðungar gert, að reisa fólki menningarmiðstöð en flokka rekstur hennar til líknarstarfsemi í þágu bágstaddra!

Fjandskapur og ótti í garð þessa fjölmenna hóps byggist m.a. á þeirri villu að um líklegar afætur á samfélaginu sé að ræða. Alþingi hefur látið slík sjónarmið í ljósi með því m.a. að girða fyrir að einstaklingar með erlent ríkisfang njóti félagslegs öryggis til jafns við aðra á grundvelli félagsmálalöggjafar og sveitarstjórnarlaga. Gerist þeir uppvísir að skorta veraldleg efni og þiggi af þeim ástæðum einhvern félagsþjónustustyrk er viðbúið að dvalarleyfi fáist eigi endurnýjað, að búseturéttur fáist ekki og að umsókn um ríkisborgararétt verði hafnað. Þannig eru skattgreiðendur með erlent ríkisfang hlunnfarnir um það félagslega öryggi, sem þeim er þó ætlað að styðja með sköttum og skyldum sínum! Útilokun frá almennum réttindum blasir við og jafnvel er útlegðardómi hótað fyrir sakir mögulegrar fátæktar eða áfalla. Ekki er þetta eina dæmið um það hvernig stjórnvöld reyna að niðurlægja þennan fjölmenna hóp og vanvirða.

Þvinguð skólaskylda, gagnvart fullorðnum íbúum landsins með erlendar rætur, er meðal laganýmæla á Íslandi að frumkvæði dómsmálaráðuneytisins. Þetta gerist í samfélagi, sem af nirfilshætti hefur ekki getað svarað ásókn útlendinga í íslenskunám með sómasamlegum hætti um árabil. Framtak ráðuneytis dómsmála á sviði menntamála er sérstætt. Reyni menn markvisst að niðurlægja og særa náungann á annarlegum forsendum, bitnar það oftast mest á gerendunum. Eigin sjálfsvirðing gerandans og sæmd bíður mesta hnekki.

BALDUR ANDRÉSSON,

Bugðulæk 14, Reykjavík.

Frá Baldri Andréssyni: