"Dugnaðurinn er á undanhaldi meðal listamanna. Leti einkennir höfunda. Þeir hafa ekki þolinmæði. Það verður að koma verkinu út. Það verður eitthvað að gerast. Annars ertu dauður," segir Stefán Máni sem sendi frá sér sína fjórðu skáldsögu síðastliðið haust er nefnist Ísrael. ÞRÖSTUR HELGASON ræðir við hann.
ÉG flosnaði upp úr menntaskóla og fór að vinna í fiski. Ég eyddi öllum peningunum í ferðalög. Þetta leit ekkert vel út á tímabili. En síðan varð frystihúsið gjaldþrota eins og gengur. Ég gat því ekki unnið mér inn fyrir næstu ferð. Og þá datt ég niður á að fara að skrifa. Sögurnar tóku að leita á mig hver af annarri. Ég hafði aldrei leitt hugann að því að verða rithöfundur," segir Stefán Máni sem sendi frá sér fjórðu skáldsöguna sína síðastliðið haust, og hann heldur áfram: "Ég vissi ekkert út í hvað ég var að fara. Hafði aldrei lesið neitt. Ég var með of mikið sjálfstraust sem byggðist á vanþekkingu. Ég miðaði mig eiginlega ekki við neitt. Kannski hjálpaði það mér í fyrstu. En síðan lækkaði fljótlega í mér rostinn þegar útgefendurnir fóru að hafna mér. Ég fór þá að lesa."

Fyrsta bók Stefáns Mána hét Dyrnar á svörtufjöllum og kom út árið 1996 í eigin útgáfu höfundarins. Myrkravél kom síðan út hjá Máli og menningu árið 1999 og vakti töluverða athygli. Hótel Kalifornía kom tveimur árum seinna og var kölluð "uppgötvun ársins" af gagnrýnendum og síðastliðið haust sendi Stefán Máni frá sér Ísrael - sögu af manni. Bókin fjallar um ævi farandverkamannsins Jakobs, sem kallar sig Ísrael, og er þjóðarsaga síðustu áratuga, eins og segir á bókarkápu. Bókin vakti ekki síst athygli fyrir raunsæislegan frásagnarhátt, nánast smásmyglislegar lýsingar á síbreytilegu sögusviðinu. En Stefán Máni var einnig tengdur kynslóð ungra höfunda sem væru að glíma við samtímann á róttækan hátt, jafnvel reiðilegan. Sjálfur er hann ekki sammála þeirri flokkun.

Hinir reiðu ekki nægilega góðir

"Mér finnst þetta kynslóðatal ekki ganga upp. Það er aftur á móti að verða tímabær og dýrmæt endurnýjun í íslenskum bókmenntum með hópi af ungum höfundum sem margir hverjir gáfu út síðasta haust. Þetta fór reyndar fram hjá flestum fjölmiðlum sem eyddu púðrinu í að kvarta undan þreytu eldri höfunda sem eru að skrifa trílógíur og endurminningar.

Það er erfitt að finna einhvern samnefnara fyrir þessa ungu höfunda, ekki reiði og ekki einlægni þótt sumir þeirra kunni að vera reiðir og einlægir. Sjálfur er ég ekki reiður eins og sumir héldu fram í umræðunni fyrir jólin. Mikael Torfason og Steinar Bragi eru kannski reiðir en ég, Guðrún Eva og Sigurbjörg Þrastardóttir erum öll frekar tempruð. Það er svo annað mál að það virðist vera rúm og jafnvel þörf fyrir unga og reiða rithöfunda nú um stundir en mér þykir þeir sem hafa stokkið inn í þessa glufu satt að segja ekki nægilega góðir pennar."

Það er lítið glímt við hversdagsleg vandamál

Sum ykkar sækja meira í hefðina en önnur. Þú hefur til dæmis verið bendlaður við nítjándu aldar raunsæi og natúralisma og er þá vísað til nákvæmra og stundum smásmyglislegra sviðssetninga. Ertu sjálfur með þessa bókmenntasögulegu tengingu í huga?

"Já, það má segja það. Ég byrjaði á þessu í Hótel Kaliforníu sem var óður til hversdagsins. Ég geng lengra í þá átt í Ísrael. Þar fjalla ég um farandverkamann sem alltaf er að skipta um umhverfi. Heimur hans er alltaf nýr og bókin ber þess merki. Nýr kafli er nýtt upphaf. Mér þótti mikilvægt að koma þessum sínýja heimi sögumannsins til skila í smáatriðum til þess að hann yrði trúverðugur. Hann er alltaf að skipta um vinnu og mér fannst ég þurfa að lýsa nýjum vinnustað og nýjum handbrögðum nákvæmlega. Þannig fannst mér ég koma lífi farandverkamannsins til skila. Hann lifir fyrir einn dag í einu og lífsspeki hans litast af því. Hann fæðist hvern morgun og deyr á kvöldin. Og það eina sem hann tekur með sér í gröfina er hraðspóluð nærmynd af liðnum degi.

