Úr Örlagasystrum, sýningu Menntaskólans við Hamrahlíð.
Úr Örlagasystrum, sýningu Menntaskólans við Hamrahlíð.
Leikgerð Stephen Briggs á sögu Terry Pratchett, þýðandi: Gunnar Freyr Steinsson, leikstjórar: Atli Rafn Sigurðsson og Brynhildur Guðjónsdóttir, tónlist: Guðmundur Steinn Steinsson, lýsing: Geir Magnússon. Austurbæ 14. febrúar 2003.
Á ENGAN er hallað þótt fullyrt sé að Herranótt og Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð séu öflugustu framhaldsskólaleikfélögin sem ekki gera út á "stórsjóin", heldur halda sig við "venjulegri" leiklist. Metnaður í verkefnavali og listrænn kraftur er jafnan einkenni á starfsemi þeirra. Að þessu sinni hafa þau bæði valið leikgerðir á skáldsögum, og svo vill til að báðar sögurnar eru af fantasíuætt.

Terry Pratchett er afkastamikill höfundur og Diskheimssögur hans eiga sér drjúgan hóp aðdáenda hér á landi, enda mikið hugmyndaflug í gangi og Pratchett leikinn í að láta undur og stórmerki Diskheims kallast á við hinn öllu hversdagslegri raunveruleika okkar jarðarbúa. Örlagasystur er í grunninn nokkuð venjulegt ævintýri, sem er teygt og togað í spéspegli höfundar. Í ríki einu hefur kóngurinn verið myrtur og valdaræningi sest í stól hans. En vitaskuld hefur tekist að koma kornungum syni hans undan og nornirnar þrjár sem nafnið vísar til koma honum í fóstur hjá farandleikflokki. Og auðvitað er nýi stjórnandinn algerlega ómögulegur, og auk þess nagaður af samviskubiti. Og konan hans tík með kvalalosta.

Fljótlega sjá nornirnar að það er ekki um annað að ræða en að koma hinum rétta krónprinsi til manns hið snarasta og gera hann að konungi. Pratchett leikur sér hér með ýmis ævintýraminni og bætir vænum skammti af Shakespeare við. Sumt er það hnyttið, annað frekar þunnt eins og gengur.

Það verður að segjast að ekki skila töfrar Diskheims sér alfarið af pappírnum yfir á leiksviðið. Trúlega er húmorinn of víða bóklegur, og hitt hjálpar ekki að til að skila heilli nýrri heimsmynd þarf íburðarmeiri umgjörð og sviðsetningu en þá sem LFMH hefur á valdi sínu. Allt um það þá gerir stór og kraftmikill leikhópurinn sitt besta til að skemmta áhorfendum og sýningin er full af litlum skemmtilegum hugmyndum sem kalla fram bros og hlátur.

Nornunum þremur er ágætlega skilað af Uglu Jóhönnu Egilsdóttur, Jóhönnu Ósk Baldvinsdóttur og Höllu Ólafsdóttur og Antoine Hrannar Fons og Hildur Helga Kristjánsdóttir eru skemmtileg sem hin siðlausu valdaránshjón. Fíflið er gott hjá Árna Kristjánssyni og samleikur þeirra Höllu Ólafsdóttur einlægur og jafnframt fyndinn.

Örlagasystur eru fyrsta sýningin sem undirritaður sér í Austurbæ og ekki get ég sagt að húsið hafi heillað mig. Fyrir utan stærðina, sem öll er á lengdina, er hljómburðurinn afleitur fyrir óuppmagnað talað mál. Fyrir vikið þurftu óþjálfaðir leikarar sýningarinnar alltof oft að standa á orginu, sem einatt dregur úr áhrifamætti þess sem sagt er. Þar fyrir utan var margt gott um vinnu þeirra og leikstjóraparsins að segja og aðdáendur höfundarins ættu ekki að sleppa þessu tækifæri til að skoða sig um í Diskheimum.

Hundshjarta á Herranótt

Í Hundshjarta erum við hins vegar stödd í okkar eigin heimi, nánar tiltekið í sæluríki kommúnismans með allri sinni yfirborðsstjórnvisku og undirkraumandi spillingu og valdatafli. Vísindamaður gerir tilraun með að græða hjarta úr smáglæpamanni í flækingshund og öðlast rakkinn þegar ýmsa mannlega eiginleika. Þetta þykja mikil undur og stórmerki, en fljótlega kemur í ljós að afstyrmið sem hann hefur skapað er óþægilega flinkur í lífsbaráttunni í Sovét, eiginleikar hunds og manns nýtast sérlega vel við að koma ár sinni fyrir borð í þessu spillta og ómennska samfélagi.

Leikstjórinn velur þá leið að staðsetja verkið í heimi gamalla hryllingsmynda og tekst sú stílfærsla afar vel, enda gegnumfærð í búningum, leikmynd og tónlistarflutningi. Efnið er líka í anda slíkra mynda svo þetta er vel til fundið hjá Ólafi. Það er helst að leikurinn hefði mátt vera meira gegnumfærður í "þöglumyndastíl", en ef til vill er það til of mikils mælst.

