I Hugmyndir um þátttöku rithöfunda og annarra listamanna í samfélagsumræðunni hafa verið breytilegar í tímans rás. Stundum telja listamenn það höfuðskyldu sína að láta rödd sína heyrast.
I Hugmyndir um þátttöku rithöfunda og annarra listamanna í samfélagsumræðunni hafa verið breytilegar í tímans rás. Stundum telja listamenn það höfuðskyldu sína að láta rödd sína heyrast. Stundum telja þeir meginhlutverk sitt vera að kanna sína eigin innviði og listarinnar. Sumir segja að hugmyndin um afstöðulist megi rekja til upplýsingarinnar þegar skáld og listamenn tóku beinan þátt í því að breyta samfélaginu, stuðla að útbreiðslu uppfræðingarstefnunnar, almennri upplýsingu. Sennilega hafa þó á flestum tímum verið til einhverjir listamenn sem annaðhvort tóku afstöðu með eða á móti ríkjandi ástandi eða valdastofnunum síns samfélags.

II Á undanförnum misserum virðist sem aukin áhersla hafi verið á einhvers konar samfélagsumræðu í samtímalist hérlendis. Skemmst er að minnast umræðu um kynslóð ungra höfunda síðastliðið haust sem þóttu beina spjótum sínum meir að samfélags- eða samtímamálum en hinir eldri. Talað var um unga reiða höfunda eins og stundum áður. Um þessar mundir stendur einnig yfir sýning Óskar Vilhjálmsdóttur myndlistarmanns í Galleríi Hlemmi sem nefnist Eitthvað annað en þar er reglulega boðað til umræðufunda um mein samfélagsins. Listamenn hafa einnig látið til sín taka í virkjunarmálum að undanförnu og einnig látið til sín heyra hvað varðar heimsmálin, þannig tóku rithöfundar til máls á mótmælafundi gegn innrás í Írak síðustu helgi.

III Erlendis hafa rithöfundar og listamenn einnig tekið til máls um Íraksdeiluna. Þar má finna mismunandi skoðanir. Eins og Nota Bene höfundur Times Literary Supplement benti á fyrir skömmu hefur það ekki verið í tísku lengi meðal rithöfunda að tala fyrir stríði. Þegar breskir fjölmiðlar báðu nokkra höfunda um álit á innrásinni í Írak tóku þeir enda flestir afstöðu gegn henni. Günter Grass sagði að stríðið snerist augljóslega um olíu og ekkert annað. A. S. Byatt tók undir það. Frederick Forsyth telur aftur á móti að maður þurfi að vera bilaður til að halda því fram að Bush myndi ráðast inn í land fjarri heimahögunum nema hann hafi fullgilda ástæðu fyrir því. Salman Rushdie tekur síðan einarða afstöðu með innrásinni sem hann telur nauðsynlega til þess að steypa Saddam Hussein. Nota Bene höfundur þykir ekki mikið til þessara róttæku tilburða höfundanna koma og segir að það þyrfti ef til vill að efna til mótmælafundar fyrir hugsandi fólk sem "getur séð báðar hliðar á málinu". Hún vitnar síðan í Ian McEwan sem segist á írónískan hátt ekki geta gert það upp við sig hvort hann sé friðarsinni eða árásarsinni.

IV Hugsanlega eru þetta tímar íróníunnar frekar en afstöðunnar þegar öllu er á botninn hvolft. Í viðtali sem birtist í Lesbók í dag segir Stefán Máni, einn af ungu höfundunum fyrrnefndu, að reiðir höfundar séu bara reiðir vegna þess að þeir kunni ekki að skrifa. Enn fremur segir hann að höfundar séu stórlega ofmetnir, þeir séu ekki eins merkilegir og menn vilji vera láta, þeir séu ekkert merkilegri en kvikmyndaleikstjórar eða hljómsveitarstjórar. "Hver vill tala við þá? Hver vill lesa grein eftir þá?" spyr Stefán Máni.