Sævar Ingi Jónsson
Sævar Ingi Jónsson
Sævar Ingi Jónsson er fæddur 30. ágúst 1976 á Akranesi. Hann lauk stúdentsprófi við Fjölbrautaskóla Vesturlands vorið 1992. Síðast liðið vor lauk hann BA-prófi í íslensku við Háskóla Íslands og fjallaði ritgerð hans um nöfn á íslenskum hljómsveitum frá hinum fjölbreyttustu sjónarhólum. Samhliða námi hefur Sævar starfað við Sementsverksmiðjuna hf.
Sævar Ingi Jónsson er fæddur 30. ágúst 1976 á Akranesi. Hann lauk stúdentsprófi við Fjölbrautaskóla Vesturlands vorið 1992. Síðast liðið vor lauk hann BA-prófi í íslensku við Háskóla Íslands og fjallaði ritgerð hans um nöfn á íslenskum hljómsveitum frá hinum fjölbreyttustu sjónarhólum. Samhliða námi hefur Sævar starfað við Sementsverksmiðjuna hf.

Nafnafræðifélagið stendur fyrir fyrirlestri um hljómsveitarnöfn í dag klukkan 13.30. Fyrirlesturinn, sem byggist á BA-ritgerð Sævars Inga Jónssonar, "Verra gat það ekki verið. Um nöfn á íslenskum hljómsveitum", verður fluttur af Sævari sjálfum í stofu 201 í Árnagarði. Sævar Ingi svaraði nokkrum spurningum Morgunblaðsins um fyrirlesturinn og málefnið sjálft, sem ekki hefur áður verið tekið fyrir hér á landi á þann hátt sem hér um ræðir.

-Hvernig stendur á þessum áhuga þínum á hljómsveitarnöfnum?

"Sá áhugi er í tengslum við áhuga minn á íslenskri tónlist í gegnum tíðina. Í íslenskunáminu í Háskólanum var ég síðan í nafnafræðiáfanga og þar vaknaði sú hugmynd að ég gerði prófritgerð um efni sem tengdist áhugasviði mínu."

-Hljómsveitarnöfn á Íslandi eru mörg æði skrautleg. Menn gætu haldið að þar réði tilviljunin ein ríkjum, en er það ekki svo?

"Að sumu leyti er það rétt, tilviljun getur ráðið nafnagiftum hljómsveita, en þegar þetta er athugað koma fram ýmsar tilhneigingar sem eru ekki aðeins nokkuð afgerandi heldur er hægt að flokka þær af nokkurri nákvæmni. Það verður þó aldrei tæmandi, mörg nöfn lenda utan flokkanna, en eigi að síður má sjá tengsl og forsendur."

-Hvað geturðu sagt okkur nánar um þetta?

"Eins og ég sagði, þá eru ýmsar tilhneigingar nokkuð augljósar. Eins og til dæmis að nefna hljómsveitir beinlínis til þess að undirstrika hvernig tónlist er leikin, t.d. Djassbandið, Kúrekarnir o.fl. Tónlistarstefnan er hreinlega mörkuð með nafninu og það er tónlistarstefnan sem ræður þessu. Í þessum flokki má einnig finna nöfn sem ekki eru eins afgerandi en benda samt eindregið til róta tónlistarinnar og stefnunnar. Menn tengja t.d. papa við Írland og írska tónlist. Önnur tilhneiging er að nefna hljómsveitina beinlínis eftir forsprakkanum, t.d. Hljómsveit Svavars Gests. Síðan er tilbrigði frá þessu, meiri fjölbreytni tekur við, t.d. blandast nafn forsprakkans við annað nafn, Dúmbó og Steini, Lúdó og Stefán, seinna Grétar á gröfunni, Amma Dýrunn o.fl. svo dæmi séu tekin. Ævinlega eru síðan nöfn sem erfitt er að flokka, dæmi um það eru Tennurnar hans afa, Jet Black Joe og fleiri.

Tíðarandinn hefur alltaf spilað rullu, dæmi um það má glöggt sjá á pönktímanum í nöfnum á borð við Sjálfsfróun og Vonbrigði. Einnig hafa ýmsar hljómsveitir hreinlega gefið út yfirlýsingu um ásetning með nöfnum sínum, dæmi eru t.d. Upplyfting, Kátir piltar, Gleðigjafar o.fl.

Dýra- og náttúrunöfn eru einnig stór efnisflokkur sem leitað hefur verið í, annaðhvort stök orð, t.d. Geirfuglarnir, Skriðjöklar, eða í samblandi við önnur orð, t.d. Loðin rotta eða Á móti sól.

Það má því eiginlega segja að það séu nokkrir meginflokkar, en fjöldi undirflokka og beinlínis útilokað að fara djúpt út í þá sálma í svona viðtali. En ég kem inná þetta meira og minna í fyrirlestrinum. Í lok ritgerðarinnar reyni ég að draga fram ástæður fyrir hinum ýmsu nafngiftum hljómsveita og kem einnig inn á það í fyrirlestrinum."

-Hvernig var þessi ritgerð unnin?

"Ég fór af stað með tvær hendur tómar, en var þó með þessar helstu tilhneigingar í huganum. Mikil heimildavinna tók við, ég fór í allar bækur og blöð sem ég komst yfir, ekki síst stórbækur Dr. Gunna og Gests Guðmundssonar, talaði við fjölda tónlistarmanna, skoðaði heimasíður og þetta smákom. Löngum stundum sat ég einnig í Þjóðarbókhlöðunni, fletti þar dagblöðum og skrifaði hjá mér allt sem ég hnaut um og gat notað. Þetta getur þó alls ekki talist tæmandi úttekt á þessu tiltekna málefni, til þess er það of viðamikið. Munnlegar heimildir eru mikilvægar ef ná á meiru, en það er afar tímafrekt og bíður betri tíma. En ég hef gert mitt besta og dreg margt fram."

-Svo eru íslenskar hljómsveitir nefndar erlendum nöfnum...

"Já, svo er það. Í flestum tilvikum þá enskum nöfnum. Oft er það ávísun á að sungið sé á ensku og þá vaknar alltaf spurningin hvort að að baki liggi ætlun sveitarinnar að reyna fyrir sér erlendis. Eflaust er ekkert einhlítt þar á ferð og við höfum dæmi á móti um íslenskar hljómsveitir, t.d. Spilverk þjóðanna, sem söng fyrst á ensku en síðan á íslensku. Erlendu nöfnunum hefur fjölgað seinni árin. Þau voru fyrst gjarnan nafnorð, en síðar sérnöfn. Frægir staðir og/eða persónur hafa verið vinsæl."

-Hverja sérðu fyrir þér mæta á fyrirlesturinn?

"Ég vona t.d. að ég sjái einhverja úr geiranum og svo auðvitað almenna áhugamenn um nafnafræði. Þetta efni ætti að geta höfðað til margra, ekki síst vegna þess að ástæður fyrir hinum ýmsu hljómsveitarnöfnum eru oft og tíðum mjög fyndnar."

-Ætlarðu að halda þessu starfi áfram á einhvern hátt?

"Já, örugglega í einhverri mynd. Það þarf að ljúka þessu verki og hún gæti líka verið góð skemmtisaga á jólum."