TÓNLISTARLÍFIÐ á höfuðborgarsvæðinu er óvenjulíflegt um þessar mundir.
TÓNLISTARLÍFIÐ á höfuðborgarsvæðinu er óvenjulíflegt um þessar mundir. Húsfyllir var á Sinfóníutónleikum í Háskólabíói í fyrrakvöld, og þegar Myrkum músíkdögum lauk á miðvikudagskvöld, höfðu um tvö þúsund manns sótt tónleika hátíðarinnar og aldrei verið fleiri.

Steininn tekur þó úr á sunnudag en a.m.k. sex tónleikar verða þá á höfðuborgarsvæðinu, tvennir kl. 16, tvennir kl. 17 og tvennir klukkan 20. Klukkan fjögur verða Ólafur Árni Bjarnason tenor og Ólafur Vignir Albertsson píanóleikari í Íslensku óperunni, á meðan pólsku listamennirnir Pawel og Agnieszka Panasiuk leika verk fyrir selló og píanó í Salnum í Kópavogi. Klukkustundu síðar hefur Schola cantorum upp raust sína í Hallgrímskirkju, meðan Ingólfur Vilhjálmsson þreytir debút á klarinettu í Norræna húsinu. Um kvöldið má svo hlýða annaðhvort á Tríó Reykjavíkur og gesti þess í Kammermúsíkklúbbnum í Bústaðakirkju, eða söng fjögurra hafnfirskra kóra í Hásölum í Hafnarfirði.