Það hefur aldrei verið talin góð latína að spyrja um ása með eyðu í hliðarlit, enda ásinn í eyðulitnum oftast nær lítils virði. Fyrir mörgum áratugum reyndu kerfissmiðir að leysa vandann með því að svara tilteknum ásnum, til dæmis svörtum eða rauðum.

Það hefur aldrei verið talin góð latína að spyrja um ása með eyðu í hliðarlit, enda ásinn í eyðulitnum oftast nær lítils virði. Fyrir mörgum áratugum reyndu kerfissmiðir að leysa vandann með því að svara tilteknum ásnum, til dæmis svörtum eða rauðum. Þetta gekk ekki upp vegna takmarkaðs rýmis, auk þess sem ekki var gert ráð fyrir hjónunum í trompi í þeirri útfærslu. Nú til dags nota margir svokallaða útilokunarspurningu, þar sem stökk upp á fimmta þrep í ósögðum lit er spurning um lykilspil, en ásinn í spurnarlitnum er undanskilinn í svörunum. Á ensku heitir sagnvenjan því tignarlega nafni Exclusion Roman Key Card Blackwood. Zia Mahmood og Boye Brogeland fengu tækifæri til að beita sagnvenjunni í sjöundu umferð Flugleiðamótsins:

Austur gefur; NS á hættu.

Norður
ÁKG103
K107
K7653
--

Vestur Austur
D8654 97
6 954
DG84 92
K74 DG10865

Suður
2
ÁDG932
Á10
Á932

Vestur Norður Austur Suður
-- -- Pass 1 hjarta
Pass 1 spaði Pass 3 hjörtu
Pass 5 lauf Pass 5 grönd
Pass 7 hjörtu Pass Pass
Pass
Zia var í suður og vakti á einu hjarta og Boye svaraði á spaða. Stökk Zia í þrjú hjörtu, sýndi góðan lit, en var þó ekki krafa. Eftir þessa byrjun hafði Boye aðeins áhuga á þremur spilum - hjartaás, hjartadrottningu og tígulás. Og hann spurði einfaldlega um þau með fimm laufum! Svörin eru í þrepum og Zia sýndi tvo ása og hjartadrottningu með fimm gröndum. Sem var allt sem Boye þurfti til að segja alslemmuna.

Flestir náðu reyndar alslemmunni, enda á suður þrjá ása svo hin hefðbundna ásaspurning á fjórum gröndum leysir líka vandann í þetta sinn.