Hulda Hákon: Sjálfsmynd sem sæskrímsli.
Hulda Hákon: Sjálfsmynd sem sæskrímsli.
Í SLUNKARÍKI og í kjallara i8, Klapparstíg 33, stendur yfir sýning á myndaröð Huldu Hákon. Myndaröðin var árið 2000 á sýningu í Kunsthalle Wien, í Austurríki og Almalöv Konstmuseum í Svíþjóð.
Í SLUNKARÍKI og í kjallara i8, Klapparstíg 33, stendur yfir sýning á myndaröð Huldu Hákon. Myndaröðin var árið 2000 á sýningu í Kunsthalle Wien, í Austurríki og Almalöv Konstmuseum í Svíþjóð.

"Þegar ég bjó í New York sendi amma mér konfektkassa," segir Hulda um tilurð verkanna. "Á kassalokinu var mynd af gömlu Íslandskorti sem eignað var Guðbrandi Þorlákssyni. Þar er sjórinn kringum landið fullur af skrímslum. Fljótlega eftir að ég fékk konfektið fóru skrímslin að rata inn í myndir mínar.

Miðin í kringum landið hafa líklega oftast fengið nöfn frá sjómönnum: Háadýpi, Bæli karlsins, Belgableyða, Flæmski hatturinn, Rósagarðurinn, Hnjúkadjúp, Hampiðjutorg, Paradísarhola, Sláturhúsið, Svörtuloftasvið. Nöfnin vekja forvitni og eflaust liggja sögur að baki. Á Hampiðjutorgi hef ég heyrt að mörg nótin hafi rifnað og Hampiðjan hafi eitthvað að gera í kjölfarið," segir Hulda. "Árið 2000 ákvað ég að vinna myndseríu út frá nöfnum á miðunum umhverfis landið og skrímslunum á kortinu. Afraksturinn er átta fjölfeldi. Lágmyndir, akríllitir og hydrostone og MDF."

Sýningarnar standa til 2. mars. Slunkaríki er opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 16-18 og i8 er opið fimmtudaga, föstudaga og laugardaga kl. 11-18, og eftir samkomulagi.