Laufey Sigurðardóttir fæddist á Fáskrúðsfirði 9. ágúst 1920. Hún andaðist á Landspítalanum við Hringbraut 13. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Sigurður Einarsson bóndi og smiður, oft kenndur við Odda á Fáskrúðsfirði, f. 8.7. 1868, d. 9.2. 1936, og Kristín Gunnarsdóttir, f. 7.6. 1874, d. 3.4. 1961. Laufey ólst upp í Odda ásamt albróður sínum Guðlaugi, f. 1913, d. 1980. Hálfsystkini frá fyrra hjónabandi föður hennar eru Guðrún Björg, f. 1895, d. 1947, Einar, f. 1897, d. 1984, Þóra Guðfinna, f. 1899, d. 1979, Andrés, f. 1903, d. 1969, og tvíburasysturnar Ágústa, f. 1907, d. 1991, og Valborg, d. 1973.

Sonur Laufeyjar og Ole Olsen skipstjóra frá Skála, Færeyjum, f. 26.6. 1912, d. 7.10. 1993, er Agnar, f. 1943, kvæntur Rafnhildi Jóhannesdóttur, f. 1943. Börn þeirra eru Margrét, Laufey og Sigurgeir.

Hinn 4. júní 1949 giftist Laufey Jóni Dalbú Ágústssyni skipstjóra frá Stykkishólmi, f. 16.9. 1922, en hann andaðist 7. febrúar 2002. Börn Laufeyjar og Jóns eru: 1) Kristín Sigurbjörg, f. 1948, gift Kristjáni Inga, f. 1945, d. 1990. Sonur Kristínar er Jón Elvar Hafsteinsson, kvæntur Jóhönnu Ó. Eiríksdóttur. 2) Níels Breiðfjörð, f. 1950. Börn hans eru Gunnar Karl, Magðalena og Lilja. 3) Ágúst, f. 1951, kvæntur Bryndísi Bjarnadóttur, f. 1953. Börn þeirra eru Alma, sambýlismaður Benedikt Sigurgeirsson, og Þórdís. 4) Svanhildur, f. 1955. Börn hennar eru Jóhann Örn, unnusta Hildur Hilmarsdóttir, Helga Kristín og Davíð Karl. 5) Sigurður, f. 1958, kvæntur Sigrúnu Sævarsdóttur, f. 1961. Synir þeirra eru Sævar, Kolbeinn og Matthías. Langömmubörnin eru sex.

Laufey fluttist til Stykkishólms árið 1949 og átti þar heimili uns hún fluttist til Hafnarfjarðar í október á síðasta ári.

Útför Laufeyjar fer fram frá Stykkishólmskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Við viljum með þessum orðum minnast ömmu okkar, Laufeyjar Sigurðardóttur. Það er erfitt að gera sér grein fyrir að amma sé dáin enda var hún við ágætis heilsu þegar við kvöddum hana í byrjun janúar eftir jólafrí hér heima og bar engin merki þess sjúkdóms sem dró hana til dauða á örfáum vikum.

Amma var ákveðin og sterk manneskja, jafnvel þrjósk mundu sumir segja. Eiginleikar sem sjálfsagt nýttust henni vel við að koma á fót sex börnum. Hins vegar vildi hún aldrei trana sér eða sínum fram og ekkert láta fyrir sér hafa. Þegar við lítum til baka er það hins vegar fyrst og fremst góðmennska hennar og væntumþykja í okkar garð sem standa upp úr. Amma mátti ekkert aumt sjá og hafði sérstakt dálæti á köttum. Sem merki um það var á tímabili stór hluti heimilis- og villikatta í Tanganum í fæði og húsnæði á Tangagötunni. Við systkinin fengum allavega útrás fyrir gæludýraþörf okkar í Hólminum. Þar kynntumst við Snúði, Snældu, Rósu, Monnsa og Snotru ásamt ótöldum öðrum köttum. Hin síðari ár var það Skúli sem réð ríkjum á Tangagötunni, einn stærsti gulbröndótti fress sem við höfum augum litið. Amma var mjög handlagin og hugmyndarík. Það voru ófáar stundirnar sem við eyddum sem börn við eldhúsborðið við ýmiss konar föndur og handavinnu sem allt átti uppruna að rekja til ömmu. Eftir sumardvalir hjá afa og ömmu var oft komið með afraksturinn í bæinn, afrakstur sem reyndar bar merki misjafnrar lagni okkar. Amma var ágætis hagyrðingur og setti saman vísur við hin ýmsu tækifæri. Hún átti til að læða þessum vísum inn í gestabækur eða kveða sér hljóðs á fjölskyldumótum og leyfa okkur hinum að heyra.

