Gylfi Ingvarsson afhenti séra Ólafi Oddi sérstakt viðurkenningarskjal fyrir þátt hans í útgáfu Lífsvísis.
Gylfi Ingvarsson afhenti séra Ólafi Oddi sérstakt viðurkenningarskjal fyrir þátt hans í útgáfu Lífsvísis.
TÍU Kiwanisklúbbar hafa gefið út og dreift á sínu starfssvæði bókamerkinu Lífsvísi þar sem er að finna leiðbeiningar til að sporna gegn sjálfsvígum. Þið eruð ekki ein, er undirtitill merkisins.
TÍU Kiwanisklúbbar hafa gefið út og dreift á sínu starfssvæði bókamerkinu Lífsvísi þar sem er að finna leiðbeiningar til að sporna gegn sjálfsvígum. Þið eruð ekki ein, er undirtitill merkisins.

Kiwanisklúbbarnir eru á svokölluðu Ægissvæði sem nær yfir Suðurnes og hluta höfuðborgarsvæðisins. Félagar í klúbbunum hafa unnið að þessu verkefni frá því á árinu 2000 að Ólafur Oddur Jónsson, sóknarprestur í Keflavík, vakti athygli þeirra á sjálfsvígum í ávarpi við setningu umdæmisþings sem haldið var í Reykjanesbæ. Unnið hefur verið að leiðbeiningunum í samráði við séra Ólaf Odd og starfsmenn landlæknisembættisins, ekki síst Salbjörgu Bjarnadóttur verkefnisstjóra þar.

Lífsvísinum hefur verið dreift með aðstoð samstarfsaðila í Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi og nú á Suðurnesjum. Í upphafi voru prentuð 10 þúsund eintök í þessum tilgangi en Gylfi Ingvarsson, fráfarandi svæðisstjóri, sagði við athöfn sem efnt var til í Kirkjulundi í Keflavík, þegar hafin var dreifing Lífsvísis á Suðurnesjum, að áhugi hafi komið fram í Reykjavík og á öðrum stöðum landsins þannig að ákveðið hafi verið að prenta 50 þúsund eintök til viðbótar og verði Lífsvísinum því dreift um land allt. Sparisjóðirnir í landinu styrkja verkefnið fjárhagslega.

"Það er einlæg von okkar Kiwanismanna að með þessu verkefni sé verið að leggja mikilvægu og vandmeðförnu máli gott lið til hjálpar fólki í nauð," sagði Gylfi.