ÞRÍR óskyldir viðburðir hafa fangað athygli mína. Fyrir fáeinum vikum fór verjandi manns, sem áfrýjað hafði dómi yfir sér til Hæstaréttar, fram á að hugsanleg refsing yrði milduð vegna umfjöllunar fjölmiðla um mál viðkomandi.
ÞRÍR óskyldir viðburðir hafa fangað athygli mína. Fyrir fáeinum vikum fór verjandi manns, sem áfrýjað hafði dómi yfir sér til Hæstaréttar, fram á að hugsanleg refsing yrði milduð vegna umfjöllunar fjölmiðla um mál viðkomandi. Nokkru síðar horfði ég á umdeildan heimildarþátt um bandarísku poppstjörnuna Michael Jackson þar sem börnunum hans þremur brá fyrir. Þau voru með grímur eða blæjur fyrir andliti, og sagðist faðirinn ekki fara með þau út á meðal fólks nema gera þessar varúðarráðstafanir. Börnin minntu á meinta afbrotamenn sem reyna að verjast myndatöku þegar þeir eru leiddir til dóms. Um liðna helgi las ég loks grein Þorsteins J. Vilhjálmssonar á vef Blaðamannafélags Íslands (press.is) þar sem hann gagnrýnir vinnubrögð tímaritsins Séð og heyrt í tilteknum málum á þeirri forsendu að þau brjóti í bága við siðareglur Blaðamannafélagsins. "Það er augljóst," skrifar Þorsteinn meðal annars, "að flestir þeirra sem verða fyrir þeirri ógæfu að rata á forsíðu Séð og heyrt hafa ekki óskað eftir þeirri athygli. Mér sýnist að það sé lenska hjá flestum að líta á þá reynslu einsog nett áfall, slæma flensu sem líður hjá."

Af einhverjum orsökum rifjuðu þessir þrír viðburðir upp fyrir mér grein sem Eiríkur Guðmundsson birti árið 1998 um það sem hann nefndi "innra eftirlit" einstaklinga með sjálfum sér í samfélagi nútímans. Hugmyndir sínar sótti Eiríkur í ritið Gæsla og refsing eftir franska sagnfræðinginn Michel Foucault (1926-1984), ekki síst kaflann "Panopticon". Þar er fjallað um samnefnda fangelsisbyggingu sem breski nytjastefnumaðurinn Jeremy Bentham (1748-1832) teiknaði: "Um er að ræða uppdrátt að hringlaga byggingu með eftirlitsturni í miðjunni. Frá honum var útsýni inní hvern einasta klefa þar sem viðkomandi einstaklingur var sýnilegur 24 tíma sólarhringsins án þess að vita hvort eða hvenær væri með honum fylgst. Byggingin sem slík varð þannig til þess að valdið varð ósýnilegt og sjálfvirkt ... fanginn sem gerir ráð fyrir að hann sé undir stöðugu eftirliti fer í raun að fylgjast með sér sjálfur."

Fangelsi Benthams var aldrei byggt en Foucault hélt því fram að í samfélögum nútímans, utan eiginlegra fangelsisveggja, hefði panopticon-hugmyndin orðið að veruleika þar sem hegðun einstaklinga sé stýrt með flóknu kerfi viðmiðana og gilda og stöðugu eftirliti stofnana og sérfræðinga sem "vaka yfir velferð okkar". Í grein sinni útfærði Eiríkur þessa hugmynd með dæmi af nútímalegri vinnusálfræði þar sem starfsmenn ganga í gegnum þjónustuviljapróf, greindarpróf og áreiðanleikapróf í því skyni að auka framleiðni þeirra en um leið, að sögn, starfsánægju þeirra og vellíðan. Snilldin við fangelsishugmynd Benthams var sú að það gat hver sem var staðið vaktina í eftirlitsturninum í miðjunni og mátti í raun einu gilda hvaða hvatir lágu þar að baki - "forvitni um hátterni hinna fyrirhyggjulausu, barnaleg meinfýsi, þekkingarþorsti heimspekingsins, eða ónáttúra þess sem nýtur þess að njósna eða refsa", hefur Eiríkur eftir Foucault. Hann bætir þó við að í "ímynduðum" eftirlitsturni okkar tíma standi enginn vaktina, "hinn raunverulegi eftirlitsturn er staðsettur innra með okkur sjálfum".

Þetta virðist rökrétt ályktun en viðburðirnir þrír sem ég nefndi í upphafi vekja hjá mér vissar efasemdir. Standa ekki einmitt fjölmiðlarnir vaktina í eftirlitsturni samtímans, beina þaðan kastljósi sínu í einn klefann af öðrum og varpa þaðan myndum inn í alla hina klefana? Hvatirnar að baki flökti ljóssins eru breytilegar. Stundum ræður réttlætiskennd, þekkingarþorsti eða heilbrigð forvitni, stundum óskar viðkomandi þjóðfélagsþegn einfaldlega eftir athyglinni, en því miður kemur líka fyrir að meinfýsi, hnýsni og refsiþörf búi að baki. Af þeim sökum er svo brýnt að "innra eftirlit" blaðamanna sjálfra sofi ekki á verðinum.

JÓN KARL HELGASON