Hector Berlioz
Hector Berlioz
TÓNLIST kemur til með að vera í aðalhlutverki í borginni Graz í Austurríki, sem er menningarborg Evrópu þetta árið, og má nefna sem dæmi að haldið verður áfram að bjóða upp á tónleikaröðina Goð 20. aldarinnar.
TÓNLIST kemur til með að vera í aðalhlutverki í borginni Graz í Austurríki, sem er menningarborg Evrópu þetta árið, og má nefna sem dæmi að haldið verður áfram að bjóða upp á tónleikaröðina Goð 20. aldarinnar.

Síðustu vikur hafa margvíslegir listviðburðir verið í boði í Graz og má nefna sem dæmi tónleikaröðina Þrjár aldir af rússneskri tónlist, sem og heimsókn hins rússneska Mariinský-leikhúss sem er eitt stærsta verk á dagskrá menningarborgarinnar þetta árið. Tekist hefur að sameina einsöngvara, kór, hljómsveit og dansflokk Mariinský-leikhússins undir stjórn Valerý Gergíefs frá Sankti Pétursborg, en Mariinský-leikhúsið er með virtari leikhúsum Rússlands.

Fyrsta sýning Mariinský-leikhússins í Graz var óperan Pique Dame eftir Tsjækofskí og í kjölfarið hafa fylgt Kleópatra eftir Domenico Cimarosa og Oedipus Rex eftir Stravinsky. Enn á þá eftir að flytja Mazeppa, einnig eftir Tsjækovskí, og lokadagskrá heimsóknarinnar verða tvennir tónleikar hljómsveitar Mariinský-leikhússins. Dagskrá Mariinský-leikhússins í Graz er sú fjölbreyttasta sem leikhúsið hefur boðið upp á utan heimalands síns til þessa og þykir gefa góða yfirsýn yfir rússneska tónlist 18., 19. og 20. aldar.

Fjöldi þekktra listamanna á þá eftir að heimsækja Graz á árinu og má nefna sem dæmi bæði Kirov-sveitina og Vínarfílharmóníuna sem leika munu verk eftir listamenn á borð við Pierre Boulez, Helmut Lachenmann, György Ligeti og Olivier Messiaen svo nokkrir séu nefndir.

Deilt um hinstu hvílu Berliozar

Í ÁR eru 200 ár liðin frá fæðingu Hector Berliozar, eins af þekktari tónskáldum Frakka. Afmælið hefur þó nokkuð fallið í skuggann af deilum um lokahvílustað tónskáldsins, en aðdáendur Berliozar deila um hvort flytja eigi leifar hans í Partheon-minnismerkið í París eða ekki.

Sérstök nefnd sem komið var á laggirnar til að skipuleggja hátíðarhöld í tilefni tveggja alda afmælisins hafði séð fyrir sér að hápunktur hátíðarhaldanna yrði er jarðneskar leifar Berliozar yrðu fluttar í Parthenon-minnismerkið 21. júní nk., en sá dagur er dagur tónlistar í Frakklandi. Þessi áform nefndarinnar hafa þó mætt ófyrirséðum mótmælum frá mörgum aðdáendum tónskáldsins, sem og gagnrýnendum hans, sem segja að sem hægrisinni sé Parthenon, minnismerki lýðveldisins Frakklands, alls ekki rétti hvílustaðurinn fyrir tónskáldið.

Berlioz er í dag álitinn sá tónlistarmaður sem hélt uppi merkjum rómantísku stefnunnar á tímabilinu milli Beethovens og Wagners.