"Miðað við umfang og fjármagn sem rennur til BUGL tel ég að deildin uppfylli ekki skilgreiningu Landspítalans til að teljast vera sérstakt svið," segir Eydís Sveinbjarnardóttir, sviðsstjóri á geðdeild LSH.
"Miðað við umfang og fjármagn sem rennur til BUGL tel ég að deildin uppfylli ekki skilgreiningu Landspítalans til að teljast vera sérstakt svið," segir Eydís Sveinbjarnardóttir, sviðsstjóri á geðdeild LSH.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eydís Sveinbjarnardóttir, formaður nefndar sem falið var að kanna vanda barna- og unglingageðdeildar Landspítalans, segir að nefndin muni leggja fram tillögur í lok mars. Hún telur fjölgun innlagna varanlega og við henni verði að bregðast.
Í JANÚAR voru 13 unglingar á biðlista eftir því að leggjast inn á barna- og unglingageðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss (BUGL), þar af voru þrír sem taldir voru í bráðri lífshættu, talið var að þeir myndu reyna að fremja sjálfsvíg og gátu foreldrar þeirra varla vikið frá þeim. Eydís Sveinbjarnadóttir, sviðsstjóri á geðsviði Landspítala segir að biðlistar eftir bráðaþjónustu hafi tekið að myndast fyrir alvöru fyrir um þremur mánuðum. Þetta sé alveg nýtt ástand og alvarlegt.

Eydís er formaður nefndar sem Magnús Pétursson, forstjóri Landspítalans, skipaði á fimmtudaginn til að fjalla um málefni BUGL. Nefndin mun taka út alla geðheilbrigðisþjónustu við börn innan spítalans og hjá helstu samstarfsstofnunum BUGL. Einnig á að meta hvernig þjónustu við börn og unglinga verði best komið fyrir innan spítalans. Í samtali við Morgunblaðið sagði Eydís að nefndin ætlaði sér að skila tillögum í lok mars. Að því loknu verður farið nákvæmlega í saumana á því hvað kostar að hrinda þeim í framkvæmd og býst Eydís við að endalegar niðurstöður liggi fyrir í maí. Hún tekur fram að stjórn geðsviðsins hafi vitað af vanda deildarinnar áður en fjölmiðlaumræða hófst um hann á miðvikudag og unnið hafi verið að því að finna leiðir til að bregðast við. Upphaf umræðunnar að þessu sinni má rekja til bréfs frá stjórn Barnageðlæknafélags Íslands sem taldi að málið þyldi enga bið. Aðspurð segir Eydís að hugsanlega verði beitt þeirri bráðabirgðalausn að leggja fleiri unglinga inn á deildir fyrir fullorðna og að starfsmenn BUGL muni koma að meðferð þeirra. Þetta sé ekki ákjósanlegt en sé næst besta lausnin.

Deildin "sprakk" í fyrra

BUGL skiptist í fjórar deildir, barnageðdeild, framhaldsmeðferðardeild fyrir börn, göngudeild og unglingageðdeild sem sinnir unglingum á aldrinum 12-16 ára. Eydís segir að alvarlegasti vandi BUGL sé biðlisti fyrir innlagnir á unglingageðdeild og barnageðdeildina. Biðlistar eftir annarri þjónustu hafi styst á síðustu árum. Á unglingageðdeild eru samtals níu meðferðarpláss, sjö fyrir sólarhringslegu og tvö fyrir daglegu. Undanfarna mánuði hefur deildin verið yfirfull en oftast hafa 11-13 unglingar legið inni á deildinni. Eydís segir að miðað við höfðatölu ættu meðferðarplássin að vera a.m.k. 15. Afleiðingin af því að of margir séu á deildinni sé lakari þjónusta og erfiðara sé að tryggja fullnægjandi öryggi. Hætta á ofbeldi er því meiri og á þessu ári hefur starfsfólk deildarinnar nokkrum sinnum þurft að kalla á lögreglu. Rétt er að hafa í huga að unglingar sem lagðir eru inn á unglingageðdeild eru ekki þar vegna félagslegs eða hegðunarlegs vanda eða vegna fíkniefnaneyslu. Þeir sem eru lagðir inn á unglingageðdeild eru með geðraskanir eða alvarleg geðræn einkenni s.s. geðrof, kvíða, persónuleikaraskanir, alvarlegt þunglyndi, átraskanir eða eru í sjálfsvígshug. Miklu fleiri eru nú lagðir inn á unglingageðdeild en áður. Árið 1997 voru 36 innlagnir, árið 2002 var fjöldinn orðinn 91. Fjölgunin nemur 250%. Að sögn Eydísar hefur alveg ný staða myndast á síðasta ári, aldrei áður hafi myndast biðlisti eftir bráðainnlögnum. Fram til loka ársins 2001 hafi deildin náð að anna eftirspurn. "En í rauninni má segja að deildin hafi sprungið í fyrra," segir hún. Svo virðist sem þessi aukning í eftirspurn sé varanleg og við því verði að bregðast. Hún tekur skýrt fram að þetta sé ekkert séríslenskt fyrirbæri og í nágrannalöndunum glími menn við svipaða þróun.

Starfsemi BUGL verði betur tengd við spítalann

Aðspurð segir Eydís að við fyrstu sýn lítist sér ekki vel á hugmyndir Ólafs Ó. Guðmundssonar, yfirlæknis BUGL, um að deildin verði gerð að sérstöku sviði innan spítalans. Þetta verði þó örugglega rætt í starfshópnum. Sú umræða sé þó ekki ný. "Miðað við umfang og fjármagn sem rennur til BUGL tel ég að deildin uppfylli ekki skilgreiningu Landspítalans til að teljast vera sérstakt svið," segir hún. Að hennar mati felst í tillögum Ólafs ákveðið vanmat á þeirri þjónustu sem deildin njóti frá öðrum deildum á geðsviði spítalans. Frekar þurfi að tengja starfsemi BUGL meira við starfsemi Landspítalans, þ. á m. á Barnaspítala Hringsins. Með því að auka sjálfstæði BUGL sé meiri hætta á faglegri einangrun deildarinnar.

Eydís hafnar algjörlega þeirri fullyrðingu Braga Guðbrandssonar, forstjóra Barnaverndarstofu að fjármagn sem stofnunin hafi lagt inn í rekstur BUGL hafi ekki nýst deildinni. Peningarnir hafi allir nýst til reksturs BUGL, það megi sjá svart á hvítu í bókhaldi spítalans.