Elín Þóra Sigurbjörnsdóttir fæddist á Sveinsstöðum í Grímsey 1. janúar 1909. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut 16. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Sigrún Indriðadóttir og Sigurbjörn Sæmundsson. Systkini hennar voru Steinunn sem lést 18 ára af barnsförum, Matthea, Dýrleif, Bára, Þorleifur, Halldóra Anna og yngst var Steinunn Helga. Þau eru nú öll látin.

Elín Þóra giftist Óla Bjarnasyni frá Básum í Grímsey 5. nóvember 1927. Hann fæddist 29. ágúst 1902 og lést 8. september 1989. Þeirra börn eru: 1) Sigrún, f. 13.8. 1928, gift Páli Kristinssyni, f. 22.9. 1927. Þau eiga þrjú börn, níu barnabörn og fimm barnabarnabörn. 2) Óli Hjálmar, f. 27.4. 1931, kvæntur Halldóru Traustadóttur, f. 3.4. 1932. Þau eiga fjögur börn og ellefu barnabörn. 3) Inga Bjarney, f. 16.7. 1933, gift Björgvini Gunnarssyni, f. 9.4. 1936. Þau eiga fjögur börn, ellefu barnabörn og eitt barnabarnabarn. 4) Willard Fiske, f. 1.3. 1936, kvæntur Valgerði Gísladóttur, f. 31.10. 1937. Þau eiga þrjú börn og níu barnabörn. 5) Birna, f. 12.7. 1941, gift Dagbjarti Einarssyni, f. 26.6. 1936. Þau eiga fimm börn og 15 barnabörn. 6) Garðar, f. 21.1. 1945, kvæntur Áslaugu Alfreðsdóttur, f. 13.10. 1948. Þau eiga þrjú börn og fjögur barnabörn. Áður átti Garðar dóttur með Sigrúnu Sigurgeirsdóttur og á hún tvö börn. 7) Þorleifur, f. 18.7. 1954, d. 4.10. 1981. Hans kona var Ingibjörg Margrét Gunnarsdóttir, f. 7.10. 1957, og þau áttu tvö börn.

Útför Elínar Þóru verður gerð frá Miðgarðakirkju í Grímsey í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku mamma mín. Þegar ég nú sest niður til að skrifa nokkur kveðjuorð til þín, svona eins og frá okkur systkinunum, er mér efst í huga þakklæti. Þakkir fyrir að eiga eins góða og yndislega móður og föður og við áttum. Kærleikur þinn til okkar allra afkomenda þinna, sem teljum eitt hundrað, var engu líkur. Það var ekki bara að þú breiddir þig yfir börnin þín, heldur áttu barnabörnin, langömmubörnin og langalangömmubörnin vísan stað hjá þér sem þau gátu leitað til hvenær sem var. Þú skildir alla svo vel. Mikil var sorg okkar allra þegar Lalli bróðir féll frá í blóma lífsins aðeins 27 ára frá Möggu konunni sinni, Þóru og Kára. Þá sýndir þú ótrúlegan styrk og æðruleysi. Lalli var um margt eins og einbirni hjá ykkur pabba, svo langyngstur okkar systkinanna var hann og alla tíð hrókur alls fagnaðar. Þá huggaðir þú þig með því að ekki yrði svo langt þangað til þú hittir Lalla aftur, svo mikil og einlæg var trú þín. Þú lifðir nú samt í 22 ár. Það var alveg eins þegar pabbi dó. Þú tókst því með sama æðruleysinu, fullviss í trú þinni að það væri bara tímaspursmál hvenær þið hittust aftur. Ég hef stundum vitnað í að það mátti læra mikið af ykkar hjónabandi, hvernig þið eydduð ellinni saman í ást og kærleika. Ég sé ykkur fyrir mér, sitjandi saman í sófanum fyrir framan sjónvarpið. Þá héldust þið gjarnan í hendur. Þið voruð alltaf eins og nýtrúlofuð.

