"Hálf íslenska þjóðin er tenórar; mezzósópranarnir líka!" Ólafur Árni Bjarnason tenórsöngvari.
"Hálf íslenska þjóðin er tenórar; mezzósópranarnir líka!" Ólafur Árni Bjarnason tenórsöngvari.
"ÉG hef ekki sungið hér í sjö ár," segir Ólafur Árni Bjarnason tenórsöngvari, og bætir því við að sér hafi fundist sem æðri máttarvöld hafi hnippt í sig og sagt að við svo búið mætti ekki lengur sitja, nú væri kominn tími til að syngja aftur...
"ÉG hef ekki sungið hér í sjö ár," segir Ólafur Árni Bjarnason tenórsöngvari, og bætir því við að sér hafi fundist sem æðri máttarvöld hafi hnippt í sig og sagt að við svo búið mætti ekki lengur sitja, nú væri kominn tími til að syngja aftur heima. Það ætlar Ólafur Árni að gera, og heldur tónleika í Íslensku óperunni á morgun kl. 16.00 með píanóleikara sínum Ólafi Vigni Albertssyni. "Aríur og lög sem ég er búinn að vera að þróa með mér í fimmtán ár," segir söngvarinn um efnisskrána; þetta er það sem hann sjálfur myndi vilja heyra á tenórtónleikum. "Íslensku lögin eru perlur, - lög sem mér þykir mjög vænt um; ég syng líka tvær ítalskar antikaríur, eina óperettuaríu og Blómaaríuna úr Carmen. Á seinni hlutanum verður Di quella pira, aría Manricos úr Il trovatore, en ég syng hlutverkið einmitt í Weimar næsta vetur; Addio, fiorito asil, aríu Pinkertons í Madama Butterfly, - ég var að syngja það í Braunschweig nýlega, og loks Nessun dorma úr Turandot."

Ólafur Árni ætlar ekki endilega að slá botninn í tónleikana eftir síðasta vers, og er viðbúinn því að gleðja hlustendur með aukalögum. Það er í og með vegna þess að tónleikarnir verða hljóðritaðir og gott að hafa sem mest efni í handraðanum þegar velja á í væntanlega útgáfu. "Ef ég verð í mjög góðu formi, þá syng ég bara eins lengi og ég mögulega get, - engin tímamörk, - ég þarf ekkert að syngja í tvo, þrjá daga á eftir. Ég er með einar tuttugu aríur sem ég get sungið sem aukalög. Það gæti orðið La donne è mobile, Questa o quella, Recondita armonia, E lucevan le stelle. Ef ég verð í góðu andlegu og raddlegu formi get ég haldið áfram fram að kvöldmat!"

Ólafur Árni er nýkominn heim frá Þýskalandi, en þar söng hann nýverið á sérstökum tenóratónleikum með þremur kollegum sínum úr Óperunni í Braunschweig. "Audi-fyrirtækið, sem hefur aðsetur í Braunschweig, keypti hljómsveit til að halda tónleika fyrir sig og vildi fá söngvara með, - fjóra tenórsöngvara. Við tókum fullt af aríum; sungum bæði saman, þannig að við skiptum línum á milli okkar, en líka einir. Þetta gekk svo vel að Volkswagen-fyrirtækið sem er rétt hjá réð okkur strax í samskonar verkefni, - þeir gátu ekki verið minni menn en þeir hjá Audi. Það er nú svolítið sérkennilegt að vera að syngja innan um bíla í einhverjum sýningarsölum, en gaman. Skrýtinn heimur." Tenórarnir fjórir sungu prógrammið sitt einnig í Braunschweig-höll. Harald Likus, gagnrýnandi Braunschweiger Zeitung, skrifaði þá um söng Ólafs Árna: "Íslenski söngvarinn Ólafur Bjarnason var geislandi á sviðinu. Hann ofgerði nokkuð og var óstöðugur á háu tónunum í Blómaaríu Don Josés eftir Bizet, en söngur hans í drykkjuvísu Turridus eftir Mascagni var bæði öruggari og smekklegri. Í Nessun dorma lagði hann allt í sölurnar og sýndi að vogun vinnur, vogun tapar; - kom á óvart með kjarnmiklum tón, áhrifaríkri raddbeitingu og stórhuga þori sem skóp honum stjörnuneista."

Þegar Ólafur Árni er spurður að því hvort hann sé ekki týpískur tenór, með allan sinn lífskraft og sönggleði í massavís, segir hann að það geti vel verið. "Ætli þetta sé ekki bara genetískt. Ég held að hálf íslenska þjóðin sé tenórar, - meira að segja mezzósópranarnir líka!" segir hann og hlær dátt. "Tenórar eru kannski ekki beint sjálfumglaðir, en ég held að háu tónarnir hleypi bara endorfíninu af stað. Sumir fara í maraþonhlaup til að finna fyrir vellíðan; - við syngjum háa tóna. Og þegar tenórunum líður vel tala þeir af hreinskilni, og segja hug sinn hreint út."