Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, Hjálmar Árnason, formaður undirbúningsnefndar, Kristbjörn Albertsson, formaður skólanefndar, og Ólafur Jón Arnbjörnsson skólameistari hlýða á ávarp Böðvars Jónssonar bæjarfulltrúa.
Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, Hjálmar Árnason, formaður undirbúningsnefndar, Kristbjörn Albertsson, formaður skólanefndar, og Ólafur Jón Arnbjörnsson skólameistari hlýða á ávarp Böðvars Jónssonar bæjarfulltrúa.
FULLTRÚAR ríkisins og sveitarfélaganna á Suðurnesjum undirrituðu í gær samkomulag um byggingu nýrrar álmu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Keflavík.
FULLTRÚAR ríkisins og sveitarfélaganna á Suðurnesjum undirrituðu í gær samkomulag um byggingu nýrrar álmu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Keflavík. Með framkvæmdinni og breytingum á eldri aðstöðu verður húsnæði skólans komið í varanlegt horf, að sögn skólameistara.

Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra undirritaði samninginn í gær við athöfn sem fram fór á sal skólans. Sveitarfélögin taka að sér að annast framkvæmdina og undirrituðu Böðvar Jónsson formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, Sigurður Valur Ásbjarnarson bæjarstjóri í Sandgerði, Jón Gunnarsson oddviti Vatnsleysustrandarhrepps, Ólafur Örn Ólafsson bæjarstjóri í Grindavík og Sigurður Jónsson sveitarstjóri Gerðahrepps samninginn fyrir hönd sveitarfélaganna.

1.000 nemendur eftir 10 ár

Byggingin verður 2.800 fermetrar að stærð. Ólafur Jón Arnbjörnsson skólameistari segir að hún muni hýsa kennsluaðstöðu, stjórnunarrými og félagsaðstöðu, meðal annars nýjan sal og mötuneyti. Ný aðkoma að skólanum verður um þessa álmu.

Ólafur Jón segir að starfsemin hafi fyrir nokkrum árum sprengt húsnæðið utan af sér. Viðbyggingin muni bæta úr þeim vanda sem skapast hafi og gera honum kleift að taka við áframhaldandi fjölgun nemenda. Segir hann að miðað við þróunina í grunnskólunum á Suðurnesjum megi búast við að eftir tíu ár verði hátt í 1.000 nemendur í dagskóla í Fjölbrautaskóla Suðurnesja en þeir eru nú um 750.

Þá segir Ólafur mikilvægt að með þessum samningi sé tryggt fjármagn til breytinga á eldra húsnæði skólans og aðlögun þess að viðbyggingunni og kröfum nútímans.

Áætlað er að verkið í heild kosti 546 milljónir kr. Ríkið mun greiða sinn hluta miðað við norm ráðuneytisins, samtals um 346 milljónir. Sveitarfélögin greiða tæplega 200 milljónir og þar er hlutur Reykjanesbæjar mestur, tæplega 131 milljón kr. Ríkið mun greiða sinn hlut á fimm árum en Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum mun flýtifjármagna verkið þannig að hægt verði að hefjast handa á næstu mánuðum og taka húsið í notkun við upphaf haustannar á næsta ári.

Ólafur Jón segir reiknað með að farið verði í alútboð og vonast til að hægt verði að auglýsa það fljótlega. Ólafur Jón lýsir ánægju sinni með hlut sveitarfélaganna. Það sýni framsýni forráðamanna þess hvað þau hafi ávallt stutt skólann vel.

Kominn í endanlegt horf

Hjálmar Árnason, alþingismaður, formaður undirbúningsnefndar og fyrrverandi skólameistari, sagði við athöfnina í gær að skólinn hefði fyrst orðið raunverulegur fjölbrautaskóli þegar byggt var við hann fyrir tíu árum. Menn hafi talið að sú bygging myndi duga um aldur og ævi en fljótlega hefði húsnæðisskortur farið að há þróun skólans. Þegar ný álma yrði tekin í notkun kæmist Fjölbrautaskóli Suðurnesja loksins í sitt endanlega horf.

Tómas Ingi Olrich lét þess getið, um leið og hann óskaði Suðurnesjamönnum til hamingju með áfangann, að það væri löngu tímabært að ráðast í þessa framkvæmd.