Sigurður Rósant Indriðason fæddist í Hafnarfirði 11. ágúst 1923. Hann lést á Sjúkrahúsi Suðurnesja 15. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Anna Þorláksdóttir, f. 4. apríl 1888, d. 24. des. 1930, og Indriði Guðmundsson, f. 3. maí 1891, d. 6. sept. 1942. Systkini Sigurðar: Pétur Einarsson, f. 4. júlí 1907, d. 4. júlí 1972; Anna Einarsdóttir, f. 21. ágúst 1908, d. 1983; Einar Indriðason, f. 15. ágúst 1916, d. 23. apríl 1993; Una Indriðadóttir, f. 6. nóv. 1918; Guðrún Indriðadóttir, f. 16. ágúst 1917; Guðríður Jóna Indriðadóttir, f. 14. ágúst 1920; Guðmundur H. Indriðason, f. 23. apríl 1922; Ósk Guðmundsdóttir (Indriðadóttir), f. 1. sept. 1924; Gunnar Þorkell Indriðason, f. 29. nóv. 1925; og Sigrún Alda Indriðadóttir 8. nóv. 1926.

Eginkona Sigurðar er Ásdís Klara Enoksdóttir, f. 12.8. 1930, og eiga þau fimm börn, þau eru: 1) Enok Kristinn, f. 4. júlí 1953, sambýliskona hans er Skul Iodsong Tragul, sonur hennar Kriangkrai. 2) Indriði, f. 8. feb. 1955, eiginkona Nanna Hjaltadóttir, dóttir þeirra er Hrönn Helga, f. 1983. Fyrir á Nanna dóttur, Margréti Gledhill, dóttir hennar er Elísabet Nanna. 3) Elísabet Anna, f. 8. apríl 1959, eiginmaður Eyjólfur Valsson. Börn þeirra eru Guðrún Hildur, f. 1983, og Birna Vala, f. 1987. Fyrir á Eyjólfur dóttur, Soffíu Melsteð, eiginmaður Jón Bartels, sonur þeirra er Einar Sturla. 4) Birna Kristín, f. 2. sept. 1961, eiginmaður Georg Alexander. Sonur hennar er Sigurður Ási Hannesson, eiginkona Brandy, sonur þeirra er Damyan. Fyrir á Georg þrjú börn, Dean, Clifford og Rebeccu, börn hennar eru Aidan og Aislin. 5) Hjálmar, f. 14. okt. 1963, sambýliskona hans er Ásdís Jóhannesdóttir, þau eiga tvö börn, Gunnar Kristin, f. 1991, og Þórunni Klöru, f. 1995.

Sigurður ólst upp á Þórkötlustöðum í Grindavík, hjá föðurbróður sínum Hjálmari og dóttur hans Elísabetu, hann ólst upp með frænku sinni Sólrúnu Guðmundsdóttur og leit ávallt á hana sem systur sína. Hann byrjaði sjómennsku ungur að árum og stundaði hana til 1973, að hann þurfti að hætta vegna heilsunnar. Hann hóf þá störf hjá varnarliðinu og starfaði hjá því þangað til hann fór á eftirlaun sjötíu og eins árs.

Útför Sigurðar verður gerð frá Grindavíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku pabbi, nú ert þú loksins kominn til hennar mömmu þinnar, sem þú misstir aðeins sjö ára, eftir öll þessi ár. Ég trúi því að þú hafir líka verið feginn að sjá hana fóstru þína. Þú saknaðir hennar Önnu ömmu svo mikið. Ég kem til með að sakkna þín mikið og nú fæ ég ekki að heyra sögurnar um lífið hér áður fyrr. Það var alltaf svo gaman að heyra þig segja frá. Sögurnar um sjóinn og lífið hér áður fyrr. Hvernig það var að vera á olíuskipinu sem þú varst á í seinni heimstyrjöldinni, hvernig þið strukuð af því rétt áður en því var sökkt.

Mínar bestu bernskuminningar voru þegar við vorum að ferðast um landið hér áður fyrr, hvað þú varst duglegur við að fara með okkur syskinin og mömmu í útilegur. Þú varst líka alltaf svo léttur í skapi og þolinmóður við okkur. Það var alveg sama hvað gekk á, alltaf gast þú hlegið með okkur. Það var alveg sama hversu veikur og mikið þú fannst til, aldrei heyrði ég þig kvarta. Þú varst alltaf tilbúinn að hjálpa okkur ef þú gast. Oft kom ég með stelpurnar til ykkar og þið pössuðuð þær fyrir mig meðan ég var að vinna eða í skólanum. Eftir að þú hættir að vinna sá ég þig aldrei sitja auðum höndum, þú fannst þér alltaf eitthvað að gera. Þú meira segja skiptir um þakið á húsinu ykkar fyrir tveim árum síðan.

Elsku pabbi, Guð blessi þig og þakka þér fyrir allt.

Þín dóttir

Elísabet.

Elsku pabbi minn.

Ég vil í fáum orðum þakka þér innilega fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og mína fjölskyldu í gegnum tíðina, þá sérstaklega fyrir börnin mín. Tárin brjótast fram er ég reyni að koma orðum að því sem mig langar til að segja við þig er ég kveð þig. Þegar ég lít til baka um farinn veg þá get ég í hreinskilni sagt að það er engin slæm minning um þig elsku pabbi minn. Þú varst alltaf svo góður, klettur í hafinu, stoð okkar og stytta. Í rauninni stóluðum við öll á þig og tilveru þína. Það verður erfitt án þín en þú ert okkar fyrirmynd og við ætlum að reyna að lifa lífinu eins og þú gerðir. Guð geymi þig og styrki mömmu á þessum erfiða tíma.

