TYRKIR sögðu í gær að samkomulag við Bandaríkjamenn, sem heimila myndi komu bandarískra hermanna til Tyrklands, væri innan seilingar, en samkomulagið væri liður í undirbúningi vegna hernaðaraðgerða gegn Írökum.
TYRKIR sögðu í gær að samkomulag við Bandaríkjamenn, sem heimila myndi komu bandarískra hermanna til Tyrklands, væri innan seilingar, en samkomulagið væri liður í undirbúningi vegna hernaðaraðgerða gegn Írökum. "Ef viljinn er fyrir hendi mætti skrifa upp á samkomulagið á laugardag [í dag] eða sunnudag," sagði Yasar Yakis, utanríkisráðherra Tyrklands.

Tyrkir og Bandaríkjamenn hafa m.a. þráttað um notkun Bandaríkjahers á tyrkneskum herstöðvum og öðrum hernaðarmannvirkjum í hugsanlegu stríði gegn Írak. Hafa viðræður fram að þessu strandað á kröfum Tyrkja um fjárhagsaðstoð. Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, taldi þó í gær að höggva mætti á hnútinn þannig að tyrkneska þinginu yrði gert kleift að afgreiða málið í næstu viku.

Írakar vilja viðræður

Taha Yassin Ramadan, varaforseti Íraks, bauð Bandaríkjamönnum í gær upp á "viðræður" ef stjórnvöld í Washington létu af "árásargirni" sinni og hættu "að skipta sér af innanríkismálum". "Við erum tilbúnir í viðræður við bandarísk stjórnvöld og reiðubúnir til að efna til efnahagslegra samskipta," sagði Ramadan. "Við erum til í viðræður og eðlileg samskipti við öll ríki heimsins, að frátöldu Ísraelsríki."

Bagdad, Ankara, Washington. AP, AFP.