MIKLAR umræður urðu um stöðu Framsóknarflokksins og komandi kosningabaráttu við almennar stjórnmálaumræður á flokksþingi Framsóknarflokksins í gær. Kristinn H.
MIKLAR umræður urðu um stöðu Framsóknarflokksins og komandi kosningabaráttu við almennar stjórnmálaumræður á flokksþingi Framsóknarflokksins í gær. Kristinn H. Gunnarsson, þingflokksformaður flokksins, sagði fráleitt sjálfgefið að framlengja ætti núverandi stjórnarsamstarf.

"Við framsóknarmenn verðum að sýna í verki þær félagslegu áherslur í stefnu flokksins, sem aðgreina hann frá Sjálfstæðisflokknum. Samkvæmt könnunum erum við að missa fylgi til stjórnarandstöðuflokkanna. Það hafa verið skýr skilaboð til okkar um að stíga út úr skugga núverandi samstarfsflokks og tala ákveðið fyrir okkar sjónarmiðum. Núverandi stjórnarsamstarf hefur að mörgu leyti gengið vel, en fráleitt er sjálfgefið að framlengja það. Við eigum að stefna að því að leiða næstu ríkisstjórn, þannig að félagslegar áherslur flokksins komi skýrar fram en verið hefur. Það á að vera svar okkar við þeim skilaboðum sem ég nefndi. Í komandi kosningabaráttu skulum við rifja upp gömul dansspor Framsóknarflokksins, eitt skref áfram og annað til vinstri."

Látum ekki bankana læsa klónum í Íbúðalánasjóð

Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, var meðal ræðumanna við almennu umræðurnar í gær og sagði m.a.: "Við vorum sammála um það við Halldór [Ásgrímsson] áðan, þegar vinur okkar, Kristinn H. Gunnarsson vildi ganga eitt skref áfram og svo næsta til vinstri, að við viljum fara tvö áfram," sagði Guðni.

Einnig vék hann að einkavæðingu ríkisins og sagði: "Við ætlum ekki að láta bankana nú læsa klónum í Íbúðalánasjóð. Þeir vilja fá 50 milljarða eign sem þar er fyrir ekki neitt, til þess að reka það sjálfir. Það kom glöggt fram í ræðu formannsins að þar er veggur hjá okkur. Það myndi þýða vaxtahækkun hjá fólkinu í landinu sem næmi 110 þúsund krónum á hverja fjölskyldu," sagði Guðni.

Hann sagðist einnig svara því neitandi að Framsóknarflokkurinn hefði starfað í skugga Sjálfstæðisflokksins eða verið minnimáttar í stjórnarsamstarfinu. "Við höfum í rauninni, jafnvel verið sterkara aflið í þessari ríkisstjórn. Ég er ekkert frá því nema að við séum Davíð og Davíð sé Golíat," sagði Guðni.

Guðni gagnrýndi einnig Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og að henni væri stillt upp sem forsætisráðherraefni. "Við skulum aldrei gleyma því að sá sem svíkur sína huldumey er ekki í sátt næstu daga. Ingibjörg Sólrún, hún sveik þrjá af fjórum flokkum í Reykjavík, því miður, þessi göfuga Flóastúlka. Mér þykir vænt um hana og hennar fólk. Það kýs mig fyrir austan fjall," sagði Guðni og uppskar mikið lófatak flokksþingsfulltrúa.