Í hugum okkar systkinanna var Tangagatan miðpunktur stórfjölskyldunnar. Þar var oft margt um manninn á sumrin og ófáir sem nutu gestrisni þeirra hjóna. Það mæddi því oft mikið á ömmu en alltaf var hún manna fyrst á fætur á morgnana þrátt fyrir að hafa oft vakað hálfu næturnar við lestur "rauðra rómana", ævisagna eða bóka um stríðsárin.

Það hafa miklar breytingar orðið á högum fjölskyldunnar á einu ári og erfitt að sætta sig við að bæði amma og afi í Hólminum séu dáin. Veraldleg auðæfi verða ekki mælikvarði á þá arfleið sem þau hjónin skilja eftir heldur þau lífsgildi sem þau lifðu eftir og miðluðu af.

Elsku amma, fyrir utan alla þína góðu kosti þá erum við fullviss um, eins og þú vonaðir sjálf, að nær hálfrar aldar starf í kirkjukórnum í Hólminum hefur skilað þér á góðan stað með afa þér við hlið. Blessuð sé minning þín.

Margrét, Laufey

og Sigurgeir.

Mig langar að minnast hennar ömmu minnar í nokkrum orðum. Amma var lágvaxin kona sem ekki lét mikið fyrir sér fara.

Hún var þó í góðum samskiptum við vini og ættingja, enda var amma sú manneskja sem best var að hringja í ef maður vildi leita frétta af ættingjunum. Þegar maður kom í heimsókn í Hólminn gat maður alltaf stólað á að á borðinu biðu heimabakaðar kleinur og jólakökusneiðar ásamt mjólk. Og þá skipti engu hversu seint maður var á ferðinni. Amma settist ævinlega með og drakk kaffi úr litla gula plastbollanum sínum sem var orðið vel litaður af margra ára notkun. Eitt sinn sagði amma mér að hún hefði nú oft prófað að tileinka sér aðra bolla en aldrei fundist þeir geta komið í staðinn fyrir litla gula plastbollann. Þar sem sá guli var orðinn gamall og stökkur meðhöndlaði maður hann með sérstakri virðingu.

Amma hafði mikla þolinmæði bæði gagnvart mönnum og málleysingjum. Hún var mikill kattavinur og oftast var köttur til heimilis í Hólminum. Æði oft voru þessir kettir einhver grey sem amma tók upp á arma sína svo ekki þyrfti að farga þeim. Aldrei gat amma heldur farið að heiman í lengri tíma án þess að hafa áhyggjur af þeim.

Þeir voru eins og börnin hennar eftir að hin eiginlegu börn flugu úr hreiðrinu. Amma ól upp ekki aðeins börnin sín sex heldur einnig þrjú börn hálfbróður síns Einars Sigurðssonar sem missti konu sína. Þar að auki hafði amma hönd í bagga með uppeldi þeirra barnabarna sem bjuggu í Tangagötunni um skeið ásamt foreldrum sínum.