Sviðsetningin er feikivel unnin í einfaldri en snjallri umgjörð Kristínu Berman. Það er mikill hraði í sýningunni, sem er gott, nema þegar mikilvæg augnablik týnast í látunum sem gerist stundum, og þegar hraðinn smitast yfir í talhraða leikenda, sem henti hjá nokkrum, þó síst hjá aðalleikendum, sem er gott. Þá hefur leikstjórinn greinilega það mikið vald á verki sínu að hann leyfir sér að hlaupa út undan stílnum þegar góður brandari er í húfi og uppsker iðulega vel.

Læknarnir tveir eru vel leiknir af Hilmi Jenssyni og Karli Ágústi Þorbergssyni, og sá síðarnefndi var eins og klipptur út úr dr. Caligari.

Helga Lára Haarde og Harpa Viðarsdóttir eru góðar sem eldabuska og hjúkrunarkona/húsfreyja/ritari. Mikið hvílir á Sigurði Arent Jónssyni í stjörnuhlutverki hundsins. Mér fannst hann ekki allskostar finna sig í hinum "hreinræktaða" hundi, en eftir að mannshjartað var komið í hann var hann frábær, hvíldi algerlega í sínum siðblinda skíthæl og stóð með honum allt til enda. Húsfélagsformenn eru einatt afkáraleg mannkerti hjá Búlgakov eftir því sem ég þekki til og Markús Már Efraím var ágætur sem einn slíkur, þó ekki væri hann alfarið laus við fyrrnefndan talhraðavanda.

Hundshjarta er heilsteypt og sterk sýning á skemmtilega súrrealískri martröð með sterkum siðferðilegum undirtóni sem aldrei týnist alveg í uppátækjum og ólíkindalátum hópsins.

Leikfélag Húsavíkur

Tónlistin gegnir óvenju mikilvægu hlutverki í sýningu Leikfélags Húsavíkur á Þrúgum reiðinnar, stærra hlutverk en í rómaðri uppfærslu Leikfélags Reykjavíkur. Auk laga KK sem þar urðu til hafa Húsvíkingar bætt við lögum eftir Bubba Morthens, tveimur eftir tónlistarstjórann, Guðna Bragason, og kyrja auk þess hið frábæra Man of Constant Sorrow úr Ó brother, where art thou, sem á einstaklega vel við. Það sama gildir um lög Guðna og svo náttúrulega Fjöllin hafa vakað, sem ég hef hingað til ekki vitað um hvað er, en veit núna. Innblásin hugmynd. Um Manila er ég ekki eins viss.

Tónlistarflutningur þriggja manna hljómsveitar er algerlega skotheldur og kontrabassi hljómsveitarstjórans er á við meðal hljóðgervil í áhrifshljóðadeildinni.

Stórvirki Steinbecks um uppflosnun Oklahomabænda vegna kreppu og vélvæðingar og ómennska misnotkun ávaxtaiðnaðarins í Kaliforníu á neyð fólksins snertir greinilega streng í brjósti Þingeyinga nú á tímum kvótabrasks, fólksflótta og óvissrar framtíðar. Arnór Benónýsson hefur sýnt það í kraftmiklum sýningum sínum hjá Ungmennafélaginu Eflingu að honum er lagið að virkja tilfinningar leikara sinna og þessi sýning er engin undantekning þótt annað sé félagið.

Leikgerðin fer eðlilega þá leið að einbeita sér að Joad-fjölskyldunni og ferðalagi hennar og er þeim öllum skilað á einkar trúverðugan og sterkan hátt, og eins og áður í sýningum Arnórs næst hér alger samruni milli Oklaranna úr kreppunni og Húsvíkinganna á sviðinu. Gunnar Jóhannsson og synir hans, Jóhann Kristinn og Hilmar Valur, eru verulega góðir sem fjölskyldufaðirinn og tveir sona hans og Anna Ragnarsdóttir sterk og sönn sem móðirin. Þorkell Björnsson er sannfærandi sem hinn samviskubitni bróðir Joads og það sama má segja um aðra fjölskyldumeðlimi sem leiknir eru af Svavari Jónssyni, Guðnýju Þorgeirsdóttur, Eyrúnu Ýri Tryggvadóttur, Sigurjóni Ármannssyni, Ármanni Erni Gunnlaugssyni og Anítu Guðjónsdóttur. Fyrir utan fjölskylduna mæðir mest á hinum heimspekilega predikara Jim Casy. Hann er í öruggum höndum Sigurðar Illugasonar. Aðrir leikarar fá tækifæri til að skapa persónur sem birtast í svipleiftri og trúlega verða vankaður tjaldbúi Guðnýjar Þorgeirsdóttur og bílasali Guðna Bragasonar eftirminnilegust af þeim.

Þrúgur reiðinnar er stór saga og vitaskuld er stiklað á stóru í leikgerð hennar. Þetta bitnar meira á síðari hluta sögunnar sem verður æði brotakennd og ekki alls kostar ljósar þær skelfilegu aðstæður sem Joad-fólkið mætir og hvernig þær eru til komnar. Sýningin missir fyrir vikið flugið eftir hlé, en nær því aftur í tilfinningaþrungnum og dramatískum lokaatriðum sem eru verulega áhrifamikil í einfaldleik sínum. Fyrri hlutinn er sterkari enda erum við þá að kynnast þessu blóðríka og skemmtilega fólki og draumum þess um betra líf, sem okkur og jafnvel þau grunar að sé tálsýn ein.

Þorgeir Tryggvason