Pavel Mazheika, blaðamaður sem var dæmdur til að sæta tveggja ára "takmörkuðu frelsi" fyrir meintan rógburð um Alexander Lúkasjenkó forseta.
Pavel Mazheika, blaðamaður sem var dæmdur til að sæta tveggja ára "takmörkuðu frelsi" fyrir meintan rógburð um Alexander Lúkasjenkó forseta.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, heldur þjóðfélagi og efnahagslífi þessa fyrrverandi Sovétlýðveldis í járngreipum.
EIN allra drungalegasta byggingin í þessari grámyglulegu borg er lágreist steinsteypt blokk í vindbörðum borgarjaðrinum, sem hefur verið heimili Pavels Mazheika frá því í september sl.: Svefnskáli nr. 3.

Þótt heitið minni á stúdentagarða eru rimlar fyrir gluggum og lögregla á vakt við járnbentar dyrnar við innganginn. Og nágrannar Masheika eru ekki námsmenn: Einn var dæmdur fyrir mútur, annar er iðjulaus faðir, og sá þriðji reyndi að stela bíl.

Masheika sjálfur er blaðamaður, einn þriggja starfsbræðra sem í fyrra voru dæmdir til útlegðar innanlands fyrir meintan rógburð um forsetann, Alexander Lúkasjenkó, en gagnrýnendur hans saka hann um að innleiða á ný gerræðisstjórnarhætti eins og tíðkuðust á sovéttímanum, sem bæla niður allt andóf og halda efnahagslífinu í spennitreyju.

Síðan í september hefur Masheika vaknað við skerandi bjölluhringingu á hverjum morgni kl. 6:30 og unnið í ellefu tíma á dag við að burðast með trjáboli í sögunarmyllu. Og ekki komizt í sturtu nema ganga langa leið utandyra. Allir "íbúarnir" verða að vera komnir inn til sín fyrir kl. 22:30 og stór gluggi á dyrum hvers herbergis þýðir að verðir geta litið inn hvenær sem er.

Masheika, sem er 24 ára gamall, var upprunalega tjáð að hann gæti setið refsingu sína af sér í grennd við heimili sitt í bænum Grodno, vestast í landinu. En á síðustu stundu var ákveðið að hann skyldi sendur til Zhlobin í suðausturhorni landsins, um 425 km að heiman.

Úr umbótasinna í valdníðing

Mazheika fékk dóm sinn mildaðan í tveggja ára "takmarkað frelsi". Verðirnir hafa sagt honum að hann gæti fengið sig látinn lausan fyrr ef hann sýnir góða hegðun, en forsenda fyrir því er að hann játi á sig sök - og það mun hann aldrei gera. "Ég iðrast þess ekki að ég skuli vilja lifa í venjulegu landi með prent- og tjáningarfrelsi," segir hann.

Masheika var dæmdur fyrir grein sem hann skrifaði, þar sem gefið var í skyn að forsetinn beitti andstæðinga sína ofbeldi. Hún birtist aðeins á Netinu þar sem prentupplag blaðins var gert upptækt áður en því var dreift. Lúkasjenkó náði fyrst kjöri til forseta sem frambjóðandi gegn spillingu. Hann tók fljótlega til við að þjarma að þeim sem ekki gerðust honum undirgefnir og stóð gegn umbótum í efnahagslífinu í átt að frjálsu markaðshagkerfi; hann hélt mestöllu atvinnulífinu í höndum ríkisins til að hafa sem víðtækasta stjórn á því. Árið 1996 leysti hann upp þjóðþingið og kallaði saman nýtt þing skipað eintómum jábræðrum, í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem hann lét kjósendur leggja blessun sína yfir stjórnarskrárbreytingar sem færðu honum aukin völd og framlengdu kjörtímabil hans um tvö ár.

Erindrekar vestrænna ríkja í Minsk segja að stjórnvöld hafi hert á tilraunum til að múlbinda fjölmiðla sem gagnrýndu Lúkasjenkó í kosningabaráttunni fyrir forseta- og þingkosningar sem fram fóru í september 2001, þar sem hann fékk formlega umboð kjósenda til að sitja fimm ár í viðbót á forsetastóli - í kosningum sem fulltrúar Evrópusambandsins og Bandaríkjanna vottuðu að hefðu farið allt annað en frjálst og rétt fram.

