Kristín Halldórsdóttir Eyfells
Kristín Halldórsdóttir Eyfells
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Er líða tók á sumar og fram að vetrarbyrjun, eða á liðlega þrem mánuðum, létust sex málarar sem allir hafa meira og minna komið við sögu íslenzkrar myndlistar, hver á fætur öðrum. Á tímabilinu var BRAGI ÁSGEIRSSON mikið til erlendis eða náði ekki að minnast þeirra. Hefur þó lengi verið að gerjast með honum, og lætur nú loks verða af því, að meginhluta í formi tilfallandi upprifjana.
ÞAÐ hefur ekki gerst áður í íslenzkri listasögu að á liðlega þrem mánuðum hafi jafnmargir nafnkunnir listmálarar kvatt jarðvistina og þá líða tók á liðið ár. Fannst þeirra minna en skyldi minnst í fjölmiðlum utan almennra minningarorða vina og ættingja og hér eitt dæmið um ræktarleysi fjölmiðla við hina grónari myndlistarmenn. Reglan hér á blaðinu hefur þó lengi verið að minnast slíkra sérstaklega, hugmyndin komin frá ritstjórninni að hluta, en í þetta sinn var ég mikið á ferð erlendis eða náði ekki að rækta mitt hlutverk ýmissa orsaka vegna. Reyni að bæta það upp í eftirfarandi línum þótt ég verði að takmarka skrifin, eru ekki alveg á þá leið né jafnítarleg og þau hefðu orðið við aðrar kringumstæður.

Stórskornar andlitsmyndir

Fyrst ber að nefna Kristínu Halldórsdóttir Eyfells (f. 1917), sem lést í Orlando/Flórída, 20 júlí, hún var eiginkona Jóhanns Eyfells myndlistarmanns og arkitekts, sonar Eyjólfs Eyfells listmálara. Jóhann sjálfur um árabil prófessor í rýmislist við listadeild Tækniháskólans í Orlando í Flórida. Kristín Eyfells var fatahönnuður að mennt og rak í nær fjóra áratugi kjólaverzlun í Reykjavík. En svo kom að því árin sem eiginmaður hennar var kennari við Myndlista- og handíðaskólann að hugur hennar hneigðist æ meir að sjálfstæðri listsköpun, í framhaldinu öðru fremur málverkinu, og skilaði sér helst í litríkum og stórskornum andlitsmyndum í yfirstærð. Starfsvettvangur Kristínar á myndlistarsviðinu var að meginhluta í Flórída og tók hún þátt í miklum fjölda samsýninga í Bandaríkjunum, einnig allnokkrum í Reykjavík. Marktæk kynni okkar hófust eftir að Jóhann kom að Myndlista- og handíðaskóla Íslands, gerðist svo góður og atorkusamur liðsmaður okkar er fyrir vorum á miklum uppgangsárum sem lengi var og verður í minnum haft. Beggja sárt saknað er þau fluttust til Orlando 1969, er Jóhann var ráðinn þangað, fyrst í eitt ár, og hlaut þá hæsta bónus í allri sögu skólans, síðan fimm, loks tíu og mun svo hafa verið fastráðinn til starfsloka. Ferill sem er afar sjaldgæfur í listaháskólum og ber miklum kennarahæfileikum í skapandi atriðum vitni. Naumast hefði Jóhanni tekist þetta ef Kristín hefði ekki alla tíð staðið föst fyrir við hlið hans, og nú naut hún þess að geta sjálf gengið að list sinni frjáls og óháð. Nánust voru samskipti okkar er við Jóhann vorum fyrstu fulltrúar Íslands á Tvíæringnum í Rostock sumarið 1967, og spúsurnar með í för. Reyndi þá mikið á allt liðið, orðræður hvassar á fundum alþjóðlegu nefndarinnar, og í hinu þrönga rými Skipasafnsins við August Bebel stræti lá við handlögmálum að segja má við uppsetningu myndverkanna, hvorugur okkar sérlega leiðitamur skoðunum þeirra rauðu í austri. Þó greiddist gæfulega úr flestu að lokum, allan tíman uppörvandi að vita af róðunum í nágrenninu, ferðalagið sjálft dýrmæt lífsreynsla. Þessi tími stendur uppúr nú þá ég lít til baka til viðkynningar minnar við Kristínu og Jóhann, óraði aldrei að svo lítið samband yrði á milli okkar eftir að þau hurfu vestur og tel ég að svo hafi einnig verið um þau. Í þá veru og óforvarendis vilja lífsins strik skrifast...