Sunnudagsmáltíðirnar hjá ömmu í Hólminum voru einstakar, lambalæri og ís á eftir. Allir sátu í hnapp við borðstofuborðið í stofunni sem einu sinni var svefnherbergi fyrir næstum alla fjölskylduna. Við krakkarnir fengum að drekka úr glösunum með fornbílamyndunum. Þau voru í okkar augum alveg einstök glös. Amma hlyti að hafa haft mikið fyrir að komast yfir þau en reyndar voru þau bara sinnepsglös. Amma var mikil hannyrðakona, alltaf með eitthvað ýmist á prjónunum eða heklunálinni. Gamla saumavélin hennar hefur í gegnum tíðina saumað ýmislegt og ekki síst eitthvað til að gleðja börnin s.s. eins og Grána minn sem er prikhestur og er enn í brúkun. Um síðustu jól fékk dóttir mín litla dúkku í hekluðum fötum frá henni. Þar voru húfa, kjóll og meira að segja skórnir voru heklaðir. Ég ætla að biðja hana að geyma hana um aldur og ævi því að Laufey langamma hennar hafi heklað fötin, langamma hennar sem hún saknar svo mikið.

Ég kveð ömmu mína í Hólminum með söknuð í hjarta, konuna með fallegu dökku augun.

Alma Ágústsdóttir.

Þeim fer fækkandi sem finnst maður ágætur hvort sem maður snýr upp eða niður, og vilja manni bara hið besta. Svoleiðis fólk voru Laufey og Dalli frændi. Laufey mundi eftir öllum stórum dögum í lífi okkar og þau Dalli tóku ávallt virkan þátt í gleði og sorg. Heimili þeirra stóð okkur opið og jólaboðin sem þau héldu þegar við vorum að alast upp eru þau sem ég man best og skemmti mér best í. Hjartans þakkir fyrir.

Við systkinin sendum þeirra góðu börnum og fjölskyldum innilegustu samúðarkveðjur.

Guð blessi minningu þeirra hjóna.

Sigríður Hanna, Ágúst og

Guðrún Þóru- og

Jóhannesarbörn.

Í dag kveðjum við kæra kórsystur og vinkonu Laufeyju Sigurðardóttur. Áratugum saman var hún dyggur félagi í kór Stykkishólmskirkju. Hún söng alla tíð altrödd. Hún var mjög tónviss og hafði þýða og hljómfallega rödd sem hún beitti af smekkvísi. Við Laufey vorum kunnugar áður en ég kom í kirkjukórinn, þar sem hún var gift frænda mínum Jóni Dalbú. En fyrir hennar tilstilli kom ég í kórinn á áttunda áratugnum. Man ég vel hvað hún studdi okkur sem vorum að byrja í kórnum. Ekki var kunnátta of mikil í nótnalestri svo gott var að halla sér að þeim sem vanari voru, og var Laufey þar okkar styrka stoð. Má því segja að við höfum litið á hana sem móður altraddarinnar. Oft var þröngt uppi á lofti gömlu kirkjunar en það kom ekki að sök því samkomulagið var gott. Laufey var friðelskandi kona sem lagði alltaf gott til málanna. Lengst af var Laufey með stórt heimili, svo oft hefur verið erfitt að fara frá um stórhátíðar og helgar, fyrir utan allar æfingar. Við sem erum í kór þekkjum það vel. Þær eru ótaldar athafnirnar sem hún söng við um ævina.

Svo var nýja kirkjan á Borginni tilbúin og var hún vígð 6. maí 1990. Þá batnaði aðstaðan að miklum mun, öllum í kórnum til mikillar gleði. Laufey var samofin í minningunni um kórinn og kirkjuna okkar. Hún var alltaf tilbúin þegar til hennar var leitað, að baka pönnukökur eða annað, þegar haldið var kaffiboð eða tekið á móti gestum.

Nú er söngur hennar þagnaður, síðasti tónninn er horfinn út í tómið, en það er trú mín að söngurinn hennar hljómi á æðri stöðum. Við í kór Stykkishólmskirkju minnumst Laufeyjar með virðingu og þökk. Það er gæfa að hafa kynnst slíkri konu.

Far þú í friði,

friður guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir

allt og allt.

(V. Briem)

Við í kór Stykkishólmskirkju vottum börnum Laufeyjar og fjölskyldum þeirra innilega samúð.

Jóhanna Jónasdóttir.