Þessa bæn kenndir þú mér þegar ég var lítill:

Vertu, Guð faðir, faðir minn,

í frelsarans Jesú nafni,

hönd þín leiði mig út og inn,

svo allri synd ég hafni.

(Hallgr. Pétursson.)

Þinn sonur,

Hjálmar.

Kallið kom ansi snöggt.

Við látum hugann reika, horfum á kertaljósið. Það fyrsta sem kemur upp í huga okkar er hvað þér þótti gaman að grúska í bílunum þínum. Þú varst heilu dagana að, annað hvort hálfur ofan í húddinu eða undir bílnum. Við munum að fyrir svona 12 árum síðan keyptir þú nýjan bíl og varst hundóánægður með hann því það var ekkert hægt að laga, þú seldir hann og keyptir eldri bíl sem hægt var að dytta að. Stundum voru bílarnir þínir ekki nóg því að þú tókst nú stundum bílana okkar líka. Þetta hélt þér gangandi eftir að þú fórst á ellilífeyrinn.

Þú varst höfðingi heim að sækja. Þér var annt um alla í kringum þig og oft komst þú eða Klara óumbeðin til okkar og þið veittuð alla þá hjálp sem við þurftum í það og það skiptið. Þú hugsaðir alltaf fyrst um fólkið í kringum þig, sjálfan þig síðast. Þú fylgdist vel með hvernig gekk hjá okkur og þér fannst gaman að framkvæmdunum hjá okkur í fyrrasumar og í vetur. Það var alltaf gaman að fá þig í heimsókn og sýna þér nýorðnar breytingar.

Gunnari og Þórunni þótti svo gaman að koma til ykkar Klöru, þið voruð þeim góð og gjafmild. Stundum raukst þú út í búð af því að það var ekki til kókómjólk og fleira handa þeim.

Við héldum að þú værir eitthvað veikur og töldum við þig vera með flensu, á laugardeginum 8. febrúar síðastliðinn. Daginn eftir varstu aftur á móti hress og kátur og fórst í búðina, talaðir við búðarkonurnar, hinn kátasti. Á mánudeginum varstu síðan veikur aftur.

Þú fórst á spítala miðvikudaginn 12. febrúar og lést þar laugardaginn 15. febrúar.

Þér fannst gaman að syngja og þú lékst líka oft á munnhörpuna þína, það var gaman að hlusta á þig.

Þú sagðir okkur líka frá því þegar þú lentir í sjávarháska úti á sjó, þegar þú varst sjómaður. Þú sagðir okkur margar reynslusögur af sjónum og það var gaman að hlusta á þig.

Við tókum þig og Klöru stundum með í ferðalög og þið nutuð þess.

Þú varst harður við þig, þú kvartaðir aldrei þótt að þú værir kvalinn, stundum hristum við hausinn yfir því hvað þú lagðir á þig. Stundum þurfti að skipa þér til læknis.

Það var svo gott að eiga þig að Siggi okkar og það eru svo margar minningar í hjarta okkar, yndislegar minningar. Við sjáum þig aldrei aftur, sjáum þig aldrei aftur koma akandi upp heimtröðina til okkar og það er sárt.

Þú hugsaðir um Klöru fram á þinn síðasta dag. Við tökum núna við öllu því sem þú gerðir, svo vel, og reynum að gera eins vel og þú gerðir.

Oft varst þú ósammála stjórnmálamönnunum í sjónvarpinu og þú sagðir þá umbúðalaust þína skoðun, við sjónvarpsskjáinn, og þá brostum við út í annað.

Oft fannst þér við of ströng við börnin okkar þegar við vorum að sussa á þau þegar þau voru ærslafull. Þú tókst upp hanskann fyrir þau og sagðir "Þetta er allt í lagi". En stundum varstu þreyttur, þá sagðir þú blíðlega við þau að afi væri þreyttur, afi vildi hvíla sig.

Gunnar, sonur okkar, fór oft yfir til þín og ömmu til að fá spælt egg hjá þér. Það var miklu betra hjá afa heldur en hjá okkur foreldrunum. Það var líka svo gott að vera hjá afa og ömmu. Þú hafðir líka svo gaman af því að skreyta allt hjá ykkur Klöru fyrir jólin, enda mikið jólabarn, og þú sagðir að þetta væri fyrir börnin. Þú keyptir oft eitthvað nýtt jólaskraut fyrir hver jól, nú síðast keyptir þú slönguljós, þú varst svo hrifinn af því.

Það var svo gaman að hafa ykkur Klöru síðastliðið gamlárskvöld, sú minning eins og svo margar aðrar ylja okkur núna og í framtíðinni.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Valdimar Briem.)

Siggi, takk fyrir allt.

Elsku Klara. Missir þinn og okkar allra er mikill. Megi Guð vera með okkur öllum á þessum erfiða tíma.

Ásdís Jóhannesdóttir.

Elsku afi.

Þegar við systkinin fórum í pössun til ykkar afa og ömmu þá var það fyrsta sem þú gerðir að spyrja okkur hvort við værum svöng. Ef við sögðum já, þá fórum við í búðina, ef við sögðum nei þá baðst þú okkur að láta þig vita þegar við yrðum svöng. Þegar við komum heim borðuðum við allt og vorum alltaf glöð og þá varst þú, afi, ánægður með það. Við elskum þig afi. Þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur. Guð geymi þig og styrki ömmu.

Gunnar Kristinn og

Þórunn Klara.