TVÆR konur voru handteknar í Kringlunni síðdegis í gær en ábendingar höfðu borist um að þær væru að láta greipar sópa í verslunum. Höfðu þær einnig stolið veskjum af viðskiptavinum og starfsfólki Kringlunnar.
TVÆR konur voru handteknar í Kringlunni síðdegis í gær en ábendingar höfðu borist um að þær væru að láta greipar sópa í verslunum. Höfðu þær einnig stolið veskjum af viðskiptavinum og starfsfólki Kringlunnar. Þá höfðu þær stolið fatnaði úr Hagkaupum fyrir um sextíu þúsund.

Fíkniefni fundust á annarri þeirra en samkvæmt upplýsingum lögreglu er talið að þær hafi stolið ýmsum varningi fyrir samtals um 200-300 þúsund í verslunarmiðstöðinni. Fyrst barst tilkynning um stuld á veski um hádegi í gær og telur lögreglan að sömu konurnar hafi verið að verki. Ránsferðin virðist því hafa staðið yfir í langan tíma áður en lögreglan handtók þær síðdegis.

Það var margt um konur í Kringlunni í gær enda standa þar yfir Konudagar í tilefni af því að konudagurinn er á morgun, sunnudag. Voru konur því boðnar sérstaklega velkomnar í verslunarmiðstöðina en eitthvað virðast þær tvær sem lögreglan handtók hafa misskilið boðið.