SKULDASTAÐA borgarinnar var þrætuepli á fundi borgarstjórnar á fimmtudagskvöld, minnihlutinn sagði skuldastöðuna áhyggjuefni meðan meirihlutinn sagði svo ekki vera.
SKULDASTAÐA borgarinnar var þrætuepli á fundi borgarstjórnar á fimmtudagskvöld, minnihlutinn sagði skuldastöðuna áhyggjuefni meðan meirihlutinn sagði svo ekki vera. Sjálfstæðismenn sögðu vatnaskil hafa orðið í umræðunum þar sem nýr borgarstjóri hefði viðurkennt að skuldir borgarsjóðs og fyrirtækja borgarinnar hefðu aukist um mörg hundruð prósent.

Borgarstjóri sagði að hefði hann komið auga á eitthvað óeðlilegt á yfirferð sinni um skuldastöðuna, til að svara fyrirspurn D-lista, hefði hann óskað eftir úttekt á fjármálastjórn eða ekki þegið starfið ella. Það hefði hann hins vegar ekki gert. Þá sagðist hann aðspurður treysta mati eigendanefndar Landsvirkjunar um að arðsemismat Kárahnjúkavirkjunar væri viðunandi.

16,5 milljarða rauneignaaukning

Björn Bjarnason, oddviti sjálfstæðismanna, sagði svar Þórólfs Árnasonar borgarstjóra við fyrirspurn sjálfstæðismanna um fjármálin, þar sem hann var spurður hvort hann mundi óska eftir úttekt á skuldaaukningu R-listans og hvort hann mundi beita sér fyrir því að snúið yrði af þeirri braut, staðfesta að skuldir borgarsjóðs og fyrirtækja borgarinnar hefðu aukist um mörg hundruð prósent.

Björn sagði ekki nóg að halda því á lofti að fjárfest hefði verið fyrir 75 milljarða á árunum 1994-2002. Nauðsynlegt væri að hafa afskriftir af eignum í huga. Miðað við forsendur í fjárhagsáætlun 2003 hefði þurft að fjárfesta fyrir 58,5 milljarða króna á þessum níu árum til að halda óbreyttri eignastöðu borgarinnar. Rauneignaaukning á tímabilinu væri því aðeins 16,5 milljarðar króna.

"Hreinar skuldir borgarinnar á þessu tímabili hækkuðu um 40,4 milljarða. Samkvæmt þessu hefur meginhluti þessarar skuldaaukningar, eða 23,9 milljarðar króna, farið í að halda óbreyttri eignastöðu borgarinnar. Með öðrum orðum þá hefur rekstrarafgangur borgarinnar, borgarsjóðs og fyrirtækja, verið langt frá því að halda í horfinu," sagði Björn.

Kjartan Magnússon, Sjálfstæðisflokki, spurði hver pólitísk sýn borgarstjóra á skuldaaukningu síðustu níu ára væri. "Mun borgarstjóri standa hér keikur og segja að það hafi verið góð fjármálastjórn og ef það var góð fjármálastjórn, má þá búast við að næstu níu ár, eða að minnsta kosti meðan þessi borgarstjóri situr hér við völd, verði sömu fjárhagsstjórn fylgt og skuldir verði auknar kannski um jafn mörg prósent næstu níu ár, eins og síðustu níu ár?" spurði Kjartan.

Mikilvægt að rekstur skili afgangi

Þórólfur sagðist ekki tilbúinn til að skrifa undir að fullyrðingar í fyrirspurn sjálfstæðismanna væru málefnalegar, spurningin væri leiðandi og því gæti hann ekki svarað játandi eða neitandi. "Ég mun skoða með meirihlutanum þau arðbæru verkefni sem borgin getur tekið þátt í, þá mun ég ekki skoða það fyrst hvort við eigum meirihluta í viðkomandi fyrirtæki eða minnihluta," sagði Þórólfur. En samstæðureikningur borgarinnar sýnir stöðuna hjá þeim fyrirtækjum sem borgin á a.m.k. 50% hlut í.

"Það sem skiptir mestu máli er að reksturinn skili afgangi, að ekki sé eytt um efni fram á hverju ári," sagði Þórólfur. Benti hann á að borgin ætti miklar eignir í öðrum félögum, þar sem hún færi með hlut undir 50%. Þar vægi langþyngst 45% eignarhlutur borgarinnar í Landsvirkjun. Benti hann á að fengi Reykjavíkurborg meirihluta í fyrirtækinu myndu skuldir samstæðunnar við það aukast um 100 milljarða á einu bretti. Þetta sýndi svart á hvítu mikilvægi þess að taka eignirnar með í reikninginn.

Borgarstjóri treystir eigendanefnd

Ólafur F. Magnússon, F-lista, spurði nýjan borgarstjóra hvort hann styddi að borgin hefði gengist í ábyrgð fyrir lánum vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Þórólfur sagði eigendanefnd, sem skipuð var til að meta arðsemi virkjunarframkvæmdanna, hafa talið arðsemina nægjanlega og að hann treysti mati hennar.

Sagði Þórólfur að hann hefði ekki hikað við að biðja um úttekt á fjármálastjórnun R-listans, hefði hann fundið eitthvað sem honum þætti óeðlilegt á yfirferð sinni um fjármál borgarinnar. "Þá hefði ég óskað eftir úttekt á starfsemi borgarinnar eða ekki þegið þetta starf ella. En þar sem ekkert slíkt hefur komið í ljós við mína yfirferð þessa fyrstu daga þá tel ég ekki þörf á því nú," sagði hann. Hann lagði áherslu á að hann væri ráðinn til starfa af ráðandi meirihluta, ekkert í pólitískri stefnumótun meirihlutans breyttist við það að hann settist í stól borgarstjóra.

Margþvæld tugga

Alfreð Þorsteinsson, R-lista, sagði með ólíkindum hve mikil málefnafátækt virðist ríkja í herbúðum minnihlutans, að enn skyldi sviðsett umræða um fjármálastöðuna. Sagði Alfreð allt önnur og veigameiri mál bíða úrlausnar hjá borgarstjórn Reykjavíkur, þegar atvinnuleysi væri að stinga sér niður, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Kraftar borgarstjórnar ættu frekar að beinast að þeim málum, "en þessari margþvældu tuggu".

Guðlaugur Þór Þórðarson, Sjálfstæðisflokki, sagði vatnaskil hafa orðið í umræðunni, því í fyrsta skipti hefði borgarstjóri gengist við því að skuldir borgarinnar hefðu aukist.