27. febrúar 2003 | Viðskiptablað | 772 orð

Fróðleg heimild

Á blaðamannafundi hinn 6. október árið 1979 tilkynnti þáverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Paul Volker, að fjármagn í umferð myndi í framtíðinni ekki lengur breytast í takt við hringrás efnahagssveiflna.
Á blaðamannafundi hinn 6. október árið 1979 tilkynnti þáverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Paul Volker, að fjármagn í umferð myndi í framtíðinni ekki lengur breytast í takt við hringrás efnahagssveiflna. Þess í stað kæmi vaxtastig til með að breytast í meira mæli út frá markaðsaðstæðum. Tveimur árum eftir tilkynningu Volkers tók vaxtastig í Bandaríkjunum að lækka eftir að hafa hækkað stöðugt undanfarin fimmtán ár. Aukið flökt leiddi til þess að áhættufjárfestingar í skuldabréfum jukust gífurlega. Samhliða lækkandi vaxtastigi jókst lántaka ríkis, fyrirtækja og neytenda stöðugt næstu árin gífurlega og ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um að hægt væri að gjaldfæra lánakostnað urðu til að bæta olíu á eldinn. Skuldabréf með margvíslegum ríkisábyrgðum voru mest í sviðsljósinu, en það var þróun sem átti eftir að hafa víðtæk áhrif á fjármálakerfi Bandaríkjanna.

Þetta tímabil, árin 1981 til 1987, er meginviðfangsefni bókarinnar Liar's Poker eftir Michael Lewis. Í bókinni lýsir Lewis reynslu sinni sem starfsmaður hjá verðbréfafyrirtækinu Salomon í þrjú ár, sem var fremsta fyrirtækið á sviði skuldabréfa með ríkisábyrgð á þeim tíma. Auk þess dregur Lewis upp mynd af ástandinu hjá fyrirtækinu almennt og mörkuðum á því tímabili.

Hluti bókarinnar fer í að lýsa vinnuandanum sem ríkti hjá Salomon, aðallega út frá sjónarhóli Lewis sem þá var enn í starfsnámi (verðbréfamiðlarar í Bandaríkjunum verða að taka 3 mánaða starfsnám áður en þeir mega hefja viðskipti) og reynslu hans sem sölumaður skuldabréfa. "Kúltúrinn" í fyrirtækinu líktist frekar því sem ætla má að sé algengt í menntaskólabekk heldur en í virtu verðbréfafyrirtæki. Fjögurra stafa klúryrði var mest notaða lýsingarorðið, jafnvel á tíðum mælikvarði um karlmennsku (konur voru að mestu leyti settar í störf sem lítið bar á).

Lewis komst sjálfur fljótt að því að það skipti litlu máli fyrir hann og fyrirtækið hvort viðskiptavinir hans högnuðust eða töpuðu á viðskiptum sínum við Salomon. Reyndar var það oftar en ekki svo að ef Salomon hagnaðist á því að selja illseljanleg skuldabréf úr bókum sínum til viðskiptavina, sem þurftu augljóslega að gjalda það dýru verði að hafa verið leiddir í gildru, þá var salan í augum yfirmanna hans jafnvel enn betri. Lewis var iðulega minntur á að það var Salomon en ekki viðskiptavinir hans sem greiddu honum launin hans.

Lítið var lagt upp úr menntun starfsfólks til að það gæti metið almennilega þau skuldabréf sem það var að selja, nema með yfirborðslegum hætti svo það gæti sagt eitthvað um gildi og hlutföll sem hluta af kynningu bréfanna. Talið var gott að nýliðar fengju minni viðskiptavini til að glíma við því þeir viðskiptavinir væru síður líklegir til að vera til vandræða ef fjárfestingar þeirra færu illa, sem oft gerðist. Sjálfur hafði Lewis sáralitla þekkingu á mörgum þeirra bréfa sem hann seldi fyrir milljónir dala og hið sama gilti um flesta samstarfsaðila hans sem hann lýsir í bókinni.

Þó svo að lesningin um "kúltúrinn" hjá Salomon sé stundum litrík og ævintýraleg er sagan um uppgang skuldabréfaviðskipta fyrirtækisins jafnvel enn stórkostlegri. Sú saga tengist aðallega svokölluðum Savings and Loans (S&L;) fjármálastofnunum sem höfðu fram að því verið stöndugir lánveitendur til húsbyggjenda. Vegna hækkandi vaxtastigs veitti Bandaríkjastjórn S&L; skattafríðindi síðari hluta ársins 1981, þegar vaxtastigið var kaldhæðnislega í hámarki sem ekki hefur sést síðan. Eini gallinn á gjöf Njarðar var að S&L; þurftu að selja fasteignaveðbréf sín, og kaupa önnur í staðinn, til að fá skattafríðindin. Eina fjármálafyrirtækið með mannskap sem hafði þekkingu á þeim bréfum og var þar af leiðandi tilbúið að versla með þau var Salomon. Forstjórar S&L; höfðu fáa aðra valkosti en að selja í gegnum Salomon, þrátt fyrir að vera meðhöndlaðir á þeim bæ með dónaskap, bæði hvað framkomu varðaði og ekki síst verðlagningu. Annaðhvort gengu þeir að kjörum Salomon eða þeir urðu atvinnulausir vegna þess að fyrirtæki þeirra fóru einfaldlega á hausinn ef þau gátu ekki umbreytt lánum og nýtt skattaafsláttinn. Fákunnátta margra stjórnenda S&L-stofnana; var nýtt til hins ýtrasta hjá Salomon. Auk þess áttuðu starfsmenn Salomon sig fljótlega á því að hægt væri að reikna út líkurnar á því að veðbréf yrðu greidd upp á ákveðnum svæðum. Salomon keypti bréf, sem voru líkleg til að vera greidd upp fljótlega, með miklum afföllum, til að fá þau greidd án affalla skömmu síðar. Um tveimur árum eftir útgáfu bókarinnar Liar's Poker lentu mörg S&L-fyrirt;æki aftur í hremmingum því mörg þeirra höfðu fjárfest í fyrirtækjabréfum á slæmum kjörum sem mörg urðu verðlaus. Afleiðingin var mesta tap sögunnar í fjármálageiranum.

Liar's Poker er í senn afar beinskeytt og fyndin bók um lífið á Wall Street. Hún er fróðleg heimild um þá ótrúlegu þróun sem átti sér stað í skuldabréfaheiminum árin 1981 til 1987. Þá má velta fyrir sér hversu mikið af því sem þar er lýst á sér samsvörun í fjármálaheiminum í dag, tveimur áratugum seinna.

mixa@sph.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.