Ólíkir listamenn

Síðasta dag ágústmánaðar lést Guðmunda Andrésdóttir, f. í Reykjavík 1922. Í september Hrólfur Sigurðsson f. í Reykjavík 1922, en ólst upp á Sauðárkróki, einnig Pétur Friðrik Sigurðsson f. 1928 að Sunnuhvoli í Reykjavík, rétt þar sem Kjarvalsstaðir standa nú. Þá létust samdægurs 24. október, þeir Örlygur Sigurðsson og Þórður Guðmundur Valdimarsson sem tók sér listamannsnafnið Kiko Korriró. Að upplagi voru þetta afar ólíkir listamenn, þótt tveir þeirra, Hrólfur og Pétur, væru félagar á listakademíunni í Kaupmannahöfn á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina, meira að segja hjá sama prófessor; Kræsten Iversen (1888-1955). Pétur hélt heim vorið 1949, en Hrólfur 1950, sem einn hinn síðasti af hópnum stóra frá Fróni, en mest munu listspírurnar hafa verið átján samtímis á listakademíunni á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina, sem þótti býsn og furður. Voru sumar brokkgengar jafnt í leik sem starfi ekki síður en landar þeirra í húmanískum fræðum við Hafnarháskólann í aldanna rás. Fyrir þann tíma höfðu vart fleiri en tveir til þrír Íslendingar stundað nám á listakademíunni samtímis eða verið viðloðandi hjá einhverjum prófessornum. Er mig bar að haustið 1950, höfðu hér orðið mikil hvörf og enginn Íslendingur fyrir í reglulegu námi í málunardeildum að ég best veit, en Ólöf Pálsdóttir hjá prófessor Einar Utzons-Frank í myndhöggvaradeild, og svo sást Maríu H. Ólafsdóttur bregða fyrir, en hún hafði stundað nám í málunardeild hjá Axel Jörgensen og var þar trúlega enn viðloðandi. Um veturinn rak ég mig óhjákvæmilega á ýmsar reglur sem höfðu verið settar í margfrægri kantínunni í kjallaranum og giltu einkum um Íslendinga. Nokkrar sögur fóru af aðsópsmiklum víkingunum úr útnorðri, en um þá pataldra er ég lítill heimildarmaður, sem oftar hefur meir borið á þeim aðsópmiklu en hinum. Ragnar Engilbertsson, sonur Engilberts Gíslasonar málarameistara og listmálara í Vestmanneyjum, sem var samtíða Jóni Stefánssyni í Kaupmannahöfn, kom er nær dró jólum, eins og framlenging af hópnum stóra. Hóf að munda pentskúfinn í sjeníklassa Iversens, eins og salur lengra komna var nefndur af nemendum, var hans síðasta ár og frekar laus við.

Bæði Hrólfur og Pétur sóttu til landslagsins um viðföng allan sinn feril, en á mjög ólíkan hátt, pensilstrokur Hrólfs mýkri og sértækari og um leið meira tengdar námsgrunni hans við listakademíuna. Kræsten Iversen var af Bornhólmsskólanum svonefnda, hafði fest sér hús við Svaneke 1920, myndefni frá þeim slóðum honum einkum kær. Má hér koma fram, að Iversen reyndist Íslendingum mjög vel enda leituðu þeir helst til hans, prófessor við Akademíuna frá 1930, rektor 1949-52 og 1954-55. Meðal nemanda hans fyrir stríð má nefna Nínu Tryggvadóttur og Svavar Guðnason.

Pétur Friðrik, sem var mjög bráðger, sótti að meginhluta í íslenzka landslagshefð, með þá Ásgrím og Gunnlaug Scheving sem helstu fyrirmyndir. Arfur hins liðna var honum hugstæðari en stökkið til síðmódernismans, og fyrir sköpunarástríðu eðlislæga leikni og hlutvakin myndefni var hann lengstum einn vinsælasti málari þjóðarinnar. Hélt tylft stærri einkasýninga í Reykjavík og fjölda minni, nokkrar út á landi svo og þrjár erlendis, auk þess að taka þátt í ótal samsýningum heima og erlendis. Pétur Friðrik var sennilega sá eini af stóra hópnum sem lánaðist alfarið að lifa af list sinni alla tíð...

