Freydís Kristófersdóttir í hlutverki sínu í Bjargvætti.
Freydís Kristófersdóttir í hlutverki sínu í Bjargvætti.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ný leikin stuttmynd eftir Erlu B. Skúladóttur verður frumsýnd í Háskólabíói í dag. Myndin er útskriftarverkefni Erlu í mastersnámi í kvikmyndaleikstjórn og kvikmyndatöku frá New York University.
Ný leikin stuttmynd eftir Erlu B. Skúladóttur verður frumsýnd í Háskólabíói í dag. Myndin er útskriftarverkefni Erlu í mastersnámi í kvikmyndaleikstjórn og kvikmyndatöku frá New York University.

"Þetta er saga um 14 ára stúlku, Kaju, sem er afskipt og einmana. Hún er send í sumarbúðir fyrir miklu yngri stelpur þar sem hún passar engan veginn inn í hópinn og kemur sér í vandræði. Hún ákveður að strjúka og eftir ýmiskonar erfiðleika í baráttu sinni við óblíð náttúruöfl tekst henni að bjarga sér og sigrast á sjálfri sér um leið," segir Erla um myndina sína.

Hún segir söguþráðinn lauslega byggðan á eigin reynslu af að fara í sumarbúðir, "...en ég hafði ekki uppburði til að strjúka þó mig hafi kannski langað til þess."

Myndin er tekin að mestu undir jökli á Snæfellsnesi og var tekin sumarið 2001 en var þó ekki endanlega lokið fyrr en í fyrrasumar.

Í hlutverki Kaju er ung og efnileg stúlka, Freydís Kristófersdóttir, sem áður hefur leikið í kvikmyndunum Stikkfrí og Ikíngút. Aðrir leikarar eru landsþekktir af leiksviðinu og kvikmyndum, þau Kristbjörg Kjeld, Jóhann Sigurðarson, Guðlaug María Bjarnadóttir, Ívar Örn Sverrisson, Kristjana Júlía Þorsteinsdóttir, Theódór Júlíusson og Guðrún Gísladóttir. Kvikmyndatökumaður var Brian Hubbard, leikmynd gerði Þorvaldur Böðvar Jónsson, búningar voru í höndum Gerlu, upphafsstef er eftir Frey Ólafsson og önnur tónlist er eftir Allen Won. Aðstoðarframleiðandi var Guðlaug María Bjarnadóttir.

Erla segir að aðeins verði um þessa einu sýningu að ræða á myndinni að þessu sinni en væntanlega muni íslenskir áhorfendur geta séð hana í sjónvarpi á næstu mánuðum. "Samningaviðræður um sölu á myndinni til sjónvarpssýninga standa yfir og verður væntanlega lokið bráðlega," segir hún.

Hún segir að ýmsir þröskuldar hafi orðið á vegi sínum við gerð myndarinnar og framleiðslan hafi tafist meira en ráð var fyrir gert. "Ég ætlaði upphaflega að gera ódýrari mynd og taka hana í New York en hugmyndirnar tengdust allar Íslandi og það varð ekki undan því komist. Þetta varð til þess að myndin varð ríflega tvöfalt dýrari í framleiðslu en ella og því tók lengri tíma að fjármagna hana. Til gerðar myndarinnar fékkst styrkur úr stuttmyndasjóði Kvikmyndasjóðs en það var í fyrsta sinn sem úthlutað var úr þeim sjóði."

Erla hóf nám við kvikmyndadeild New York University haustið 1996 og lauk formlegu námi 1999. Hún segir að það hafi síðan tekið þennan tíma að fjármagna og framleiða lokaverkefnið en því er nú lokið og hún útskrifaðist sl. haust. "Ég hef verið búsett í New York frá því 1989 og starfaði sem aðstoðarkvikmyndatökumaður í þessi ár áður en mér datt í hug að sækja um skólann. Ég var í hópi 1200 umsækjanda og ein af 30 sem komust inn."

Varla þarf að taka fram að Erla er eini Íslendingurinn sem stundað hefur nám í kvikmyndagerð við Mastersdeild NYU en nú mun einn annar Íslendingur hafa hafið þar nám.