Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EKKI hefur verið hægt að auka geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri vegna þess að ekki hefur fengist fé til að innrétta eina af þremur hæðum í nýbyggingu sjúkrahússins. Halldór Blöndal, forseti Alþingis og 1.
EKKI hefur verið hægt að auka geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri vegna þess að ekki hefur fengist fé til að innrétta eina af þremur hæðum í nýbyggingu sjúkrahússins.

Halldór Blöndal, forseti Alþingis og 1. þingmaður Norðurlandskjördæmis eystra, segist hafa orðið fyrir vonbrigðum vegna þessa. "Ég tel að við verðum að fylgja því fast eftir að hægt verði að halda áfram innréttingu viðbyggingarinnar á næsta ári. Það er þörf fyrir hana," segir hann. Varðandi barna- og unglingageðdeild segir Halldór að fyrsta skrefið hafi verið að koma barnadeildinni vel fyrir á sjúkrahúsinu. Í vor verði sálfræðingur ráðinn til starfa og heimild sé til frekari ráðninga. Það sé brýnt verkefni að gera FSA kleift að sinna geðlækningum barna og unglinga fyrir Norðurland og Austurland á næstu árum.

Peningaleysi ekki ástæðan

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og 3. þingmaður Norðurlandskjördæmis eystra, segir bagalegt hversu uppbyggingin á FSA hafi dregist. Það myndi létta á stofnunum á suðvesturhorninu ef hægt væri að sinna geðheilbrigðismálum barna og unglinga á Norður- og Austurlandi á FSA. Steingrímur segir að foreldrar barna í geðrænum vanda hafi orðið til þess að hann fór að kanna þessi mál fyrir nokkrum vikum. Á miðvikudag hafi hann lagt inn fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um stöðuna. Steingrímur segist telja það hrein mistök af hálfu stjórnvalda að hafa ekki tekið betur á þessum málum. Þegar stjórnvöld séu svo rausnarleg sem raun beri vitni í framlögum til vegagerðar og menningarhúsa, þá sé varla hægt að bera við algjöru peningaleysi.