Lesendur Morgunblaðsins geta komið spurningum varðandi sálfræði-, félagsleg og vinnutengd málefni til sérfræðinga á vegum persona.is. Senda skal tölvupóst á persona@persona.is og verður svarið jafnframt birt á persona.is.
Mig langaði að leita ráða varðandi samskiptavanda sem við hjónin eigum við að stríða og virðumst ekki geta leyst. Við getum aldrei hlustað á hvort annað þegar við erum ósátt. Við byrjum að ræða eitthvað sem okkur mislíkar í hegðun hins (oft tengt uppeldi barnanna) og fyrr en varir erum við farin að hnakkrífast. Þrátt fyrir að við tölum um að bæta okkur gerist þetta ítrekað.

Þessi lýsing þín er því miður mjög algeng og mjög margir hafa svipaða sögu að segja. Hluti af vandanum er af eðlilegum toga og tengist því að þegar fólk er tengt saman tilfinningaböndum er eðlilegt að ágreiningur komi upp reglulega. Oftar en ekki eykst síðan þessi ágreiningur þegar börn bætast í fjölskylduna. Við það eykst álagið, ábyrgðin verður meiri og fleiri atriði sem þarf að huga að. Ekki má gleyma því að hvor aðili fyrir sig kemur með mismunandi uppeldisreynslu og skoðanir í farteskinu og eru þar af leiðandi ekki endilega sammála um hverskonar upppeldisaðferðum beri að beita. Að lokum má bæta við, að þegar börnin eru komin minnkar óneitanlega sá tími sem parið hefur til að sinna þörfum hvors annars. Miðað við þessar breytingar er eðlilegt að upp komi vandi í samskiptum. Þá er ég alls ekki að segja að þetta sé vonlaus barátta og að við þurfum/eigum bara að þrauka og sætta okkur við ástandið. Þvert á móti er mjög mikilvægt, á þessum tíma, að leggja aukna áherslu á samvinnu og sameiginlegar leiðir í að leysa upp samskiptavanda. Líta á samskiptavanda sem eðlilegan hlut, sem kemur reglulega upp í samskiptunum og beri að leysa sameiginlega. Bæði er það mikilvægt ykkar vegna, sem og barnanna vegna, að lögð sé áhersla á að ágreiningsmálin séu leyst, en varast að berjast um hver hefur rétt fyrir sér. Mikilvægt er hér að þið, sem par, leggist á eitt í þá átt að vinna með eitt ágreiningsmál í einu, í þeim tilgangi að leysa vandann áður en vandinn magnast og áður en ágreiningsmálin verða orðin fleiri. Því miður er það oft þannig að rifrildin byrja fremur "sakleysislega", þ.e. parið byrjar að "rífast" um frekar "einfalda" hluti, en fyrr en varir er allt komið upp í háa loft, þar sem jafnvel báðir aðilar eru búnir að gleyma upprunalega ágreiningnum. Það sem virðist nefnilega oft gerast, er, að báðir aðilar láta sér ekki nægja að ræða vandann, sem byrjað var á að ræða, heldur eru allskonar ágreiningsmál tínd til. Þá má segja að samskiptin snúist ekki lengur um að leysa vandann, heldur fara þau frekar að líkjast einhverskonar stríði eða bardaga, þar sem báðir aðilar eru að reyna að vinna bardagann með því að verjast árásum hins og tína til ýmiskonar vopn til að særa andstæðinginn. Á vinnustöðum þekkja margir kerfisbundnar leiðir í lausn vanda, þar sem fólk með mismunandi skoðanir leggst á eitt í að leysa vandamálin. Hinsvegar skortir oft á heimilunum meiri áherslu á samvinnu, eða að sameiginlegir kraftar séu kerfisbundið notaðir í að leysa vandamálin. Sömu ágreiningsmálin virðast koma upp aftur og aftur og lausnin virðist víðs fjarri.

Það er auðvitað erfitt að segja nákvæmlega til um hvernig ykkar vandamál birtist og hvar vandinn liggur nákvæmlega hjá ykkur. Hinsvegar er mikilvægt fyrir ykkur að skoða hvenær þið veljið að ræða ágreiningsmál eins og t.d. uppeldisaðferðir. Reynslan er oft sú að fólk ræðir það helst í hita leiksins, þegar vandinn kemur upp, og ræðir það síðan ekkert þess á milli. Þetta getur t.d. verið þegar annað ykkar er að nota þessar "óæskilegu" uppeldisaðferðir, að mati hins aðilans. Þá kemur umræðan upp á yfirborðið og rifrildi og leiðindi þróast.

Það eru nokkur atriði sem gera þessa stund erfiðari en aðrar í að leysa ágreininginn. Það getur bæði verið erfitt að hlusta á gagnrýni í hita leiksins og þá jafnvel með börnin fyrir framan sig, auk þess eru, á svona stundu, annar eða jafnvel báðir aðilar pirraðir. Pirringur er jafnvel ástæða þess að ágreiningur kemur upp á yfirborðið. Pirringi fylgir þrjóska og það gerir samskiptin og lausnir mun erfiðari. Margir falla í þá gryfju að ræða aldrei samskiptavanda, uppeldisaðferðir eða særindi nema þegar við erum pirruð og reið og í hita leiksins. Það er hinsvegar mjög mikilvægt að velja sér stað og stund þar sem líklegt er að við höfum næði til að ræða saman, litlar líkur séu á að við verðum trufluð af börnum eða annarri truflun. Með öðrum orðum, að í aðstæðunum sé ró og friður þar sem báðir aðilar eru upplagðir og samstilltir í að vinna sameiginlega með spurningarnar: "Hvert er nákvæmlega vandamálið?" og "Hvernig getum við leyst það?" Á þessum tíma er mjög mikilvægt, eins og áður sagði, að eitt mál sé rætt í einu og að lögð sé áhersla á að hlusta á hvort annað. Við teljum okkur flest hlusta mjög vel á hvort annað, en þar get ég nánast fullyrt að við öll getum bætt okkur í að hlusta á hvort annað. Það eru auðvitað miklu fleiri atriði sem hægt er að tína til í þeim tilgangi að leysa ágreining og samskiptavanda í samböndum, en það má benda á að það er ótrúlegt hvað er hægt að breyta miklu með því að velja betri tíma til að ræða saman, hlusta á hvort annað, ræða með opnum huga eitt atriði í einu, og forðast að líta á makann sem andstæðing sem þarf að sigra.

Gangi þér vel.

Það er svolítið merkilegt að hugsa til þess að flest okkar þekkja bæði í leik og starfi hvernig er að vinna að lausn verkefna þar sem margir leggjast á eitt að finna bestu lausnina og þegar vandamál koma upp þá leggjast allir á eitt að leysa vandann. Þrátt fyrir að allir séu ekki sammála þá er lögð áhersla á að leysa vandann. Þegar hjónabandið er síðan skoðað virðist það oft vera þannig að þar erum við ekki eins dugleg að vinna að því að leysa vandann heldur missum okkur aftur og aftur í rifrildi sem ekki eru leyst. Þetta er að hluta til mjög eðlileg því að hjónaband gagnstætt vinnu snýst um tilfinningatengsl og tilfinningarnar geta verið sterkar.

eftir Björn Harðarson

Björn Harðarson, sjálfstætt starfandi sálfræðingur.