Keflvíkingurinn Haraldur Guðmundsson stekkur hér hæst og skallar knöttinn í leik Fram og Keflavíkur í gær.
Keflvíkingurinn Haraldur Guðmundsson stekkur hér hæst og skallar knöttinn í leik Fram og Keflavíkur í gær.
ÞRÍR fyrstu leikirnir í Deildabikarkeppni KSÍ fóru fram í gærkvöldi. Nýbakaðir Reykjavíkurmeistarar í liði Fram höfðu betur á móti Keflavík, 2:1, í fyrsta leik mótsins í Egilshöll, á sama stað gerðu Fylkir og Haukar 1:1 jafntefli og í Boganum á Akureyri hafði ÍA betur á móti KA, 1:0.
Andri Fannar Ottósson skoraði fyrsta mark deildabikarsins í ár þegar hann kom Frömurunum í forystu og Kristján Brooks bætti við öðru. Magnús Sverrir Þorsteinsson svaraði fyrir Keflvíkinga og þrátt fyrir ágæta pressu að marki Framara tókst Suðurnesjamönnum ekki að jafna metin.

"Mínir menn virkuðu hálf þreyttir eftir mikið álag að undanförnu og við þurftum að hafa fyrir því að innbyrða sigurinn. Þetta var bara virkilega erfitt. Keflvíkingar eru með gott lið og þó svo að við höfum farið með sigur af hólmi áttum við undir högg að sækja," sagði Kristinn R. Jónsson, þjálfari Fram, við Morgunblaðið eftir leikinn.

Kristinn gaf mörgum yngri leikmönnum sínum tækifæri þar sem í lið hans vantaði til að mynda Ágúst Gylfason, Baldur Bjarnason, Ragnar Árnason, Þorbjörn Atla Sveinsson, Kristinn Tómasson og Eggert Stefánsson.

Haukar stóðu í Fylki

Haukar og Fylkir skildu jöfn, 1:1, í síðari leik kvöldsins í Egilshöll. Sævar Eyjólfsson kom Haukum yfir úr vítaspyrnu á 27. mínútu en Björn Viðar Ásbjörnsson svaraði fyrir Árbæinga tíu mínútum fyrir leikslok. Fylkismenn misnotuðu vítaspyrnu í síðari hálfleik en Ólafi Páli Snorrasyni brást bogalistin.

"Þetta var barningsleikur og kannski ekki mikið fyrir augað. Ég merkti greinilega þreytu á mínum mönnum enda fjórði leikur okkar á rúmum hálfum mánuði. Við vorum heilt yfir sterkari aðilinn en fórum illa að ráði okkar í færunum. En ég tek ekki frá Haukunum að þeir voru sprækir," sagði Aðalsteinn Víglundsson, þjálfari Fylkis, við Morgunblaðið.

Fylkismenn léku án nokkurra fastamanna en Finnur Kolbeinsson, Valur Fannar Gíslason, Kjartan Sturluson, Theodór Óskarsson og Haukur Ingi Guðnason voru ekki með Árbæjarliðinu að þessu sinni.

Gunnlaugur Jónsson, fyrirliði Skagamanna, tryggði sínum mönnum sigurinn á móti KA í Boganum með marki þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma. Gunnlaugur skellti sér í sóknina og skoraði með skalla eftir aukaspyrnu. KA-menn voru sterkari í fyrri hálfleiknum og fengu tvö góð færi sem þeir nýttu ekki en í síðari hálfleik var jafnræði með liðunum.