Hrólfur Sigurðsson var hins vegarí af þeirri manngerð að vera ámóta lítið fyrir að halda verkum sínum fram og eldra bróður hans Sigurður Sigurðsson (1916-1996), nemandi Iversens á stríðsárunum. Héldu bræðurnir hvor um sig einungis þrjár einkasýningar á höfuðborgarsvæðinu um sína daga og engin hávaði í kringum þær. Þeim báðum eðlislægt að vera til hlés í listsköpun sinni, stunda fulla vinnu á öðrum vettvangi samfara skapandi athöfnum, Sigurður sem lærimeistari/yfirkennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, frá 1948, allt til starfsloka 1980, en Hrólfur við garðhönnun/landslagsarkitektúr, einnig til 1980. Engu að síður voru þeir með virtustu málurum þjóðarinnar um sína daga og valdir til ábyrgðarstarfa af félögum sínum. Sigurður í sýningarnefnd og formaður FÍM heilan áratug auk þess að vera kosinn í listráð Listasafns Íslands, og vera í stjórn Lista- og menningarsjóðs Kópavogs frá stofnun 1965. Hrólfur í sýningarnefnd FÍM og í kjölfarið kosinn í listráð Listasafns Íslands tvö kjörtímabil...

Guðmunda Andrésdóttir var mér samtíða í MHÍ, veturinn 1948-49, en í kennaradeild og viðvera hennar í myndlistardeild minni en okkar hinna sem vorum skráðir í hana. Guðmunda hafði verið í Stokkhólmi, og í listaskóla Otto Skjöld þar í borg, hann á þeim tíma einn umbrotamesti málari Svía, hún sigld, eins og það nefndist. Ekki laust að við hinir litum nokkuð upp til hinnar forfrömuðu skólasystur okkar fyrir vikið. Annars fór lítið fyrir Guðmundu, hún trúlega minna þurft að sanna sig við kennarana fyrir námið ytra sem þeir hafa viðurkennt, og því lagt höfuðáherslu á bóklegu fögin. Guðmunda er þekktust fyrir að hafa gengið til liðs við Septembersýningarmenn 1952 og sýnt með Septem-hópnum eftir að hann var stofnaður 1974, var einnig vel virk í Listmálarafélaginu meðan það var og hét. Hún var vígð síðmódernískum hugmyndum einkum þeim sem þróuðust frá þeim hjónum Robert Delaunay og Soniu Delaunay-Terk á fyrstu áratugum síðustu aldar með hring- og spirallaga form sem leiðistef. Lengstum umdeild hjá yngri kynslóðum myndlistarmanna og gagnrýnenda, en eftir yfirlitssýningu verka hennar á Kjarvalsstöðum 1990, sem mjög vel var staðið að, tóku þeir og fleiri hana í góða sátt og frá því hefur hróður hennar farið vaxandi...