Þið máttuð muna tímana tvenna á langri ævi. Myndi unga fólkið í dag trúa því að pabbi lenti í því að þurfa að róa frá Grímsey á árabát til Húsavíkur eftir læknishjálp? Eða þegar þú fórst í þvottana, allt þvegið á höndum á þvottabretti, stundum við vatnsskort sem oft var í Grímsey? Enda var það oft þannig þegar þú komst suður til okkar að þú varst eyðilögð yfir því hvernig við færum með vatnið, að láta það renna svona stjórnlaust niður eins og þú orðaðir það. Þá eru minnisstæðir hlaðarnir af bakkelsinu sem beið okkar í eldhúsinu á morgnana. Þú vaknaðir alltaf með pabba og bræðrum mínum til að nesta þá á sjóinn og þú varst ekkert að skríða upp í aftur. Ó, nei! Þá byrjaðir þú að baka. Frægt er hafrakexið þitt, sem engum tekst að gera eins og þú gerðir, hversu mjög sem við systur reynum. Þá er minningin um steikta brauðið með rúllupylsu eða kæfu ofarlega í sinni. Pabbi sagði mér oft söguna af því þegar hann keypti handa þér prjónavélina og ætlaði þar með að létta þér róðurinn við prjónaskapinn á allan barnahópinn ykkar. En þá fóru að berast hnyklar víða af eyjunni og þú sem hreinlega kunnir ekki að segja nei bættir þá heilmiklu við þína vinnu. Svo var það eina nóttina að pabbi vaknaði og heyrði í prjónavélinni inni í stofu. Þá þótti honum fulllangt gengið og sagði við þig að hann hefði ekki keypt vélina þá arna til að þú hættir að sofa. Þá sagðir þú bara: "Svona Óli minn, hafðu ekki áhyggjur á meðan ég tek ekkert af þínum svefntíma."

Ekki get ég látið ógetið þess hversu góð Inga og Venni voru þér og pabba. Þar áttuð þið visst skjól þegar árin fóru að færast yfir. Þið pabbi kunnuð vissulega að meta það og voruð óendanlega þakklát. Ég verð líka að segja að tengdabörnin ykkar voru heppin að eiga tengdaforeldra eins og ykkur pabba. Þau nutu sömu mildinnar eins og við börnin ykkar.

Að lokum, mamma mín. Ég veit að þér hefði fundist við hæfi að þakka starfsfólkinu í Víðihlíð fyrir elskulegheitin, hversu vel þau hugsuðu um þig þegar þú fluttist þangað inn. Þú varst svolítið hissa á því hvað allir þar voru góðir við þig og sagðir oftar en einu sinni að þú hefðir þurft að flytja fyrr til þessa góða fólks.

Svo að endingu. Hafðu þökk, mamma mín, fyrir allt og allt.

Fyrir hönd okkar systkinanna skrifar þessar línur þín elskandi

Birna.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér sinn síðsta blund.

(V. Briem.)

Nú hefur hún amma fengið kallið sitt. Kallið um að nú sé hennar tími kominn til að yfirgefa þennan heim og hverfa á vit nýrra starfa á nýjum stað. Þó að við vitum öll að hvert og eitt okkar verður að hlýða sínu kalli þegar það kemur er alltaf jafn sárt að kveðja þá sem við elskum. Það er með sárum söknuði sem ég kveð ömmu mína, Elínu Þóru Sigurbjörnsdóttur, eða ömmu Ellu.

Þegar ég hugsa um ömmu eru mér efst í huga allir þeir kostir sem prýddu þessa yndislegu og einstaklega vönduðu konu. Amma var jákvæðasta manneskja sem ég hef á ævinni kynnst og geta án efa allir sem þekktu hana tekið undir það. Það var alveg sama hvað það var, alltaf gat hún séð jákvæðu hliðarnar á öllu. Hún var einstaklega lífsglöð og hafði unun af því að vera innan um annað fólk. Hún var líka sérstaklega skapgóð. "Var hún nokkuð í fýlu?" sögðum við stundum í gríni þegar einhver hafði verið í heimsókn hjá ömmu og við vorum að spyrja frétta af henni. Við vissum auðvitað alltaf svarið. Hún var alltaf kát og glöð þegar maður kom til hennar. Hún var líka svo þakklát fyrir allt. "Það eru allir svo góðir við mig, ég veit ekki hvort ég á þetta skilið," sagði hún við mig um daginn. Mér finnst þetta lýsa henni svo vel. Það var henni svo eðlislægt að vera jákvæð og lífsglöð og auðvitað smitaði það út frá sér. Það leið öllum vel í návist hennar.

