SÖGUR af dauða ljósaperunnar eru stórlega ýktar, segir Jóhann J. Ólafsson, forstjóri Jóhanns Ólafssonar & Co, í tilefni frétta um að örsmáir tölvukubbar muni leysa ljósaperur af hólmi innan örfárra ára. Í grein The New York Times nýverið kom m.a.
SÖGUR af dauða ljósaperunnar eru stórlega ýktar, segir Jóhann J. Ólafsson, forstjóri Jóhanns Ólafssonar & Co, í tilefni frétta um að örsmáir tölvukubbar muni leysa ljósaperur af hólmi innan örfárra ára. Í grein The New York Times nýverið kom m.a. fram að ljósaperan væri að verða jafngamaldags og gasluktirnar sem hún leysti af hólmi. Jóhann segir menn lengi hafa spáð ljósaperunni dauða. "Menn virðast ekki átta sig á því að það kemur oft ný notkun til sögunnar og að tæknin breiðist út um heiminn og notendum fjölgar," segir Jóhann.

Hann segir að þrátt fyrir að alls kyns nýjar perur hafi komið á markaðinn hafi hin hefðbundna ljósapera samt haldið velli. Þá megi heldur ekki gleyma í þessu sambandi að menn nota miklu meira ljósmagn nú en áður. "Eiginlega hefði kertaljósið átt að vera dautt fyrir lifandis löngu en menn fundu nýja notkun fyrir kertaljósið og það hefur þróast jafnframt rafmagninu sem svona "hyggeljós" og ég held að núna sé framleitt meira af kertum í heiminum en nokkru sinni í sögu mannsins. Ég hugsa t.d. að verðmæti kertainnflutnings hingað sé ríflega helmingur af innflutningi á ljósaperum í verðmætum talið. Það er dálítið mikið af úreltri vöru."

Ekki hröð þróun

Jóhann segir að menn hafi því ekki þungar áhyggjur af því að að ljósaperan hverfi af markaðinum. "Þróunin er hvorki eins hröð né eins einhlít og menn halda stundum fram. Átti ekki íslenski hesturinn að vera úr sögunni um leið og traktorarnir komu? Samt hefur hestaeign ábyggilega aldrei verið meiri en nú. Þetta sýnir okkur að þróunin er ekki eins hrein og bein og ætla mætti við fyrstu sýn."