Bókin er öðrum þræði skrásetning á hráum hversdagsleika með lykt sinni, áferð og lit. Ég hef áhuga á að skrifa um hluti sem eru nálægir en fara kannski fram hjá fólki dagsdaglega. Og hafa heldur ekki ratað inn í listaverk lengi vel. Ég er hrifinn af Van Gough sem málaði myndir af klossunum sínum eða stólnum í herberginu. Honum tókst að ramma inn hversdagsleikann og lyfta honum upp með litum og áferð og gera hann að fagurfræði.

Um þessar mundir einkennist listheimurinn frekar af raunveruleikaflótta, bæði kvikmyndir, bókmenntir og myndlist. Það er verið að skapa framandi aðstæður eða ýkja tilfinningar og búa til útópíur. Það er lítið glímt við hversdagsleg vandamál."

Yfirþyrmandi hversdagsleiki

Þú þekkir af eigin raun sum þeirra sögusviða sem farandverkamaðurinn fer um?

"Já, ég vann á vertíðum og kynntist þessu lífi. Það réttlætir að hafa unnið alls konar skítavinnu að breyta henni í fagurfræði. Ísrael er byggður á manni sem ég vann með af og til í nokkur ár. Ég byggði einnig að hluta til á viðtölum sem ég tók við gamla vinnufélaga, til dæmis um síldveiðar snemma á áttunda áratugnum og vegagerð."

En eru farandverkamenn nokkuð til lengur?

"Nei, og ég leyfi mér að kalla Ísrael þann síðasta. Heimurinn sem þessir menn hrærðust í er heldur ekki til lengur. Eftir að kvótakerfið kom hefur svo mikið breyst. Það er búið að vélvæða og jafna vinnuálagið yfir árið og flytja inn erlent vinnuafl til að sinna þessum störfum. Og menningarstigið í landinu hefur líka hækkað þótt það sé sorglega lágt. Það þykir ekkert fínt eða töff eða spennandi að vera landlaus, rótlaus, allslaus. Það þykir ekkert rómantískt og ég reyni ekki að gera það rómantískt í bókinni. Ísrael réttlætir tilveru sína með því að búa sér til æðra sjálf, með því að lifa í núinu og vera engum háður, vera opinn fyrir ævintýrum. Hann setur upp töff front. Hann upphefur þetta líf sem manni virðist fremur innantómt. En síðan molnar gríman af honum þegar hann flytur til borgarinnar og stofnar heimili og fjölskyldu. Þá stendur kannski ekki mikið eftir af þessum stolta farandverkamanni. Og það kemur kannski honum sjálfum mest á óvart.

Þessi maður sem ég byggi persónu mína á átti hvergi heima. Líf hans var endurtekinn hringur: Á veturna var hann á verbúð, til dæmis á Vestfjörðum að vinna í fiski, á vorin fór hann í sveit og var kaupamaður fram á haust, fór svo í sláturhúsið, síðan að beita og svo aftur á verbúðina fyrir vestan. Ég hitti hann alltaf á verbúðinni þar sem ég var sjálfur að skrapa saman einhverja aura. Hann átti eina ferðatösku, vinnuföt, skyrtu og buxur en allt var það mjög snyrtilegt, straujað og fínt. Hann átti líka myndir sem hann hengdi á veggina. Hver nýr staður varð heimili hans. Herbergið var aldrei það sama en hann gerði það að sínu með þessum fáu hlutum sem hann hafði með sér. Ég skildi þetta aldrei. Bjó hjá mömmu en var samt alltaf eins og himpigimpi til fara. Ég hafði enga afsökun. Hann hafði aftur á móti sitt stolt. Þó að það væri tómur kaos og viðbjóður í kringum hann hélt hann sínu til haga og var nánast óaðfinnanlegur. Ég leit mjög upp til hans fyrir þetta.