Amma fylgdist vel með sínu fólki allt fram á síðasta dag. Hún bar mikla umhyggju fyrir okkur öllum og var einstaklega stolt af okkur. "Það er ekkert skrítið þótt ég sé montin af ykkur," sagði hún við mig ekki alls fyrir löngu þegar við vorum að spjalla um stóra hópinn hennar. Og það er óhætt að tala um stóran hóp því afkomendurnir eru orðnir hundrað talsins. Stór hluti þessa hóps hittist einmitt í Grímsey síðasta sumar og dvaldi þar yfir helgi ásamt ömmu. Þetta var einstaklega skemmtilegur tími sem við áttum þarna saman og varðveitist í hugum okkar ásamt öðrum minningum tengdum ömmu.

Amma var nútímakona þótt hún væri orðin 94 ára gömul og hefði lifað tímana tvenna. Hún ól barnahópinn sinn upp og hugsaði um mannmargt heimili, hennar og afa, án allra þeirra nútímaþæginda sem við höfum í dag. En henni fannst svo sjálfsagt að við sem yngri erum hefðum öll þau þægindi sem einfölduðu og léttu okkur verkin. Henni hefði aldrei dottið í hug að fjasa yfir því að svona hefði þetta nú ekki verið í gamla daga, að hlutirnir hefðu nú verið miklu erfiðari þá o.s.frv.

Í síðasta skiptið sem ég hitti ömmu áttum við yndislega stund saman. Stund sem ég veit að okkur þótti báðum mjög vænt um. Við vorum bara tvær. Ég sat við rúmið hennar og hún hélt í höndina á mér og strauk hana eins og hún gerði alltaf þegar ég hitti hana og svo spjölluðum við saman. Hún spurði frétta af eiginmanni og börnum og henni þótti gaman þegar ég gat sagt henni sögur af einhverju sniðugu sem börnin höfðu sagt eða gert. Ég hafði áhyggjur af því að hún yrði þreytt eftir heimsóknina en henni var mikið í mun að segja mér að hún væri sko ekkert þreytt og hvað henni þætti gaman að sjá mig. Þegar ég fór frá henni leið mér eitthvað svo sérstaklega vel. Kannski vissum við báðar innst inni að þetta var okkar kveðjustund.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.)

Elsku amma, minninguna um þig mun ég alltaf varðveita og svo sannarlega taka þig mér til fyrirmyndar og leitast við að sjá það jákvæða í öllu því sem lífið hefur upp á að bjóða.

Guðrún Willardsdóttir og fjölskylda.

Jæja, amma mín, það hlaut að koma að þessari stundu fyrr en síðar. Færustu læknar reyndar skildu ekkert í því hvað þú náðir að lifa lengi, búin að vera á sprengitöflum í u.þ.b. 35 ár en ég held að skýring mömmu á langlífi þínu sé best: Þú hafðir svo gaman af því að lifa að þú máttir ekkert vera að því að deyja! En auðvitað hlaut að koma að endalokum hjá þér eins og okkur öllum, eða eins og segir í frábæru kvæði: "Eitt sinn verða allir menn að deyja".

Þótt ég hafi nú ekki komið eins oft í heimsókn til þín undir það síðasta og ég eðlilega hefði átt að gera, þá náði ég að eiga samverustund með þér sl. fimmtudag, eða rúmum tveimur sólarhringum áður en þú varst öll. Fyrir þann hálftíma sem ég átti þá með þér verð ég ævinlega þakklátur. Við áttum gott spjall saman. M.a. hafði ég orð á því hvað þú værir nú alltaf skýr orðin rúmlega 94 ára gömul því eins og flestir vita þá vill harði diskurinn oft gefa sig á eldri árum. Þú tókst heilshugar undir þetta hjá mér og sagðir að oft væri það nú þannig að þú settir ofan í við þær systur, Ingu og mömmu, sem eru, eðli hlutarins samkvæmt, talsvert yngri en þú! Reyndar verð ég að játa að þú settir ofan í við mig líka því þú mundir hvað ég borgaði mikið fyrir hjartatækið sem ég sótti fyrir þig fyrir tveimur árum og þú varst með það á hreinu að það bæri að endurgreiða þegar tækinu væri skilað. Hvorki mundi ég að ég borgaði 8.000 kr. fyrir tækið né að peningurinn fengist endurgreiddur!

