BOÐIÐ var upp á skemmtilegan handbolta á Ásvöllum í gærkvöldi þegar KA-menn heimsóttu Hauka. Jafn og spennandi síðari hálfleikur og tvísýnt var um hvort liðið færi með sigur að hólmi. Í lokin voru Hafnfirðingar ívið sterkari og unnu góðan fimm marka sigur 31:26. Eftir leikinn eru Haukar því komnir í annað sæti deildarinnar, með KA og ÍR, fjórum stigum á eftir Valsmönnum.
Fyrstu mínúturnar voru hægar og var lítið um tilþrif. Jafnræði var með liðunum þar til um miðjan fyrri hálfleik en þá virtist sem langt ferðalag gestanna yrði þeim til ama. Heimamenn gengu þá á lagið og náðu góðu forstkoti - þeir voru komnir með fjögurra marka forystu fimm mínútum fyrir leikhlé, en Arnór Atlason klóraði í bakkann fyrir gestina með tveimur vítaskotum, 15.13.

Síðari hálfleikur byrjaði af talsvert meiri krafti en sá fyrri - mikið kapp hljóp í leikmenn og þurftu dómararnir að hafa sig alla við til að halda stjórn á leiknum. Haukarnir héldu forystu sinni en gestirnir gáfust ekki upp og munurinn varð aldrei meiri en tvö mörk. KA-menn fengu fjölmörg tækifæri til að jafna leikinn en sóknarmennirnir komust ekki langt framhjá sterkri vörn Haukanna. Þegar rétt tæplega tíu mínútur voru eftir til leiksloka náðu gestirnir loks að jafna 25:25 og útlit var fyrir æsispennandi lokamínútur. Heimamenn voru á öðru máli og gerðu sér lítið fyrir og skoruðu næstu þrjú mörk og gerðu um leið út um leikinn í einni svipan. Áhorfendum til mikillar skemmtunar gerðu Haukar svo þrjú mörk á lokamínútunni - hvert öðru fallegra - og úrslitin voru staðreynd, 31:26.

"Við erum mjög sáttir með þennan sigur, það er góður stígandi í liðinu og vörnin var firnasterk. Við vorum samt að gefa þeim of mikið af hraðaupphlaupum og hefðum mátt nýta sóknir okkar betur. Við höfðum kannski heppnina með okkur í blálokin og áttum að vera búnir að gera út um leikinn miklu fyrr en vorum klaufar. Þeir voru alltaf í skottinu á okkur og hefðu vel getað tekið sigurinn," sagði Viggó Sigurðsson, þjálfari Hauka.

"Við getum ekki kennt dómurum eða ferðaþreytu um ósigurinn, það vantaði einfaldlega einbeitingu í liðið, við mættum ekki tilbúnir og það gengur ekki. Við áttum lélegan fyrri hálfleik en náðum að komast vel inn í leikinn í þeim síðari, eftir að við jöfnuðum þá hættum við að spila okkar bolta - héldum að þetta kæmi af sjálfu sér," sagði Ingólfur Axelsson, vonsvikinn leikmaður KA.

Andri Karl skrifar