HILDUR Jónsdóttir, jafnréttisráðgjafi Reykjavíkurborgar, segir að dómur Hæstaréttar, sem staðfesti að Reykjavíkurborg mátti setja ákvæði í lögreglusamþykkt sem bannar m.a. svonefndan einkadans, sé mikilvægur og hún gleðjist yfir niðurstöðunni.
HILDUR Jónsdóttir, jafnréttisráðgjafi Reykjavíkurborgar, segir að dómur Hæstaréttar, sem staðfesti að Reykjavíkurborg mátti setja ákvæði í lögreglusamþykkt sem bannar m.a. svonefndan einkadans, sé mikilvægur og hún gleðjist yfir niðurstöðunni. "Þetta er fyrsti sigurinn í baráttunni gegn klámvæðingu og ungum kynlífsmarkaði á Íslandi."

Hún segir að fordæmi Reykjavíkurborgar hafi áhrif í öðrum bæjarfélögum sem reyni að sporna við þessari þróun. Akureyri setti svipaða samþykkt í sína lögreglusamþykkt sem hæstiréttur hefði nú dæmt löglegt. Nú sé spurning hvað gert verði í þeim tveimur sveitarfélögum þar sem einkadans er leyfður.

Mikilvæg úrræði

"Jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar hefur litið á þessa staði sem þátt í nýjum kynlífsmarkaði á Íslandsi," segir Hildur. "Okkur finnst mikilvægt að tekið sé snemma í taumana áður en alvarlegri birtingarmyndir þessa markaðar komi hingað eins og hefur verið að gerast í nágrannalöndunum." Hildur nefnir mansal í því sambandi. Því verði Íslendingar að vera með augun opin til að lenda ekki aftur í þeirri stöðu að hafa engin úrræði þegar nektarstaðir hófu innreið sína.

Hildur segir að Hæstiréttur hafi verið fljótur að kveða upp úrskurð sinn. Í blaði um átak ríkisstjórnarinnar gegn verslun með konur, sem fylgir Morgunblaðinu í dag, tjáir hún sig um væntanlegan dóm hæstaréttar. Sú umræða eigi ekki lengur við þar sem dómur sé fallinn.

"Nektarstaðirnir eru löglegir. Á því verður löggjafinn að axla ábyrgð," segir Hildur en kveður Reykjavíkurborg hafa breytt lögreglusamþykkt til að gæta almenns velsæmis. Það voru þau úrræði sem sveitarfélagið hafði til að stýra þessari þróun.

Hildur segir lögreglu að framfylgja þessari samþykkt. Borgin taki inn í nýtt deiluskipulag ákvæði að engir nektarstaðir verði leyfðir. "Ein meginniðurstaða dómsins er að engin starfsemi getur farið fram á þessum stöðum sem lögregla hefur ekki aðgang að til að fylgjast með starfseminni og koma í veg fyrir að þar fari fram refisverð háttsemi."