Annað sem ég vil fá að minnast á er sl. sumar en þá hittumst við flest afkomenda þinna í Grímsey á aldarafmæli afa Óla. Þetta var hreint út sagt æðisleg helgi í alla staði. Þú getur ekki ímyndað þér hvað ég var stoltur yfir því að hafa fengið að spila undir söng barnanna þinna til þín á uppáhaldslaginu þínu, um Willard Fiske og hvað hann gerði fyrir eyjuna okkar, hana Grímsey. Ekkert minna ánægður og stoltur var ég á miðvikudaginn á minningarathöfninni um þig sem haldin var í Grindavík, þegar ég lék undir og við sungum saman þetta sama lag til þín, ég, Daddi Willards og sjálf Diddú.

Amma, ég þykist vita að lífið endar ekki þegar maður deyr frá þessu jarðlífi. Hvert haldið er get ég ekki, frekar en nokkur annar sagt til um. Eitt þykist ég þó vera viss um, þú átt eftir að lífga mikið upp á þann stað sem þú ferð á og gera hann betri því eins góð og skemmtileg kona er vandfundin.

Skilaðu bestu kveðjum frá mér til afa, Lalla og Konna, já, og til allra sem þú hittir sem þekktu mig.

Sigurbjörn Daði.

Elsku amma Ella hefur kvatt þennan heim og því viljum við systkinin minnast hennar með örfáum orðum. Hún var einstaklega hjartagóð og hlý manneskja og urðum við þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að alast upp hjá henni í Grímsey. Hún og afi bjuggu á Sveinsstöðum og var stutt fyrir okkur að skottast yfir túnið til að njóta samvista þeirra. Amma sá til þess að hafrakex, soðið brauð og annað góðgæti væri alltaf á boðstólum. Hún var aldrei aðgerðarlaus. Ef hún var ekki yfir pottunum í kokkhúsinu, eins og afi kallaði það, sat hún við hannyrðir.

Það var gaman að spjalla við ömmu. Hún hafði mikla löngun til að fá fréttir af mönnum og málefnum og ef henni fannst hallað of mikið á sitt fólk var hún ekki lengi að taka upp hanskann fyrir sína. Gaman er að minnast þess t.d. þegar Inga frænka var að skammast yfir því að henni hafði fundist sjást of mikið vín á fólkinu hennar svaraði amma að bragði: "Svona, þetta hefur bara verið innri gleði."

Amma varð 94 ára gömul og fram að síðasta degi var hún lífsglöð og hafði ómældan áhuga á að fylgjast með öllu. Svo mikið að mörgum fannst nóg um. Það sýndi sig best að þegar maður kom í heimsókn var maður spurður spjörunum úr.

Þrátt fyrir að vera orðin roskin kona fyrir löngu var langt frá því að hún léti það stoppa sig í þátttöku í nútíma lífi. Hún var mjög áhugasöm um körfubolta og fótbolta og þekkti meira að segja marga leikmennina með nafni. Einnig fannst okkur systkinunum afar spaugilegt að amma var mikill aðdáandi Djúpu laugarinnar á Skjá einum og mátti varla missa þátt úr.

Kvöldið áður en amma lést sat ég hjá henni og var hún mjög lasin. Það aftraði henni samt sem áður ekki frá því að hafa áhuga á því sem gerðist innan fjölskyldunnar. Síðustu orð hennar voru: "Hefur hann Óskar minn eitthvað getað róið?" Þetta er lýsandi dæmi um hvað amma var alltaf áhugasöm um sitt fólk og bar hag þess fyrir brjósti.

Við vitum að þrátt fyrir að amma hafi verið lífsglöð kona með eindæmum er hún eflaust ánægð að vera búin að hitta hann afa og Lalla sinn aftur.

Við eigum öll fallegar og góðar minningar um ömmu sem við erum þakklát fyrir. Þær munum við geyma í hjörtum okkar alla tíð.

Takk fyrir allt, elsku amma.

Guð geymi þig.

Ragnhildur Elín, Alfreð og Helga Fríður.

