Í ORRAHRÍÐ undanfarinna vikna um það hvort koma eigi Saddam Hussein Íraksforseta frá völdum með hervaldi hefur mikið verið rætt um hversu mikil ógn mannkyninu stafar af Íraksforseta.

Í ORRAHRÍÐ undanfarinna vikna um það hvort koma eigi Saddam Hussein Íraksforseta frá völdum með hervaldi hefur mikið verið rætt um hversu mikil ógn mannkyninu stafar af Íraksforseta. Einng er rætt um þá vá sem óbreyttir borgarar Íraks standa frammi fyrir verði af innrás Bandaríkjanna. Það gleymist hins vegar oft í umræðunni að fjalla um þá ógn sem borgurum Íraks stafar af eigin stjórnvöldum.

Þjóðarleiðtogum heimsins ber ekki saman um hversu mikil hætta heiminum stafar af forseta Íraks og ríkisstjórn hans. Bandaríkjastjórn bendir ítrekað á að Íraksstjórn framleiði efnavopn, hafi tengsl við hryðjuverkahópa og geri allt til þess að framleiða gereyðingarvopn til að beita gegn umheiminum. Vesturlandabúum sem og öðrum jarðarbúum stafi augljós hætta af einræðisherranum í Bagdad. Mörg ríki eru á sömu skoðun og Bandaríkin og telja brýna nauðsyn á að koma Íraksforseta frá völdum til að bjarga heiminum frá frekari hryðjuverkaárásum og einstaka ríkjum frá beinni innrás Írakshers.

Stór hópur þjóðarleiðtoga er hins vegar á öðru máli og telur að heimurinn standi ekki frammi fyrir slíkri ógn af valdasetu Saddam Husseins. Allt beri að gera til að koma í veg fyrir stríð. Það megi gera með samningum við Íraksstjórn og öflugu vopnaeftirliti á vegum Sameinuðu þjóðanna í Írak. Þannig megi koma í veg fyrir vopnuð átök og blóðsúthellingar. Saddam Hussein geti setið áfram við völd undir ströngu eftirliti Sameinuðu þjóðanna sem tryggi að mannkyninu stafi ekki hætta af einræðisherranum.

Það má vel vera að takmarka megi verulega þá ógn sem umheiminum stafar af valdhöfunum í Írak. Það má jafnvel draga nær alveg úr ógninni með því að þjarma nógu rækilega að Hussein með vopnaeftirlitssveitum og strangari landamæragæslu. En hverjum stafar í raun mest hætta af Íraksforseta og stjórnarstefnu hans? Hverjir hafa mátt þola mesta áþján af hans völdum?

Ríkisstjórn Íraks undir forystu Saddams Husseins hefur í fjölda ára staðið fyrir fjöldaaftökum, efnavopnaárásum og pyntingum á eigin borgurum. Þúsundir borgara hafa verið fangelsaðar fyrir stjórnmálaskoðanir sínar og ekki er vitað um afdrif fjölda fólks. Um þetta verður ekki deilt. Sannanir liggja fyrir. Fjöldi fólks getur borið vitni um þetta og myndir eru til af hörmulegum afleiðingum eiturvopnaárása Husseins. Almenningur lifir í stöðugri ógn af eigin stjórnvöldum.

Allt þetta framkvæmir Íraksforseti í skjóli fullveldis Íraks innan skilgreindra landamæra. Alþjóðasamfélagið er byggt þannig upp að það hefur litla raunverulega möguleika á að spyrna við fótum og stöðva blóðbað innan landamæra fullvalda ríkis. Ríki, alþjóðastofnanir og mannréttindasamtök hafa í fjölda ára reynt að vekja athygli á þeirri ógnarstjórn sem ríkir í Írak og hvatt ráðamenn til að snúa af þessari braut. Sannanirnar liggja fyrir en það hefur engan árangur borið að telja Íraksforseta hughvarf. Írakar búa við sömu ógnarstjórnina jafnt sem áður.

Hversu lengi á að horfa upp á það að ráðamenn ríkis myrði, pynti og fangelsi borgara sína? Hversu langt þurfa ráðamennirnir að ganga til þess að alþjóðasamfélagið grípi inn í og stöðvi morðóða einræðisherra? Evrópubúar horfðu upp á útrýmingarbúðir og fjöldamorð, svo að segja í eigin túngarði, í Júgóslavíu, án þess að aðhafast nokkuð sem stöðvaði morðin um nokkurra ára skeið. Sameinuðu þjóðirnar brugðust borgurum Bosníu-Hersegóvínu gjörsamlega fyrstu ár stríðsins og íbúum Kosovó var ekki komið til bjargar fyrr en þúsundir höfðu fallið í valinn fyrir hervél Milosevic. Það að fara í stríð er hörmulegur kostur. Það sem stendur hins vegar upp úr er að innrás Bandaríkjanna og Evrópuríkja í Júgóslavíu stöðvaði áralöng fjöldamorð Milosevic og samverkamanna hans.

Ógnarstjórninni í Afganistan var heldur ekki komið frá völdum nema með hervaldi. Það var að vísu ekki fyrr en að Bandaríkjamönnum og öðrum Vesturlandabúum stafaði bein hætta af ríkisstjórn Afganistan að henni var steypt af stóli. Umheiminum virtist vera meira annt um að vernda fornar styttur höggnar í stein heldur en að stöðva síendurteknar aftökur á hverjum þeim sem talibönunum voru ekki þóknanlegir. Ríkisstjórninni var þó eigi að síður komið frá völdum að lokum.

Það er frumskylda hverrar ríkisstjórnar að tryggja öryggi borgara sinna. Aðgerðir forystumanna Bandaríkjanna og Breta gegn Írak miða að því að vernda eigin borgara. Skriðdrekar og hermenn með alvæpni á flugvöllum Bretlands eru ekki settir þar til skrauts. Almenningur í Evrópu skynjar hins vegar ekki beina hættu af aðgerðum Íraksstjórnar sem og stór hópur Bandaríkjamanna. Það er skiljanlegt því að voðaverk Íraksforseta beinast fyrst og fremst gegn eigin borgurum.

Íraksstjórn er ekki eina ríkisstjórnin sem kúgar, pyntir og myrðir eigin borgara en það að við getum ekki komið öllum til bjargar réttlætir ekki aðgerðaleysi í garð hennar. Það er ekki hægt að skjóta sér undan þeirri ábyrgð að koma borgurum Íraks til hjálpar með því að vísa til þess að við komum ekki ríkisstjórn Kína og Simbabve frá völdum.

Er okkur kannski alveg sama um ógnarstjórnina í Írak á meðan við lifum í vellystingum og upplifum ekki beina hættu af einræðisherranum í Bagdad? Erum við ef til vill hrædd við stríð vegna þess að þá stendur okkur fyrst alvöru ógn af Íraksstjórn? Hversu langt þarf Íraksstjórn að ganga gegn eigin borgurum til þess að það sé réttlætanlegt að koma henni frá völdum með vopnavaldi?

Það er borgurum Íraks sem stafar mest hætta af Saddam Hussein. Vopnaeftirlitssveitir Sameinuðu þjóðanna munu ekki koma þeim til bjargar. Þær bjarga ef til vill einhverjum Vesturlandabúum frá því að verða fyrir barðinu á hryðjuverkaárásum og nágrönnum Íraka frá því að verða fyrir innrás en vopnaeftirlit mun ekki breyta ógnarstjórn Íraksforseta. Hversu lengi eigum við að sætta okkur við það að horfa upp á Saddam Hussein murka lífið úr saklausum borgurum?

BALDUR ÞÓRHALLSSON