En síðan hitti ég hann fyrir tilviljun hér í borginni löngu seinna. Þá var hann sestur að í Breiðholtinu með fjölskyldu. Hann vann sem sendibílstjóri. Þessi maður var allt annar en sá sem ég hafði kynnst á verbúðinni. Hann var orðinn ósnyrtilegur, taugaveiklaður og illa á sig kominn. Hann virtist ekki lengur hafa stjórn á neinu, skuldaði og var á kafi í hversdagsstressi. Eftir að við kvöddumst fór ég að velta því fyrir mér hvað hefði komið fyrir. Og mér virtist það liggja í augum uppi að óreiða farandlífsins hafði knúið hann til þess að pakka sér saman ofan í eina ferðatösku. Lífið var einfalt. Þegar hann stoppaði og fékk sér fasta vinnu og stofnaði heimili þá leystist hann upp, varð bara að venjulegum slúbbert eins og við hin sem erum með allt niðrum okkur. Þetta er ekki ósvipað því og þegar hermenn koma heim úr stríði; hversdagsleikinn verður yfirþyrmandi og öll þessi daglegu erindi hlaðast upp og verða að einu stóru vandamáli."

Við erum öll orðin að sígaunum

Farandverkamaðurinn gæti verið eins konar táknmynd samtímans, upplausnarinnar, rótleysisins, fjölhyggjunnar, flakksins. Ertu sammála því?

"Ég trúi því að eðli farandverkamannsins sé enn til og verði til áfram í manninum. Það má taka dæmi af @-kynslóðinni sem á að hafa tekið við af x-kynslóðinni. Eitt af hennar helstu einkennum er rótleysið, hún tollir illa í vinnu og er alltaf tilbúin til að flytja burt, flakka milli landa - landamæri skipta ekki máli.

Heimurinn er auðvitað að minnka. Ferðalög eru auðveldari og miðlarnir senda okkur upplýsingar hvaðanæva. Við erum því öll orðin að sígaunum, flökkurum og farandmönnum. Og við erum öll veiðimenn, við klæðumst bara jakkafötum og drögtum. Eðli okkar hefur ekkert breyst þótt umhverfið sé annað."

Að breyta samfélaginu

Hvers vegna kallaðir þú söguna Ísrael?

"Nafnið hefur sterka skírskotun til sögunnar í Biblíunni af Jakobi sem glímir við æðra afl. Hann stendur sig vel og fær í staðinn umbun, æðra sjálf, nýtt nafn, nýtt hlutverk, nýtt líf fyrir að hafa glímt við guð og menn og haft sigur. Og þannig er því farið með manninn í sögunni minni; hann lítur svo á að lífsganga hans sé eyðimerkurganga og hann hafi glímt við guð og menn þótt hann sé ekki viss um hvernig hún muni enda. Og hann tekur sér þetta nafn, Ísrael, og ljær lífi sínu æðri tilgang sem farandverkamaður. Hann á sér draum um að geta breytt samfélaginu fyrir sitt fólk.

Nafnið vísar hins vegar ekki beinlínis til Ísraelsríkis þótt vafalaust megi finna ákveðnar tengingar við það."

Að ná samtímanum á mynd

Þú sagðist lítið hafa lesið framan af en hvað hefurðu lagt áherslu á síðan? Leitaðir þú í hefðina eða samtímabókmenntir? Hvað þykir þér best?

"Bók er bara bók. Ég hef aldrei hugsað í kynslóðum eða stefnum og straumum. Rithöfundur er bara rithöfundur. Hann á ekki að vera öðrum háður. En síðan skrifar hann annaðhvort góða bók eða vonda. Það eru engir aðrir mælikvarðar. Engar aðrar stefnur.

Elsta bókin sem hefur haft áhrif á mig er Gísla saga Súrssonar. Ég er mjög hrifinn af stílnum í henni, að-segja-ekki-frá-of-miklu-stílnum. Síðan er ég hrifinn af Þórbergi. Hann gerir hversdaginn að skáldskap. Hann er fyndinn og er sjálfur mjög nálægur í bókum sínum sem er ekki algengt í íslenskum skáldskap. Fyrir vikið hefur hann verið kallaður ritgerðasmiður en það er misskilningur og bull. Ég er hrifinn af einstökum bókum eftir Laxness. En síðan varð ég fyrir miklum áhrifum af bókum Páls Kristins Pálssonar, Hallærisplaninu og Beðið eftir strætó sem komu út 1982 og 1983, sérstaklega var ég hrifinn af þeirri síðarnefndu. Þar er fjallað um ákveðið dægurfyrirbæri. Hún er eins og polaroid-mynd af fólki í ákveðnum aðstæðum, eins konar undirheimum Reykjavíkur. Það er enginn höfundur að gera þetta núna, að reyna að ná samtímanum á mynd."

Sjálfumgleði einkennir ungu kynslóðina

Hvað finnst þér um bókmenntirnar sem verið er að skrifa núna? Er þetta spennandi umhverfi fyrir ungan rithöfund?