Sér á báti

Örlygur Sigurðsson telst alveg sér á báti af málurunum sex, erfitt að afgreiða hann í stuttu máli, og þótt ég hafi ekki haft tiltakanlega mikið af neinum þeirra að segja nema sem samtíðarmönnum, persónukynni aldrei náin, voru þau samfelldust hvað hann snerti. Allt frá þeim eftirminnilega degi að þeir Sigurður Sigurðsson voru mættir með hinum geðþekku spúsum sínum á upplyftingu í Handíðaskólanum, á útmánuðum 1949, að mig minnir. Var fyrsta ár Sigurðar sem kennara og þetta kvöld bráðnaði ísinn að segja má, eins og oft skeði um samskipti kennara og nemenda fram á áttunda áratuginn þá kúvending varð á skemmtanahaldi skólans. Urðu mín frumkynni af þeim báðum, sem tóku óframfærna strákinn tali er líða tók á skrallið og fjör að færast í mannskapinn, í augum drengs sigldir meistarar. Hafði og fengið bókina Öfugmælavísur sem Örlygur lýsti á óvenjulega hressilegan hátt í jólagjöf. Í tímans rás átti ég ótal sinnum eftir að hitta Örlyg, þó mest á förnum vegi svo og í rammaverkstæði Guðmundar Árnasonar við Týsgötu, seinna og lengstum Bergstaðastræti 19. Þangað áttu jafnt háir sem lágir erindi og verst að ekki skyldi upptökutæki á þeim stað, hins vegar hefði mátt varðveita fjalir eða skilrúm í innra byrði verslunarinnar í Þjóðminjasafninu, svona líkt og borðið góða sem vissi allt í Hressingarskálanum. Þá átti ég með honum nokkrar eftirminnilegar gleðirispur hér og í Kaupmannahöfn, helst hjá Tryggva Ólafssyni málara, þá svipmestu í Hvidts Vinstue við Kóngsins Nýjatorg, þangað sem listaskáldið góða vandi komur sínar áður, ég nýkominn frá Helsingfors og við allir í þrumustuði. Þangað leitaði ég líka nú á haustnóttum kringum tímann er Örlygur var burt kvaddur heima, fékk mér sæti með bakið í túskteikninguna eftir listamanninn. Lét fara vel um mig um leið og ég lét hugann reika, fletti í nýútkominni ævisögu Johannesar Möllehave sem ég hafði fest mér ásamt bók Tor Nörretranders: "Det generöse menneske, En naturhistorie om at umage giver mage", báðar keyptar að hluta til með Örlyg í huga. Sat þar drjúga stund og hafði mikið gaman af bókunum þótt sú gleði væri blandin og á öllu lægri nótunum, eiginlega glissando í stað C furioso forðum daga.

Trúlega verður Örlygs helst minnst í listasögunni fyrir margar af sínum snjöllu teikningum af samtíðarmönnum. Um listamanninn má svo segja eins og marga starfsbræður, að hann hafi fæðst á röngu útskeri. Má gera því skóna að Danir hefðu til að mynda mun betur kunnað að meta græskulausan húmor Örlygs, þeir enda ekki að safna í magasár. Blaðateikningar og lýsingar bóka alla tíð á mjög frumstæðu stigi hér á landi og engan veit ég sem hefði verið betur fallinn á landi hér til að skapa skóla í blaðateikningum á seinni helmingi síðustu aldar en Örlyg Sigurðsson, hefði hann fengið að nóta sín...

Hálærður í alþjóðalögum

Þórður Guðmundur Valdimarsson, sem tók sér listamannsnafnið Kiko Korriró, mun hafa verið hálærður í alþjóðalögum, nam fyrst við Kolumbía háskólann í New York, síðan fimm ár við Suður-Kaliforníuháskóla, Los Angeles og loks Sorbonne í París. Það er viðtekið fyrirbæri að menn lesi yfir sig, lesi sig yfir í annan heim, og þannig má hafa verið um Þórð, hér skal ekkert fullyrt. En ég hef vitað af honum frá því eftir miðjan fimmta áratug síðustu aldar sem mikinn áhugamann um listir og tíðan gest á listsýningum. Ekki síst fyrir þá sök að hann spáði okkur Guðmundi Guðmundssyni (Erró) mestum frama ungra málara er voru þá að koma fram, sem við kunnum honum góðar þakkir fyrir. Þórður hallaði sér alla tíð að fræðistörfum, var lausamaður og skrifaði í blöð og tímarit, hrekklaus fjarrænn einfari á götum borgarinnar og tíður gestur í almenningsvögnum. Einhvern tíma fór hann sjálfur að fást við myndlist og mörgum mun minnisstæð fyrsta sýning hans í Listmunahúsinu við Lækjargötu sem Knútur Bruun stóð fyrir. Með sýningunni sló hann nafni sínu föstu sem einn okkar athyglisverðustu nævista og nú virtist þessum hægláta og hlédræga manni aukast ásmegin, í öllu falli urðu umsvif hans nokkur á sýningavettvangi eftir þetta og til æviloka, dyggilega studdur af náfrænda sínum, málaranum Gunnari Erni Gunnarssyni að Kambi...

Allir málararnir sex tengdust á sinn hátt íslenzkum myndlistarvettvangi og hér skiptir minna hvort skoðanir fari saman. Meiginveigurinn liggur í markverðu lífshlaupi sem vert er að gefa gaum og kemur íslenzkri listasögu við.