LÁTINN er í Reykjavík á 87. aldursári Sigurður Hafstað, fyrrverandi sendiherra. Sigurður var fæddur 1916 í Vík í Skagafirði, sonur hjónanna Árna Jónssonar Hafstað, bónda í Vík, og Ingibjargar Sigurðardóttur frá Geirmundarstöðum í Skagafirði.
LÁTINN er í Reykjavík á 87. aldursári Sigurður Hafstað, fyrrverandi sendiherra. Sigurður var fæddur 1916 í Vík í Skagafirði, sonur hjónanna Árna Jónssonar Hafstað, bónda í Vík, og Ingibjargar Sigurðardóttur frá Geirmundarstöðum í Skagafirði.

Sigurður Hafstað lauk stúdentsprófi frá MR 1937, prófi í viðskiptafræði frá HÍ 1942 og lögfræðiprófi frá HÍ 1944. Hann hóf störf í utanríkisráðuneytinu 1944 og starfaði á vegum utanríkisráðuneytisins hér heima og erlendis, einkum í Ósló, Stokkhólmi, Moskvu og París, í rúma fjóra áratugi og hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín. Sigurður var m.a. deildarstjóri í utanríkisráðuneytinu 1954 til 1960 og gegndi störfum forsetaritara. Hann var sendiherra Íslands í Ósló er hann lét af störfum árið 1986. Vorið 1940 kvæntist Sigurður Ragnheiði Ragnarsdóttur Hafstað, fæddri Kvaran 1919. Þau eignuðust sex börn sem öll eru á lífi, Þórunni Kielland, Ingibjörgu Hafstað, Hildi Hafstað, Ragnar Hafstað og tvíburana Sigríði og Árna Hafstað.