Þorsteinn Daníelsson fæddist í Guttormshaga í Holtahreppi 13. október 1913. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu 8. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Daníel Daníelsson, f. 12 nóv. 1880 í Kaldárholti, d. 10. apríl 1932 í Guttormshaga, og Guðrún Sigríður Guðmundsdóttir, f. 12. sept. 1885 í Miðkrika í Hvolhreppi, d. 2. sept. 1977 á Vífilsstöðum. Þorsteinn var fjórði í röð níu systkina, hin eru: drengur, andvana fæddur 1908, Guðmundur, f. 1910, d. 1990, Valgerður, f. 1912, d. 1999, Gunnar, f. 1916, d. 1997, Dagur, f. 1918, d. 2001, Elín, f. 1920, Steindór, f. 1923, d. 2002, Svava, f. 1927.

Þorsteinn kvæntist 26. maí 1945 eftirlifandi eiginkonu sinni, Ólöfu Snælaugsdóttur, f. 16. júlí 1918 á Litla-Árskógi í Árskógshr. í Eyjafirði. Foreldrar hennar voru Snælaugur Baldvin Stefánsson, f. 18. des. 1891, d. 18. feb. 1960, og Kristín Ragnheiður Ágústsdóttir, f. 28. jan. 1892, d. 17. des. 1932. Þorsteinn og Ólöf eignuðust fjögur börn. Þau eru: 1) Ólafur Kristinn, f. 3.12. 1946, kona hans er Helga Gísladóttir, f. 6.3. 1960, börn þeirra: Þorsteinn Heiðar, Gísli Kristján, Ólöf Gunnhildur og Daníel Svanur. 2) Guðrún Sigríður, f. 5.5. 1948, gift Hilmari Hoffritz, f. 23.6. 1947, börn þeirra: Heimir, Þorsteinn, Karl Ágúst og Sigurbjörg Rut. 3) Bjarni Heiðar, f. 5.4. 1950, kona hans er Þuríður Salóme Guðmundsdóttir f. 1.11. 1945, börn Þuríðar: Guðmundur Páll og Hrafnhildur Elísabet. 4) Daníel, f. 16.6. 1955, kona hans er Málfríður Hannesdóttir, þeirra dóttir er Valgerður Ósk. Dóttir Daníels og Jónu S. Möller er Guðrún, dóttir Daníels og Guðnýjar Pálsdóttur er Ólöf Kristín. Dóttir Þorsteins og Elínar Elíasdóttur, f. 12 nóv. 1913, d. 1971, var Hjördís, f. 14. des. 1945, d. 2002. Börn Hjördísar og Hallsteins Sverrissonar: Óttar og Elín. Eftirlifandi eiginmaður Hjördísar er Sigfús Thorarensen.

Þorsteinn stóð að búi með móður sinni og systkinum í Guttormshaga og fór jafnframt á vertíðir til Grindavíkur þar til hann tók alfarið við búinu í maí 1945.

Útför Þorsteins fer fram frá Skarðskirkju á Landi í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Þar sem englarnir syngja sefur þú,

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum í trú

á að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni

veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljós

lát náð þína skína svo blíða.

Minn styrkur, þú ert mín lífsins rós,

tak burt minn myrka kvíða.

Þú vekur hann með sól að morgni.

Þú vekur hann með sól að morgni.

Farðu í friði, vinur minn kær,

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær,

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens.)

Þín

Ólöf Kristín.