Íslandsmeistarar KA í handknattleik lentu í talsverðum hremmingum á leið sinni suður yfir heiðar í gær þegar þeir voru á leið í leikinn á móti Haukum.
Íslandsmeistarar KA í handknattleik lentu í talsverðum hremmingum á leið sinni suður yfir heiðar í gær þegar þeir voru á leið í leikinn á móti Haukum. Mikið hvassviðri var á Holtavörðuheiðinni sem varð til þess topplúgan á rútubifreiðinni, sem flutti KA-liðið, fauk af og hvarf út í buskann. Af þeim sökum þurfti rútan að stöðva í Staðarskála í tvær klukkustundir þar sem gert var við til bráðabirgða. Smíðuð var plata og henni skellt þar sem topplúgan var. KA-menn voru ekki komnir í Hafnarfjörð fyrr en laust fyrir klukkan 20 og var leiknum seinkað um hálftíma.

"Það má segja að allir orðið hálfheyrnalausir þegar topplúgan fauk af bílnum. Mikill þrýstingur myndaðist inni í bílnum og menn voru hálfvankaðir í höfðinu en sem betur fer voru menn fljótir að jafna sig," sagði Jóhannes Bjarnason, þjálfari KA, í samtali við Morgunblaðið.