Þorbergur Aðalsteinsson, nýráðinn þjálfari FH-inga, gefur hér læriveinum sínum góð ráð í leiknum gegn ÍBV í gærkvöld.
Þorbergur Aðalsteinsson, nýráðinn þjálfari FH-inga, gefur hér læriveinum sínum góð ráð í leiknum gegn ÍBV í gærkvöld.
ÞORBERGUR Aðalsteinsson og nýir lærisveinar hans í FH unnu góðan sigur á ÍBV í Kaplakrika í gærkvöldi, 27:23. Með sigrinum halda FH-ingar 8. sæti deildarinnar og eiga ágæta möguleika á að komast í úrslitakeppni deildarinnar. Hins vegar er nær útséð með möguleika Eyjamanna eftir þennan leik, en þeir eru nú í 11. sæti með aðeins 12 stig eftir 21 leik.
FH-ingar byrjuðu leikinn mun betur en Eyjamenn. Varnarvinna þeirra var til mikillar fyrirmyndar framan af fyrri hálfleik, þeir komu langt út á móti skyttum ÍBV og skoruðu Eyjamenn aðeins 9 mörk í hálfleiknum. Á sama tíma skiluðu Hafnfirðingar boltanum 14 sinnum í mark ÍBV. Eyjamenn urðu fyrir áfalli á 24. mínútu leiksins þegar Davíð Óskarsson fékk að líta rauða spjaldið eftir rimmu við Arnar Pétursson, leikmann FH-inga. Davíð var ekki sáttur við þann úrskurð dómaranna, sem vísuðu báðum leikmönnum af velli, enda taldi hann að Arnar hefði sýnt leikræna tilburði er þeir áttust við úti á miðjum velli. En dómurunum var ekki haggað og kom Davíð ekki meira við sögu í leiknum.

Síðari hálfleikur var ekki mikið skárri en sá fyrri. Andleysi var yfir leik ÍBV í leiknum öllum og FH-ingar féllu á köflum sömuleiðis í þann fúla pytt. Eftir að hafa leitt 17:10, hvarf skynsemin um tíma úr leik þeirra en þó ÍBV tækist að minnka muninn með því að taka þá Loga Geirsson og Arnar Pétursson úr umferð, var sigur FH aldrei í hættu í fyrsta leik þeirra undir stjórn Þorbergs Aðalsteinssonar.

"Það eru fyrst og fremst stigin sem við vorum að leita eftir í þessum leik og þau skiluðu sér. Leikurinn var afar köflóttur og við fengum næg tækifæri til að gera út um leikinn en við hleyptum þeim þess í stað alltaf aftur inn í leikinn. Við lentum í þeirri stöðu að vera meginhlutann af leiknum í vörn og það er ekki skemmtileg staða," sagði Þorbergur.

Varnarvinna FH-ingar var sem fyrr segir ágæt, engu að síður munaði mikið um að markverðir liðanna náðu sér engan veginn á strik. "Það þarf ekki endilega að vera sama sem merki á milli þess að vörnin standi sig og að markvarslan sé góð," sagði Þorbergur og bætti við að framhaldið væri eingöngu undir FH-ingum sjálfum komið - hvort þeir kæmust í úrslitakeppnina, eins og þeir ætluðu sér.

Leikurinn í heild sinni var heldur dapur á að horfa. Andleysi var ríkjandi hjá báðum liðum á löngum köflum en þó náðu FH-ingar að leysa betur úr leik sínum en Eyjamenn, sem vantaði algjörlega að koma stemningu og stuði í sitt lið. Það býr margt í þessu liði og ef þeir hafa meira gaman að því sem þeir eru að gera væri staða þeirra önnur en hún er í dag. Róbert Bognar var atkvæðamestur í liði ÍBV og lék ágætlega ásamt Sigurði Bragasyni.

Hjá FH léku þeir Arnar Pétursson, Magnús Sigurðsson og Hálfdán Þórðarson best.

Ingibjörg Hinriksdóttir skrifar