"Mér þykir satt að segja frekar lítið vera að gerast. Mér finnst sjálfumgleði fyrst og fremst einkenna þá kynslóð sem er að ryðja sér til rúms í menningarlífinu um þessar mundir. Þessu fólki finnst það vera best en segir það ekki og hugsar það jafnvel ekki heldur. Það bara er best. Það þarf ekki að sýna fram á það með því að gera eitthvað sem er erfitt eða stórt, það fæst bara við eitthvað þröngt og eitthvað einfalt sem því finnst vera svo einstakt, svo augljóst að það verður algerlega óljóst fyrir okkur hin sem störum tómeygð og þorum ekki að mótmæla. Þetta eru nýju fötin keisarans aftur og aftur en enginn segir neitt vegna þess að sjálfstraust þessa fólks er svo svakalegt. En sjálfstraustið er byggt á vanþekkingu eins og hjá menntaskólanemanum sem birtir ljóðið sitt og heldur að það sé stórkostlegt en hefur aldrei lesið neitt og aldrei reynt neitt. Þetta fólk þekkir ekki söguna, það þekkir ekki vinnumarkaðinn. Þetta er kannski millistéttarlið eða ríkara. Stelpurnar í Sex and the City eru dæmigerðar. Þeim þykir líf sitt vera mikilvægt og merkingarfullt en það er bara fullt af pælingum um skókaup, kærasta og froðukaffi. Og þeim er fúlasta alvara. Það þarf engum að blandast hugur um það.

Þetta er hættulegt ástand. Auðvitað geta ekki allir verið Günter Grass. Það yrði sennilega frekar leiðinleg tilvera. En innantómleikinn er líka leiðinlegur og varhugaverður. Á þessu eru höfundar ekki að taka. Þessir svokölluðu reiðu höfundar hér heima eru bara reiðir vegna þess að þeir geta ekki skrifað. American Psycho var tilraun til að fjalla um þetta ástand en fáir hafa fylgt þeirri bók eftir."

Loftbólulistir

Litar þetta ástand önnur svið samtímamenningar?

"Í myndlist virðist það sama vera uppi á teningnum. Þetta eru loftbólulistir. Sýningar eru einkabrandarar. Þú fattar ekkert hvað er um að vera nema hafa setið á kaffihúsi með þessu liði og hlegið með. Nema þú sért innan í loftbólunni. Andrúmsloftið er eins og í menntaskóla þar sem klíkurnar hafa hver sinn húmor og svo er flissað út í eitt. Listaheimurinn er orðinn eins og langdreginn menntaskóli. Og ástæðan fyrir því hvað þetta er allt frábært að mati gagnrýnenda og almennings er sú að það er ekkert verið að hugsa út í það hvað þetta allt þýðir í raun. Hvað er verið að segja? Ekki neitt! Þetta er bara frábært vegna þess að skólafélagarnir þínir standa fyrir þessu. Og þú nennir ekkert að vera að spá í þetta neitt frekar, þetta er bara enn einn tómstundahópurinn að bardúsa eitthvað. Þetta hlýtur bara að vera frábært vegna þess að þetta ER. Þetta viðhorf er óbrigðult: Ég er frábær vegna þess að ég ER.

En ég er ekkert frábær. Ég veit það. En ég reyni. Ég geri mitt besta. En verð seint ánægður. Ég lít á skrifin sem vinnu. Ég er enn með gúmmíhanskana og í slorgallanum. Og þegar ég flaka fiskinn þá vil ég sjá hrein bein á eftir.

Dugnaðurinn er á undanhaldi meðal listamanna. Leti einkennir höfunda. Þeir hafa ekki þolinmæði. Það verður að koma verkinu út. Það verður eitthvað að gerast. Annars ertu dauður. Óttinn við gleymsku og ófrægð nagar höfunda. Gildismatið hefur brenglast. Maður sér þetta á bókastefnunum þar sem forlögin haga kaupum sínum á útgáfurétti eftir því hvernig höfundurinn lítur út. Það er leitað að sætum stelpum. Og ég veit að mín handrit hafa verið pikkuð út á þessum stefnum vegna þess að ég myndast vel. Og ég veit ekki hvort ég á að vera glaður eða reiður út af því. Þetta er bara ömurlegt. Þetta er ástæðan fyrir því að ég kem ekki fram í spjallþáttum og skrifa ekki greinar í blöðin um virkjunarmál og kvótakerfi og yfirvofandi stríð. Ég er bara höfundur. Og höfundurinn er stórlega ofmetinn maður. Hann er ekki svona merkilegur. Hann er ekkert merkilegri en kvikmyndaleikstjóri eða hljómsveitarstjóri. Hver vill tala við þá? Hver nennir að lesa grein eftir þá? Og hvers vegna nennir fólk þá að lesa greinar eftir höfunda? Þetta er furðulegt. Höfundar eru bestir dauðir."

throstur@mbl.is