Talsmenn mannréttindasamtaka segja að níu hvít-rússneskum dagblöðum hafi verið lokað eða ýtt út af markaði á síðasta ári. Landið er eina fyrrverandi sovétlýðveldið þar sem leyniþjónustan ber enn heitið KGB og margir borgarar vilja ekki láta nafns síns getið ef þeir eru beðnir að tjá sig af hreinskilni um stjórnarherrana, af ótta við að vera leitaðir uppi.

"Höfuðbandamaður hans er óttinn," segir stjórnarandstæðingurinn Anatolí Lebedko, en á veggjum skrifstofu hans hanga myndir af sex stjórnmálamönnum og öðru fólki sem hafa horfið eða látið lífið undir grunsamlegum kringumstæðum á síðustu árum. Stjórnarandstaðan sakar Lúkasjenkó um að eiga hluta að máli að þessum mannshvörfum.

En Lúkasjenkó nýtur þó enn stuðnings meðal töluverðs hluta landsmanna, einkum elztu kynslóðarinnar, þar sem hann hefur lagt áherzlu á að eftirlaun (þótt lág séu) séu greidd með skilum og kunnað lagið á því að nýta sér fortíðarþrá fólks eftir "góðu gömlu dögunum" á tímum Sovétríkjanna; þrá eftir félagslegu öryggi og því að lögum og reglu sé haldið uppi málamiðlunarlaust.

Óánægjuröddum fjölgar

Þó fer óánægjuröddum fjölgandi. Æ fleiri kvarta yfir seinkunum á launagreiðslum, síminnkandi kaupmætti og skortinum á efnahagsumbótum sem margir, ekki sízt yngra fólk, telur nauðsynlegar.

Ein mikilvægasta útflutningstekjulind Hvíta-Rússlands er vopnasala. Samkvæmt upplýsingum rannsóknaþjónustu Bandaríkjaþings var landið á síðasta ári í 11. sæti yfir umsvifamestu vopnaútflytjendur í heiminum, með veltu upp á um 200 milljónir bandaríkjadala, um 16 milljarða króna.

Hernaðarsamvinna Hvít-Rússa við Íraka hefur reitt ráðamenn í Washington til reiði, og Bandaríkin og öll Evrópusambandslöndin nema Portúgal hafa lýst Lúkasjenkó og aðra æðstu ráðamenn Hvíta-Rússlands óæskilega gesti vegna ástandsins í mannréttindamálum í landinu.

Á síðasta áratug vann Lúkasjenkó sér hylli meðal hinna tíu milljóna landsmanna sinna - og fjárhagsstuðning frá Rússlandi - með því að halda á lofti hugmyndum um endursameiningu grannþjóðanna, en slíkar hugmyndir nutu hljómgrunns hjá milljónum manna í báðum löndum sem harma hrun Sovétríkjanna.

En Vladimír Pútín Rússlandsforseti gerði Lúkasjenkó grikk síðastliðið sumar, þegar hann bauð upp á áætlun um innlimun Hvíta-Rússlands í Rússland. Lúkasjenkó hafnaði henni móðgaður og hefur upp frá þessu lagt mikla áherzlu á mikilvægi þess að landið haldi fullveldi sínu.

Vangaveltur eru uppi um að Lúkasjenkó hyggi á að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu til að fá stjórnarskránni breytt þannig að hann geti boðið sig fram til forseta þriðja kjörtímabilsins í röð.

Mazheika, sitjandi á fangelsislegu járnrúminu í svefnskálanum í Zhlobin, er ekki hrifinn. "Þeim mun fyrr sem hægt er að breyta ástandinu, því betra," segir hann. En Galina Vasiltsjenkó, sem selur uppstoppuð dýr fyrir utan aðaljárnbrautarstöðina í Zhlobin, á torgi sem stærðar stytta af Lenín trónir yfir, segist myndu kjósa Lúkasjenkó aftur. Hún segist hafa kunnað vel að meta forsetann á fyrsta kjörtímabili hans, en varð fyrir vonbrigðum með skattahækkanir og efnahagsörðugleikana á seinna kjörtímabilinu. "Við vonum að þriðja kjörtímabilið verði betra," segir hún.

Zhlobin í Hvíta-Rússlandi. Associated Press.