Sjáið hana Þóru mína! Hún er eins og drottning. Augu gamla mannsins ljómuðu þegar hann horfði á Þóru sína, en venjulega var amma bara kölluð Ella. Þau voru alltaf jafn ástfangin og héldust iðulega í hendur þegar þau horfðu saman á sjónvarpið. Óli afi dó í september '89 og amma dó þann 16. febrúar sl. Nú situr drottningin hans væntanlega við hlið hans og þau haldast ábyggilega í hendur. Það er margs að minnast hjá okkur systkinunum, en amma hefur búið hjá foreldrum okkar síðan afi dó. Flest öll sumur þegar við vorum börn þá vorum við hjá ömmu og afa í Grímsey og oft voru þau yfir vetrartímann hjá okkur í Grindavík. Lalli, yngsta barnið þeirra, var þá með þeim og var hann á sama aldri og elstu systkinabörnin. Amma kenndi okkur að tefla einn veturinn, það var margt sem amma kenndi okkur og aldrei féll henni verk úr hendi. Hún prjónaði og heklaði fram á síðasta dag og hún átti alltaf til sængurgjafir fyrir næstu afkomendur og hún gaf öllum af yngstu kynslóðinni ullarsokka og vettlinga í jólagjafir þangað til hún varð 90 ára. Nú eru afkomendur hennar orðnir100. Það var stolt ættmóðir sem horfði yfir hópinn sinn sl. sumar þegar haldið var ættarmót í Grímsey. Við eigum öll góðar minningar frá ættarmótinu og Grímsey skartaði sínu fegursta og það gerði amma líka. Við vitum að söknuður mömmu okkar er sár, því aldrei höfum við vitað um jafn samrýndar mæðgur. Um áramótin fór Ella amma á hjúkrunarheimilið Víðihlíð og það var erfitt fyrir þær mæðgur að skiljast að og þá sögðu þær okkur að þeim hefði aldrei orðið sundurorða á ævinni. Pabbi okkar var alveg einstaklega góður og hugulsamur við ömmu, enda leið henni vel hjá foreldrum okkar. Að lokum þökkum við samfylgdina með ömmu og biðjum góðan Guð að geyma hana.

Rúnar, Hrafnhildur,

Gunnhildur og Óli Björn.

Elsku amma. Nú ert þú farin til afa sem ég veit að mun taka vel á móti þér, sennilega orðinn nettóþreyjufullur sá gamli. Mig langar að þakka þér fyrir allar góðar stundir í gegn um árin, bæði það sem þú gafst minni fjölskyldu hin seinni ár en ekki síst allt það sem þið afi gerðuð fyrir mig úti í Grímsey þegar ég var barn. Ég trúi að sumrin þar hafi gert mig að betri manni en ég ella væri. Margar af ljúfustu æskuminningunum eru frá þessum tíma. Þó að maður kæmi grútskítugur heim og blautur í báðar þá tókst þú öllu með þínu jafnaðargeði. Í mesta lagi fann maður heldur ákveðnari handtök þín við hárþvottinn um kvöldið. Þú varst afbragðs kokkur og besti bakari í heimi, eða það fannst okkur afa allavega þegar við borðuðum nestið frammi í lúkar á Haföldunni með heimalöguðu kakói. Enn og aftur, bestu þakkir fyrir alla hjartahlýjuna sem þú gafst af þér á langri leið.

Kveðja frá Sollu og dætrunum.

Eiríkur Dagbjartsson.

Hún Ella er dáin. Hennar tími kominn og að baki 94 ár sem hver og einn væri stoltur af að hafa lifað. Ástin sem hún Ella átti og miðlaði öðrum af hjartgæsku og hreinleika snart alla sem henni kynntust. Ég var svo lánsöm að kynnast henni árið 1987 þar sem hún bjó við ástúð og umhyggju tengdaforeldra minna í Grindavík. Á veturna var hún hjá Ingu sinni en á sumrin fór hún til eyjunnar sinnar fögru, Grímseyjar, og naut alls þess besta sem hún hafði upp á að bjóða. Haustið 1989 lést Óli eiginmaður hennar og lengdist þá vera hennar hjá Ingu og Venna. Þar bjó hún við ást og umhyggju þar til hún flutti á Hjúkrunarheimilið Víðihlíð í Grindavík í janúar síðastliðnum. Eins nánar mæðgur og Ingu og Ellu hef ég ekki vitað. Þær voru saman meira og minna allt lífið og varð aldrei sundurorða. Hún Ella var stórfengleg kona, eiginkona, móðir, amma, langamma og langalangamma. Allir afkomendurnir voru hennar líf og yndi og fylgdist hún með öllum fram í andlátið. Stundirnar sem við áttum saman og hún miðlaði úr viskubrunni sínum voru ómetanlegar. Hún talaði af reynslu og þekkingu, ekki af því að hún hafði lært á bókina heldur hafði hún gengið lífsins veg sem mótaði hana og gerði hana að þeirri stórkostlegu konu sem hún var. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast Ellu og kærleikanum sem hún var svo óspör á að miðla. Minningin um yndislega konu mun lifa um ókomin ár.

Guðrún Jóna Magnúsdóttir.